0

Nick Diaz kannast ekkert við bardaga gegn Jorge Masvidal

Talað hefur verið um að Nick Diaz mæti Jorge Masvidal í mars í endurkomu Nick Diaz í MMA. Nú vill Diaz ekkert kannast við bardagann.

Fyrst var talað um bardagann í nóvember og sagðist ESPN hafa heimildir fyrir því að allt væri klappað og klárt. Dana White sagði svo á blaðamannafundinum eftir UFC 231 að bardaginn væri á dagskrá en nú vill Diaz ekkert kannast við bardagann.

Í nýlegu viðtali við ESPN segist Nick Diaz ekki vera á leið aftur í búrið. „Það er margt um að vera hjá mér þessa dagana og er ég með nokkur fyrirtæki. Þegar allt verður eins og það á að vera og þeir [UFC] bjóða mér bardaga gegn einhverjum sem þeir virða og ég virði getum við komist að samkomulagi. Þannig líður mér.

Jorge Masvidal hefur þegar samþykkt bardagann en Diaz hefur ekki skrifað undir neitt. Diaz tekur það þó fram að hann hafi ekkert á móti Masvidal en hafi bara ekki samþykkt að berjast við hann.

Hinn 35 ára gamli Nick Diaz hefur ekki barist síðan hann barðist við Anderson Silva í janúar 2015. Silva vann bardagann en bardaginn var dæmdur ógildur eftir að báðir féllu á lyfjaprófi – Silva fyrir frammistöðubætandi efni og Diaz eftir að leyfar af marijúana fundust í lyfjaprófinu.

Jorge Masvidal hefur tapað tveimur bardögum í röð og ekki barist síðan í nóvember 2017. Masvidal var boðið að berjast við Gunnar Nelson í desember en hafnaði því. Masvidal lýsti því yfir að hann ætli sér að fara aftur niður í léttvigt en var tilbúinn að vera áfram í veltivigt fyrir stóran bardaga gegn Nick Diaz.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.