Wednesday, September 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 10 bestu boxararnir í dag

Föstudagstopplistinn: 10 bestu boxararnir í dag

MMA aðdáendur voru margir hverjir djúpt sokknir í hnefaleika áður en þeir uppgvötuðu blandaðar bardagalistir. Sumir fylgjast með báðum íþróttum en margir hafa misst sjónar á “the sweet science”. Í föstudagstopplistanum förum við yfir bestu boxarana í dag fyrir þá sem  vilja líta inn á gamlan vin.

Eins og með alla pund-fyrir-pund lista má deila endalaust um röðina. Það skemmtilega við slíka lista er að enginn þeirra er í raun alveg réttur. Eins og sést á listanum er veltivigtin heitasti þyngdarflokkurinn í dag og almennt eru það léttari flokkarnir sem ráða ríkjum. Stór nöfn eins og Bernard Hopkins, Miguel Cotto og Canelo Alvarez komust ekki inn en þó má finna nokkra gamla refi. Svo það sé á hreinu þýða ferlarnir: (sigrar- töp – jafntefli) rothögg

froch
Froch gegn Kessler

10. Carl Froch (33-2-0) 24 rothögg – súper millivigt (168 pund)

Froch kom mörgum á óvart í Super Six mótinu en tapaði í lokabardaganum fyrir Andre Ward, sem er þó engin skömm. Síðan þá hefur hann unnið fimm bardaga, meðal annars á móti Lucian Bute, Mikkel Kessler og George Groves. Froch virkar grófur og óslípaður en hann er harðari en andskotinn og finnur oftast leið til að naga andstæðinginn niður og sigra.

garcia
Garcia neglir Khan

9. Danny Garcia (29-0-0) 17 rothögg – súper léttvigt (140 pund)

Danny Garcia er ein af nýjustu stjörnum hnefaleikanna. Hann vakti fyrst athygli árið 2012 með sigri á Erik Morales á stigum. Fylgdi því svo eftir með því að rota Amir Khan. Með sigri á Lucas Matthysse, sama kvöld og Mayweather sigraði Canelo, staðfesti Garcia að hann væri bestur í sínum þyngdarflokki.

Juan-Manuel-Marquez
Marquez kemur höggi á Pac Man

8. Juan Manuel Marquez (54-7-1) 40 rothögg – veltivigt (147 pund)

Marquez er 41 árs gamall en hann er ennþá einn af þeim bestu. Hann rotaði Manny Pacquiao árið 2012 og afgreiddi Mike Alvarado á sannfærandi hátt í sínum síðasta bardaga. Í millitíðinni tapaði hann mjög jöfnum bardaga á móti Tim Bradley. Það er erfitt að meta hversu mikið hann á eftir á ferli sínum, en Bernard Hopkins er ennþá að berjast við þá bestu 49 ára gamall svo maður veit aldrei.

bradley
Bradley sér við Marquez

7. Tim Bradley (31-1-0) 12 rothögg – veltivigt (147 pund)

Bradley fékk leiðinlegt umtal eftir að hafa sigrað Manny Pacquiao á stigum. Það var ekki Bradley að kenna og hann á betra skilið eftir að hafa sannað sig á móti þeim bestu í fjöldamörg ár. Bradley hefur sigrað menn á borð við Devon Alexander, Joel Casamayor og Ruslan Provodnikov. Pacquiao er sá eini sem hefur fundið leið til að vinna hann. Þess má geta að Bradley og Cub Swanson eru æskuvinir og æfa gjarnan saman.

Rigondeaux
Rigondeaux lætur Donaire kýla sjálfan sig

6. Guillermo Rigondeaux (14-0-0) 9 rothögg – súper bantamvigt (122 pund)

Rigondeaux er einn besti áhugamannaboxari allra tíma. Ferill hans sem áhugamaður er 475 sigrar á móti 12 töpum. Hann var sjöfaldur Kúbumeistari, tvöfaldur heimsmeistari og tvöfaldur ólympískur meistari. Sem atvinnumaður hefur hann aðeins barist 14 sinnum en hann vann WBA titilinn í sínum sjöunda bardaga og gjörsigraði einn besta boxara í heimi í sínum 12., þ.e. Nonito Donaire. Rigondeaux mun vonandi berjast næst við annan hinna meistaranna í þyngdarflokknum, þ.e. annað hvort Leo Santa Cruz eða Kiko Martinez.

