Jon Jones er farinn að stunda lyftingar af mun meiri krafti en áður. Nýlega póstaði hann myndbandi af sér að lyfta 265 kg í súmóréttstöðulyftu.
Ótímabundnu banni Jon Jones lauk nýverið og mun hann snúa aftur í búrið á næsta ári. Jones er staðráðinn í að snúa til baka betri en nokkru sinni fyrr og virðist vera í góðu formi.
Á meðan Jones var meistari æfði hann nánast ekkert milli bardaga og snerti nánast aldrei lóðin. Nú hefur orðið breyting þar á og hefur Jones sett nokkur myndbönd af sér að taka stórar æfingar eins og hnébeygju og nú réttstöðulyftu. Jon ‘Bones’ Jones fékk viðurnefnið Bones á skólaárum sínum þar sem hann þótti með svo grannar lappir en nú gæti orðið breyting þar á.
Auk þess að lyfta hefur Jones verið að hjálpa liðsfélögum sínum fyrir bardaga sína og hefur m.a. aðstoðað Holly Holm fyrir bardaga hennar gegn Rondu Rousey. Það er því óhætt að segja að Jones sé í æfingasalnum sem er frábrugðið því sem áður var.
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Jones hafi æft lítið milli bardaga á meðan hann var besti bardagamaður heims. Nú þegar hann virðist æfa af meiri krafti, án þess að vera að æfa fyrir bardaga, gæti hann orðið ógnvænlega góður. Það verður að minnsta kosti áhugavert að sjá hann gegn Daniel Cormier þegar þeir mætast aftur á næsta ári.
Í neðangreindu myndbandi sést hann lyfta 265 kg í súmóréttstöðulyftu sem verður að teljast ansi gott hjá manni sem er nýlega farinn að stunda lyftingar af einhverju viti. Jones virðist vera staðráðinn í að ná beltinu sínu aftur.
https://www.youtube.com/watch?v=T2LSriGJquE
Samkvæmt Twitter reikningi hans er Jones um 102 kg.
226 lbs right now and feeling amazing! #BelieveInTheProcess pic.twitter.com/xe788Wvyme
— Jon Bones Jones (@JonnyBones) November 4, 2015