Conor McGregor mætir Khabib Nurmagomedov á UFC 229 næsta laugardag. Conor var í áhugaverðu viðtali við The MacLife á dögunum frá Las Vegas.
Conor snýr aftur í búrið eftir tveggja ára fjarveru á laugardaginn. Conor vann þá léttvigtartitil UFC en hefur í dag verið sviptur þeim titli sem og fjaðurvigtartitlinum. Conor lýsir yfir pirringi sínum yfir að hafa verið sviptur titlunum enda segist hann aldrei hafa verið beðinn um að verja beltin.
Conor segir að hann eigi nóg af peningum og þurfi ekki að berjast en sé að gera það vegna ást hans á íþróttinni. Hann viðurkennir þó að allar fjölmiðlaskyldurnar og niðurskurðurinn hafi um tíma minnkað áhugann hans á íþróttinni.
Þá talar hann um mögulegan 165 punda flokk og að minni niðurskurður leiði af sér betri bardaga.