Wednesday, September 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaNick Diaz snýr aftur

Nick Diaz snýr aftur

diaz_niaz2Það eru liðin tæp tvö ár síðan Nick Diaz steig síðast inn í búrið, þá gegn kanadísku goðsögninni Georges St. Pierre. Á laugardaginn snýr hann loksins aftur, óttalaus, gegn annarri goðsögn.

Nick Diaz er einn litríkasti og áhugaverðasti persónuleikinn í MMA. Hann segir oft skrítna hluti og finnst hann misskilinn en hann segir ekki hluti bara til að segja þá eins og til dæmis Chael Sonnen. Ef Nick Diaz segir eitthvað meinar hann það og hann reynir ekki að búa til illdeilur af ástæðulausu. Fyrir bardagann við Anderson Silva hefur hann verið hinn prúðasti og sagt réttilega að það þarf ekkert að segja, þeir láta hnefana tala í búrinu.

Diaz er furðuleg týpa. Á tímum er hann eins og „street thug“ með stæla og hikar ekki við að sýna fingurinn ef honum mislíkar eitthvað. Auk þess reykir hann gras og er ófeiminn við að lýsa yfir dálæti sínu á reykingunum. Á sama tíma er hann toppíþróttamaður, keppir reglulega í þríþraut og borðar einungis hráfæði.

Líf hans virðist breytast í einhvers konar vandræðalegan raunveruleikaþátt nokkrum vikum áður en hann berst. Hann nýtur þess ekki eins og Conor McGregor – hann nennir varla að spila með. Þegar hann missir t.d. af flugi eða blaðamannafundi fer allt í háaloft og Nick Diaz sirkúsinn heldur áfram. Það eru ákveðnar aðstæður þarna sem heilla marga.

Bardaginn við Anderson Silva er bardagi sem fáir trúa að Nick Diaz geti unnið. Margir afskrifa töp Anderson Silva gegn Chris Weidman en það þarf ekki mikið ímyndurafl til að sjá fyrir sér Nick Diaz ná inn sambærulegu höggi og Chris Weidman náði inn í fyrsta bardaga þeirra. Nick Diaz mun labba beint áfram og hann mun sveifla höndunum þar til eitthvað lætur undan.

diaz

Verði Anderson Silva í sínu besta formi er Nick Diaz sennilega í vondum málum. Það eru samt góðar líkur á að hann verði ekki í sínu besta formi, orðinn 39 ára gamall og er að snúa aftur eftir mjög slæm meiðsli. Sálfræðihliðin er líka hinum 31 árs gamla Nick Diaz í vil. Þó svo að báðir hafi tapað síðustu tveimur bardögum eru töp Anderson umfangsmeiri og voru hreinlega áföll. Fyrst var hann rotaður og tapaði titlinum og svo braut hann fótlegginn í tvennt.

Töp Diaz eru ekki eins slæm. Annars vegar tap gegn Carlos Condit þar sem Diaz fannst hann vinna og hins vegar tap gegn GSP sem meiddi hann aldrei að viti. Auk alls þessa er Nick Diaz óttalaus eins og áður hefur komið fram.

Þó Anderson Silva sé orðinn 39 ára gamall og Diaz ekki unnið bardaga í þrjú ár er þetta gríðarlega spennandi bardagi. Þetta er bardagi sem fáir töldu að yrði að veruleika en nú er rúmlega sólarhringur í bardagann og aðeins stórslys kæmi í veg fyrir bardagann.

Þetta er bardagi sem er kannski lítið vit í, en það skiptir engu máli. Anderson Silva og Nick Diaz snúa báðir aftur og þeir munu berjast!

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular