Daniel Cormier berst í fyrsta sinn á ferlinum í léttþungavigt nú um helgina en hann hefur hingað til barist í þungavigt. Niðurskurðurinn virðist ganga ágætlega en hann er kominn niður í 217,8 pund.
Daniel Cormier hefur lengi vel daðrað við þá hugmynd að létta sig í léttþungavigt. Cormier þótti frekar lítill fyrir þungavigtina og eilítið þybbinn fyrir topp íþróttamann. Cormier var framúrskarandi glímumaður áður en hann hóf MMA ferilinn og komst tvisvar á Ólympíuleikana í glímu þar sem hann keppti í -96 kg flokki. Á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 var niðurskurðurinn erfiður. Cormier var að skera óhóflega mikið (ekki í fyrsta sinn) og lenti í nýrnabilun. Vegna nýrnabilunarinnar gat Cormier, fyrirliði glímuliðs Bandaríkjanna, ekkert keppt á Ólympíuleikunum 2008. Þetta var vitaskuld mikið áfall fyrir Cormier og herma fregnir að nýrun hans virki ekki sem skyldi enn þann dag í dag. Þetta er afleiðing af illa undirbúnum niðurskurði á löngum glímuferli.
Af þessum sökum ákvað Cormier að berjast í þungavigt í MMA en berst um helgina í léttþungavigt í fyrsta sinn. Hann var enn ósigraður í þungavigtinni þegar hann ákvað að færa sig niður í léttþungavigt til að fá tækifæri til að berjast gegn meistaranum Jon Jones. Eins og sést á myndinni hér að neðan gengur niðurskurðurinn ágætlega en hann er kominn niður í 217,8 pund, nokkrum pundum frá 205 punda takmarkinu.
Cormier birti þessa mynd af sér í gær á Instagram miðlinum en myndin sýnir Cormier 217,8 pund. Cormier þarf að missa tæp 12 pund (5,5 kg) fyrir föstudaginn en þá fer vigtunin fram fyrir UFC 170. Daniel Cormier mætir UFC nýliðanum Patrick Cummins í næst síðast bardaga kvöldsins.
Nær Cormier þyngd á föstudaginn?