wladimir
Wladimir með þunga hægri

5. Wladimir Klitschko (63-3-0) 52 rothögg – þungavigt (yfir 200 pund)

Gamli góði Wladimir Klitschko er ennþá að þó svo að Vitali hafi snúið sér alfarið að stjórnmálum. Klitschko tapaði, eins og margir muna eflaust eftir, fyrir Corrie Sanders og Lamon Brewster en það eru 10 ár síðan. Eftir töpin hefur Klitschko verið óstöðvandi. Hann hefur sigrað 20 bardaga í röð og virðist ekkert vera að hægja á sér þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára gamall. Hann berst næst við hinn ósigraða Kubrat Pulev frá Búlgaríu.

gonzales
El Chocolatito með stungu

4. Roman Gonzalez (40-0-0) 34 rothögg – fluguvigt (112 pund)

Roman Gonzalez er ekki nafn sem margir þekkja. Eins og tölurnar að ofan gefa vísbendingu um er hann einn besti boxari í heiminum í dag og einn besti boxari í léttu þyndgarflokkunum síðan Ricardo Lopez og Michael Carbajal gerðu garðinn frægan. Hann er aðeins 27 ára gamall en hefur sigrað marga af þeim bestu eins og Juan Francisco Estrada og Akira Yaegashi. Ef hann væri þyngri væri hann á allra vörum.

Manny-Pacquiao
Pac Man neglir Cotto

3. Manny Pacquiao (56-5-2) 38 rothögg – veltivigt (147 pund)

Pac Man þarf varla að kynna. Hann lenti illa í því í þriðja bardaganum á móti Marquez þar sem hann var steinrotaður í sjöttu lotu. Það má líta á það þannig að áhættusækni stíllinn sem aðdáendur elska hafi ollið því að Pacquiao gekk inn í höggið. Sé litið framhjá því atviki og fáranlegu tapi á stigum gegn Bradley þá væri Manny ósigraður síðan 2005. Pacquiao hefur barist við og sigrað stórstjörnur eins og Erik Morales, Marco Antonio Barrera, Juan Manuel Marquez, Oscar De La Hoya, Ricky Hatton, Miguel Cotto, Antonio Margarito og Shane Mosley. Nýlegir sigrar hans á Brandon Rios og Timothy Bradley sýna að Pacquiao á nóg eftir 35 ára gamall.

ward
Ward fer illa með Kessler

2. Andre Ward (27-0-0) 14 rothögg – súper milligt (168 pund)

Andre Ward sigraði hið geysisterka Super Six mót í lok árs 2011 með sigri á köppum eins og Mikkel Kessler, Arthur Abraham og Carl Froch. Hann hefur barist of sjaldan undanfarið en sannfærandi sigur hans á Chad Dawson í lok árs 2012 innsiglaði Ward sem stórstjörnu. Áhugaverðustu andstæðingar Ward eru í þyngdarflokknum fyrir ofan, léttþungavigt. Þar bíða jaxlar eins og Bernard Hopkins, Adonis Stevenson og Sergey Kovalev.

floydmayweather
Mayweather með Guerrero í kennslustund

1. Floyd Mayweather (47-0-0) 26 rothögg – veltivigt (147 pund)

Það er enginn sem kemst nálægt “Money” Mayweather. Það er fáheyrt að vera ósigraður með 47 bardaga á bakinu en af þeim eru 24 titilbardagar. Mayweather er varnarsnillingur í takt við meistara eins og Pernell Whitaker og Willie Pep. Hann býr yfir ótrúlegum hraða og nákvæmni og fær á sig mjög fá högg. Bardagar Mayweather eru oft á tíðum lítið spennandi sökum þess hve mikla yfirburði hann hefur. Verði langþráður bardagi við Manny Pacquiao ekki að veruleika er mögulegt að hann berjist næst við Amir Khan eða jafnvel Danny Garcia úr þyngdarflokknum fyrir neðan.

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

2 COMMENTS

  1. Fjandi góður listi. Ég neita því ekki að ég leitaði í gegn um hann til að finna Gennady Golovkin líka þarna en hann er einmitt umtalaður þessa dagana.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular