spot_img
Saturday, January 4, 2025
Minigarðurinnspot_img
HomeErlentNate Diaz kemur til dyranna eins og hann er klæddur

Nate Diaz kemur til dyranna eins og hann er klæddur

nate diazAnnað kvöld berst Conor McGregor við Nate Diaz á UFC 202. Nate Diaz hefur aldrei verið stærri stjarna en það eru ekki allir sem skilja Nate Diaz og hans hegðun.

Margir telja að hann sé ekkert nema hassreykjandi götustrákur sem heldur að hann sé svaka harður. Þegar betur er að gáð má sjá að Diaz bræðurnir eru ótrúlega áhugaverðar manneskjur sem er oft ekki auðvelt að skilja.

Nate og Nick Diaz koma frá Stockton í Kaliforníu. Borgin er sögð ein sú versta í Bandaríkjunum og er stærsta borg Bandaríkjanna sem hefur orðið gjaldþrota. Nate veit að það er klisjukennt að segjast koma frá erfiðu hverfi og þá sérstaklega í MMA bransanum en það er bara staðreynd í þeirra tilviki. Í Stockton þarftu alltaf að vera tilbúinn til að slást. Og það eru Diaz bræðurnir svo sannarlega.

„Þessir gæjar segjast vera spenntir fyrir því að berjast og elska að berjast. Það er bara kjaftæði. Enginn elskar að slást,“ sagði Nate Diaz við Brett Okomoto á dögunum um kollega sína.

„Auðvitað er gaman að vinna en hver í fjandanum vill fara í búr fyrir framan allan heiminn og kannski rotast? Það er ekki spennandi. Það er ekki gaman og ég elska það ekki.“

„Ég sendi mönnum fingurinn og segi ‘Fuck you’ og þeir sitja þarna eins og við séum ekki að fara að slást. Við erum að fara að slást. Sumir eru að láta þetta líta út eins og íþrótt en ég geri mér grein fyrir því hvað er að fara að gerast.“

„Ég bið ekki mömmu mína, kærustuna eða vini míni um að horfa á bardagann. Þau mega horfa ef þau vilja en ekki vera hneyksluð þegar ég verð ljótur. Þetta er ekki falleg íþrótt.“

nate-diaz-and-nick-diaz

Það er erfitt að fá Diaz bræðurna til að leika í auglýsingu og því erfitt að ímynda sér að þeir gætu sett upp eitthvað leikrit á blaðamannafundi eins og á miðvikudaginn. Diaz bræðurnir koma nefnilega til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þeir setja ekki upp neina ímynd í fjölmiðlum til að þykjast vera harðir eða reiðir. Þeir eru bara svona. Andstæðingurinn er óvinurinn og þú ert að fara í stríð. Þú ert ekki að fara að verða vinur hans.

Starandi augnaráðið þeirra á andstæðingana er ekki heldur einhver leikur. Þeir stara á andstæðinginn fyrir bardaga með sama augnaráðinu hvort sem myndavélar eru á stjá eða ekki. Nick og Nate eru ekki að fegra hlutina. Þú munt vita það mjög fljótt ef þeim líkar ekki við þig. Þetta er enginn leikur fyrir þeim.

Báðir eru þekktir fyrir að tala við andstæðinginn í miðjum bardaga. „That’s all you got, you little bitch? That’s all you got? Fucking bitch,“ sagði Nate við Manny Gamburyan í miðjum bardaga þeirra.

Í aðdraganda bardagans gegn Conor hefur hann ekki viljað gefa upp hvernig hann telur að bardaginn fari. Þannig hefur það í raun alltaf verið. Hann er ekki einu sinni viss um að hann sigri en hann veit að hann fer í búrið tilbúinn í stríð og honum er fúlasta alvara.

Þeir eru þó alvöru bardagalistamenn og sýna andstæðingnum virðingu eftir bardaga, hvort sem það er í sigri eða tapi (svo lengi sem andstæðingurinn gerir hið sama). Nate tekur ekki í höndina á þér í vigtuninni fyrir bardagann en hann gerir það eftir bardagann. Þá á hann ekkert sökótt við þig lengur. Eftir bardagann við Rory Markham litu þeir bræðurnir við í búningsklefann hjá honum eftir bardagann til að ganga úr skugga um að hann væri í lagi. Þeir virða andstæðinginn en vilja kannski ekki endilega vera vinir hans.

Þannig haga þeir sér alla daga, allt árið. Þeir vilja ekki blanda geði við aðra bardagamenn fyrir utan sína liðsfélaga. Liðsfélagarnir skipta líka gríðarlegu máli enda er þetta Diaz liðið gegn heiminum.

Á morgun mun Nate Diaz standa frammi fyrir Conor McGregor og reyna að sigra hann aftur. Diaz og Conor eru engir vinir en þeir bera virðingu fyrir hvor öðrum – sama hvernig þeir haga sér á blaðamannafundum.

Heimildir:

MMA Fighting

ESPN

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular