Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 223

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 223

Í kvöld fer UFC 223 fram í Brooklyn. Þó svo að Conor McGregor hafi stolið fyrirsögnunum með trúðslátum má ekki gleyma því að kvöldið er pakkað af spennandi bardögum; tveir titilbardagar og meira til. Hér eru nokkrar ástæður til að missa ekki af þessu.

Fetar Iaquinta í fótspor þjálfara síns?

Al Iaquinta kemur óvænt inn í aðalbardaga kvöldsins. Þessi New York strákur mun eflaust fá frábærar móttökur í Barclays Center höllinni í kvöld en á erfiða prófraun framundan en hann mætir hinum ósigraða Khabib Nurmagomedov. Á þessum degi fyrir 11 árum tókst þjálfara Iaquinta, Matt Serra, að rota Georges St. Pierre mjög óvænt. Þar með varð Serra veltivigtarmeistari og spurning hvort Iaquinta geti leikið afrek þjálfara síns eftir?

Verður Khabib loksins meistari?

Khabib er einn af örfáum sem hafa komist á toppinn ósigraðir. Þessi 29 ára gamli bardagakappi er með 25 sigra og engin töp og takist honum að verða léttvigtarmeistarinn í kvöld yrði það frábært afrek. Það standast fáir ef einhverjir honum snúning í glímunni en stóra spurningin er hvort honum takist að koma bardaganum þangað. Khabib hefur lengi beðið eftir því að fá titilbardaga og hafa aðdáendur sömuleiðis beðið eftir þessari stund. Flestir telja hann besta léttvigtarmann heims, sannar hann það endanlega í kvöld?

Endurheimtir Joanna titilinn?

Það kom mörgum á óvart þegar Rose Namajunas stöðvaði Joanna Jędrzejczyk í nóvember síðastliðnum. Þetta var fyrsta tap hennar á ferlinum og hún virtist jafn hissa á þessu og allir aðrir. Hún er staðráðin í að endurheimta titilinn en spurningin er hvort Rose hafi verið heppin í fyrsta bardaga þeirra eða hvort hún sé einfaldlega betri? Joanna virðist hrikalega einbeitt og það hefur ekki borið á sömu stælunum í henni og fyrir fyrsta bardagann. Mjög spennandi bardagi sem ómögulegt er að segja til um hvernig fer!

Zabit á stóra sviðinu

Maðurinn með langa nafnið, Zabit Magomedsharipov, hefur náð tveimur frábærum sigrum í UFC í jafn mörgum bardögum. Eftir atburði vikunnar fær Zabit tækifæri á aðalhluta bardagakvöldsins. Þetta er strákur sem gæti náð langt í UFC og verður gaman að sjá hann á stóra sviðinu í kvöld.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst á miðnætti á Fight Pass rás UFC. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular