Johny Hendricks mætir Neil Magny á UFC 207 á föstudaginn. Hendricks spjallaði við blaðamenn í gær og þótti spjallið nokku furðulegt.
Johny Hendricks hefur átt erfitt uppdráttar en hann hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum. Hann tók það sérstaklega fram að honum þætti viðtöl leiðinleg og er þreyttur á því að stöðugt sé verið að spyrja hann að því sama aftur og aftur. Þá virtist hann eiga erfitt með að standa og talaði hálf samhengislaust.
Hendricks hefur oft átt erfitt með vigtina en segist vera í toppmálum með þyngdina að þessu sinni. Hann skoraði þó á fjölmiðlamenn að skera niður um 20 pund svo þeir myndu skilja betur hvað hann er að ganga í gegnum.
Hendricks var líka ósáttur með að stóri fjölmiðladagurinn sé daginn fyrir vigtunina enda er hann að minnka vatnsinntöku í niðurskurðinum og er það því ekki besti tíminn til að spjalla við fjölmiðla í nokkra tíma.
Spjallið í heild sinni var allt hið furðulegasta, en heiðarlegt, og má sjá það hér að neðan.