Eldsnemma í fyrramálið hefst UFC Fight Night: Hunt vs. Nelson. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 7 í fyrramálið og eru bardagarnir sýndir beint á Fight Pass rás UFC.
- Áhugaverður þungavigtarbardagi: Aðalbardagi kvöldsins er milli Roy Nelson og Mark Hunt. Samanlagt hafa þessir höggþungu menn sigrað 18 bardaga eftir rothögg í MMA, en séu rothögg Mark Hunt í sparkboxi tekin með hafa þeir sigrað 31 bardaga eftir rothögg. Mark Hunt háði stórkostlegan bardaga gegn Antonio Silva í desember í fyrra en í síðasta bardaga Roy Nelson rotaði hann gamla brýnið Antonio ‘Big Nog’ Nogueira.
- Er Rin Nakai meira en bara undarleg myndbönd? Rin Nakai berst sinn fyrsta UFC bardaga á morgun en hún hefur hlotið mikla athygli fyrir vægast sagt undarleg myndbönd á netinu. Hún fær hér risastórt tækifæri og mætir Miesha Tate. Burtséð frá myndböndunum er Nakai ósigruð í 17 bardögum en með sigri á morgun getur hún skotist hátt upp á styrkleikalista UFC. Sigur á Miesha Tate á gæti gert það að verkum að aðdáendur gleymi myndböndunum (um stund).
- Kynþokkafyllsti bardagamður UFC snýr aftur: Bardagamaðurinn, söngvarinn, kyntröllið og raunveruleikastjarnan Yoshihiro Akiyama snýr aftur í búrið í fyrramálið þegar hann mætir Amir Sadollah. Akiyama, betur þekktur sem Sexyama, hefur ekki barist síðan febrúar 2012 og hefur tapað fjórum bardögum í röð. Hann færði sig nýlega niður í veltivigt og er nú á allra síðasta séns að gera eitthvað í UFC. Hann mætir Amir Sadollah sem hefur ekki barist síðan í september 2012.
- Hversu langt nær Miles Jury? Miles Jury hefur nokkuð óvænt náð að koma sér í 9. sæti í léttvig UFC og er ósigraður í MMA. Hann sigraði síðast Diego Sanchez örugglega og fær nú annan reynslubolta þegar hann mætir Takenori Gomi. Sigri hann á morgun verður það 6. sigur hans í röð í léttvigt UFC – sigurhryna sem fáir geta státað af í dag.
- Tveir efnilegir sem vert er að fylgjast með: Hyun Gyu Lim og Michinori Tanaka eru tveir af efnilegustu asísku bardagamönnunum í dag og berjast báðir á morgun. Kóreumaðurinn Lim er öllu þekktari en hann barðist óvænt í aðalbardaganum gegn Tarec Saffiedine í janúar á þessu ári þar sem upprunalegi andstæðingur Saffiedine meiddist með skömmum fyrirvara. Þar tapaði hann eftir dómaraákvörðun en sýndi mikið hjarta og hugrekki en hann tók ógrynni af lágspörkum í bardaganum. Lim mætir Takenori Sato en bardaginn fer fram í veltivigt. Tanaka er einn sá efnilegasti sem komið hefur frá Japan í langan tíma. Hann mætir Kyung Ho Kang í bardaga í bantamvigtinni.