Tuesday, September 10, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNate Diaz hreinsaður af sök - bardaginn 100% á dagskrá

Nate Diaz hreinsaður af sök – bardaginn 100% á dagskrá

Nate Diaz var seint í gærkvöldi hreinsaður af sök og mun ekki fá bann. Bardagi hans gegn Jorge Masvidal er því aftur á dagskrá.

Nate Diaz sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudagskvöldið sem kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Diaz tilkynnti að hann myndi ekki berjast á UFC 244 gegn Jorge Masvidal þar sem eitthvað óvenjulegt hefði komið upp á lyfjaprófi hans.

MMA aðdáendur óttuðust hið versta og töldu að bardaginn myndi ekki fara fram. Leon Edwards var sagður vera varamaður en hann neitaði því sjálfur að honum hefði verið borgað fyrir að vera til taks. Mikil óvissa var á lofti en nú virðist allt vera klappað og klárt fyrir bardagann.

Dana White tilkynnti síðan í gær að bardaginn væri 100% á dagskrá.

Ólöglega efnið sem fannst í lyfjaprófi Nate Diaz var sáralítið. Leifar af LGD-4033 eða Ligandrol (SARM efni, selective androgen receptor modulator) fundust í lyfjaprófi hans og hefur USADA (sem sér um lyfjamál UFC) fundið uppsprettu efnisins. Lífrænt vegan fjölvítamín var sökudólgurinn en vítamínið var mengað.

USADA telur að Diaz hafi ekki brotið neinar reglur og að magnið sem fannst hafi verið sáralítið. Að sögn Jeff Novitzky (starfsmanni UFC) þyrfti magnið að vera töluvert meira til að gera eitthvað gagn.

USADA og UFC hafa verið að vinna í að aðlaga stefnu sína í lyfjamálum og refsa ekki mönnum sem eru með minna en 100 píkógrömm/mL af ákveðnum efnum sem geta fundist í menguðum fæðubótarefnum eða kjöti. Mál Neil Magny er keimlíkt þessu máli en hann var einnig hreinsaður af sök fyrr á þessu ári eftir að sama efni fannst í örlitlu magni á lyfjaprófi hans.

Novitzky segir að efnið sem fannst í Diaz hafi verið í tveggja stafa tölum og langt undir 100 píkógramma þröskuldnum. Hann sagði einnig að Diaz hefði þurft að taka 10.000 hylki af vítamíninu til að efnið yrði frammistöðubætandi.

Bardaginn virðist því vera aftur kominn á dagskrá en Nate Diaz hefur ekki enn tjáð sig um málið síðan tilkynningin kom út. Bardaginn fer fram á UFC 244 þann 2. nóvember í Madison Square Garden.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular