UFC bardagamaðurinn Neil Magny átti að keppa á laugardaginn gegn Vicente Luque. Magny féll hins vegar á lyfjaprófi og fær ekki að keppa.
Þeir Neil Magny og Vicente Luque áttu að mætast á UFC bardagakvöldinu í New York um helgina. Fyrr í vikunni greindi UFC hins vegar frá því að bardagi Neil Magny og Vicente Luque væri ekki lengur á dagskrá.
Í fyrstu var ekki vitað hvers vegna bardaginn væri af borðinu en talið var að Magny væri meiddur. Neil Magny greindi svo sjálfur frá því í gær að hann hefði fallið á lyfjaprófi.
Lyfjaprófið var tekið utan keppnis af USADA en málið verður rannsakað nánar áður en Magny fær einhvers konar bann. Magny ætlar að vinna náið með USADA til að komast til botns í þessu en hann heldur fram sakleysi sínu.
Efnið sem fannst kallast Di-Hydroxy-LGD-4033 (selective androgen receptor modulator, SARM) og hefur svipaða eiginleika og anabólískir sterar en með minni aukaverkanir en hefðbundnir sterar. SARM hefur margsinnis verið tengt menguðum fæðubótarefnum.
Magny sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist vera handviss um að hann hefði ekki gert neitt rangt og að USADA muni hreinsa hann af sök.
Magny átti að mæta Gunnari Nelson á UFC bardagakvöldinu í Liverpool fyrir ári síðan en Gunnar þurfti að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla.