Saturday, April 20, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 225

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 225

Besta bardagakvöld ársins fer fram í kvöld í Chicago í Bandaríkjunum. Frábærir bardagar eru dagskrá frá toppi til táar en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana í kvöld.

Verður upplausn í millivigtinni?

Yoel Romero var 90 grömmum of þungur í vigtuninni í gær. Þar af leiðandi getur hann ekki orðið meistari með sigri í kvöld en sama hvernig fer mun Robert Whittaker ennþá vera millivigtarmeistari eftir kvöldið. Staðan gæti því orðið ansi vandræðaleg í millivigtinni ef Romero vinnur. Óvíst er hvort UFC treysti Romero fyrir að ná vigt í millivigtinni en hann hefur nú tvisvar í röð ekki náð tilsettri þyngd. Þá gætum við mögulega verið með ansi vandræðalega stöðu ef meistarinn er nýbúinn að tapa en heldur samt beltinu og gæjinn sem vann mögulega ófær um að berjast í flokknum. Það þarf þó ekki að vera enda er Whittaker frábær bardagamaður sem er aðeins sigurstranglegri að mati veðbanka. Burtséð frá öllum 90 grömmunum og því veseni verður þetta eflaust magnaður bardagi líkt og fyrri bardagi þeirra.

Þaggar dos Anjos í Covington?

Colby Covington er einn óvinsælasti maðurinn í UFC í dag. Hann rífur kjaft og lætur alla heyra það en þykir samt svo óskaplega leiðinlegur að ekki nokkur maður heldur með honum. Allir vilja sjá Rafael dos Anjos rústa honum bara til að þagga aðeins niður í honum. Það má samt ekki gleyma því að Covington hefur náð góðum árangri í UFC og er 8-1 síðan hann samdi við UFC. Óvildin í garð Covington er það mikil að ef dos Anjos nær að vinna hann verður það eiginlega bara opinber þjónusta í augum margra. Þá mun Covington í það minnsta stíga aðeins úr sviðsljósinu í nokkrar vikur og það gleður marga. Þó Covington sé óspennandi karakter verður bardaginn mjög spennandi og áhugavert að sjá hvernig stílarnir þeirra beggja eiga eftir að virka gegn hvor öðrum.

Loksins verðugur áskorandi í fjaðurvigtinni?

Fjaðurvigtarmeistari kvenna, Cris ‘Cyborg’ Justino, hefur skort áskorendur á ferli sínum í UFC. Flestir af áskorendum hennar berjast að öllu jöfnu flokki neðar og hefur Cyborg ekki lent í teljandi vandræðum gegn þeim. Holly Holm var vissulega verðugur andstæðingur fyrir Cyborg í fyrra en er 135 punda keppandi. Inn kemur því Megan Anderson sem er mjög fær bardagakona og berst í alvörunni í fjaðurvigt en ekki bantamvigt sem er langt frá því sjálfgefið í dag. Takist Anderson að sigra Holm verður hún komin með titilbardaga gegn Cyborg.

Hversu lélegur er CM Punk í dag?

Fyrsti bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins er viðureign CM Punk og Mike Jackson. Ómögulegt er að vita hversu góðir (eða lélegir) þessir menn eru í dag en augljóst að hvorugur á heima í UFC. Það tók CM Punk rúmar tvær mínútur að tapa fyrir Mickey Gall á meðan Jackson entist aðeins í 45 sekúndur. Hvort það gefi fyrirheit fyrir kvöldið skal ósagt látið en þó hér séu ekki góðir bardagamenn á ferð er ekki hægt að neita því að bardaginn verður pínu áhugaverður. Hversu lélegir verða þeir? Munu þeir vera orðnir örþreyttir eftir fyrstu lotuna? Klárast þetta kannski bara strax? Hefur Punk bætt sig eitthvað frá því hann barðist síðast? Hefur Jackson bætt sig?

Nóg af fjöri!

Bardagakvöldið er það besta sem við höfum fengið að sjá hingað til á árinu (í það minnsta á pappírum) og er gríðarlega mikill fjöldi af spennandi bardögum. Alistair Overeem mætir Curtis Blaydes en sá síðarnefndi gæti fengið titilbardaga í þungavigt með sannfærandi sigri. Claudia Gadelha og Carla Esparza eru tvær af þeim bestu í strávigtinni en þær mætast í kvöld. Joseph Benavidez, sá næstbesti í fluguvigt, snýr aftur í kvöld eftir langvarandi meiðsli og mætir þá Sergio Pettis. Mirsad Bektic mætir Ricardo Lamas í geggjuðum slag í fjaðurvigt og þá er spurning hvort kveðjubardagi Rashad Evans verði í kvöld. Þetta er einfaldlega geggjað bardagakvöld frá A til Ö! Ekki missa af þessu!

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular