spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 232

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 232

Þrátt fyrir allt vesenið í kringum Jon Jones má ekki gleyma því að UFC 232 er hörku bardagakvöld. Tveir titilbardagar, stór nöfn og goðsagnir berjast á kvöldinu en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

UFC 232 fer fram í Las Vegas Los Angeles á laugardagskvöld þar sem tveir titilbardagar verða á dagskrá. Lyfjapróf Jon Jones hefur því miður tekið mikla athygli frá annars frábærum bardögum helgarinnar.

Heldur djúsí Jones áfram að vera ósigraður?

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Alexander Gustafsson og Jon Jones. Vegna lyfjamáls Jon Jones hefur dálítið gleymst að þetta er titilbardagi sem við höfum beðið eftir í fimm ár! Daniel Cormier er ríkjandi meistari í léttþungavigt en þar sem hann er upptekinn í þungavigt verður Cormier sviptur titlinum. Það gerist um leið og bardaginn á laugardaginn byrjar og eru þeir Jones og Gustafsson því að berjast um lausan titil. Ef UFC hefði ákveðið að leyfa Jones ekki að keppa hefði Cormier ennþá verið meistari (ágætis öryggisnet fyrir UFC) eftir helgina ef enginn titilbardagi hefði átt sér stað.

Fyrri bardagi Gustafsson og Jones var líka besti bardagi í sögu léttþungavigtarinnar. Í 5 ár höfum við beðið eftir því að sjá þá aftur og það mun loksins gerast á morgun! Það hefur margt breyst síðan þeir börðust fyrst og verður virkilega áhugavert að sjá hvernig þetta mun spilast.

Hver er besta bardagakona heims í dag?

Desember hefur verið frábær og sérstaklega í kvennaflokkunum. Fyrr í mánuðinum fengum við meistara gegn meistara í fluguvigtinni og núna fáum við það aftur þegar þær Amanda Nunes og Cris ‘Cyborg’ Justino mætast. Bantamvigtarmeistarinn Amanda Nunes fer upp í fjaðurvigt til að skora á meistarann þar. Í báðum þyngdarflokkunum er lítið um að vera og því fullkominn tími til að henda tveimur meisturum saman. Báðar eru þær höggþungar, geta tekið við höggum og hafa nokkur vopn í vopnabúrinu til að ógna hvor annarri. Þetta er einfaldlega frábær bardagi sem enginn má missa af og er siguvegarinn hér sennilega besta bardagakona heims í dag.

Carlos Condit gjörsamlega búinn?

Carlos Condit mætir Michael Chiesa í áhugaverðum bardaga í veltivigt. Condit hefur gengið afleitlega undanfarin ár og tapað sjö af síðustu níu bardögum sínum og fjórum í röð. Hann einfaldlega verður að vinna ef hann ætlar að halda starfinu. Gegn honum fáum við Chiesa í sinn fyrsta bardaga í veltivigt eftir að hafa verið alla tíð í léttvigt. Chiesa getur náð fínni byrjun í veltivigtinni með sigri en ef Condit tapar eru dagar hans í UFC sennilega taldir.

Chad Mendes að minna á sig eða fáum við nýtt andlit í toppbaráttuna?

Chad Mendes hefur dálítið gleymst í öllum látunum í vikunni. Mendes snéri til baka eftir tveggja ára bann nú í sumar með sannfærandi sigri á Myles Jury og mætir Alexander Volkanovski um helgina. Það hefur lítið farið fyrir Chad Mendes á undanförnum árum eftir lyfjaprófið en núna getur hann stimplað sig rækilega inn í toppbaráttuna með sigri á Volkanovski. Á sama tíma getur Volkanovski komið sterkur inn með sínum stærsta sigri á ferlinum. Það er því mikið undir fyrir báða en Volkanovski hefur unnið alla fimm bardaga sína í UFC og litið mjög vel út.

Fjaðurvigtin reynir að festa sig í sessi

Fjaðurvigt kvenna hefur verið hálfgert grín í UFC. Þessi flokkur virðist varla vera til nema þegar Cyborg þarf að verja titilinn sinn gegn stelpum sem eru í bantamvigtinni. Núna fáum við annan bardagann í þyngdarflokknum sem er ekki titilbardagi. Sá fyrsti var í sumar þegar Holly Holm mætti Megan Anderson en nú fáum við aftur að sjá Anderson en í þetta sinn gegn Cat Zingano. Zingano hefur verið undarlega dugleg að berjast á árinu og gæti sigurvegarinn hér fengið næsta titilbardaga í fjaðurvigtinni (einfaldlega af því það er engin önnur í þessum flokki). Megan Anderson átti ekki góða frammistöðu síðast en fær hér annað tækifæri gegn þekktu nafni.

Goðsögnin B.J. Penn

B.J. Penn hefur ekki unnið bardaga í 8 ár en er samt ennþá í UFC. 5 töp í röð benda til þess að hann sé langt frá sínu besta en í þetta sinn fær hann nokkuð áhugaverðan andstæðing sem er sennilega ekki að fara steinrota hann. Ryan Hall er þekktur fyrir eitthvað allt annað en að vera mikill rotari en er algjör galdramaður í gólfinu. Hann hefur átt í erfiðleikum með að fá bardaga þar sem hann er með óvenjulegan stíl. Penn er sjálfur enginn aukvissi í gólfinu og vonandi fáum við smá gólfglímuslag þó það sé ekki alltaf raunin þegar tveir frábærir glímumenn mætast.

Ekki gleyma

Á kvöldinu eru margir bardagar sem lofa góðu. Petr Yan hefur byrjað vel í UFC og unnið báða bardaga sína í UFC. Hann mætir Douglas Silva de Andrade á morgun og ætti það að verða áhugaverð viðureign. TUF-stjarnan Uriah Hall mætir Bevon Lewis sem er óreyndur en lofar góðu. Curtis Millender hefur litið vel út en hann mætir Siyar Bahadurzada og ætti það að verða flottur bardagi.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 23:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular