spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 237

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 237

Á laugardagskvöldið fer fram UFC 237 í Rio de Janeiro í Brasilíu. Margir spennandi og áhugaverðir bardagar munu fara fram og gamlar kempur munu mæta.

‘Thug’ Rose snýr aftur í búrið

Í aðalbardaga kvöldsins munum við sjá ‘Thug’ Rose Namajunas verja strávigtartitil sinn í UFC gegn hinni brasilísku Jessicu Andrade. Þetta er fyrsti bardagi Rose í rúmt ár og fyrsti titilbardagi hennar sem er ekki gegn Joanna Jedrzecjczyk. Rose leit virkilega vel út í báðum bardögunum gegn Joanna en það verður spennandi að sjá hana gegn hamri eins Andrade sem hefur gífurlegan höggþunga í þessum þyngdarflokki kvenna.

Anderson Silva í síðasta skiptið?

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast Jared Cannonier og Anderson Silva. Cannonier leit virkilega vel út í síðasta bardaga sínum sem var hans fyrsti í millivigtinni. Hins vegar er mesta kastljósið á hinum 44 ára gamla Anderson Silva. Hann hefur ekki skipt máli í millivigtinni í bráðum 6 ár og hlýtur að vera að nálgast endalokin á sínum ferli. Hann hefur verið að gera UFC greiða í síðustu bardögum sínum og gengið misjafnlega vel en á alltaf nokkur tromp upp í erminni.  Getur verið að hann leggi hanskana á hilluna eftir bardagann á heimavelli í Brasilíu?

Hver fær næsta titilbardaga í fjaðurvigtinni?

Jose Aldo er loks kominn á heimavöllinn í Brasilíu og mætir hinum geysisterka Alexander Volkanovski. Volkanovski gerði sér lítið fyrir og kláraði Chad Mendes í janúar síðastliðnum og ætti að vera kominn ansi nálægt því að fá titilbardaga gegn ríkjandi meistara Max Holloway. Holloway hefur sigrað Aldo tvisvar og er nánast búinn að hreinsa þyngdarflokkinn. En sigri Volkanovski á laugardaginn gæti það verið áhugaverður kostur til að hrista upp í fjaðurvigtinni.

Gamlir halda áfram að reyna

Goðsagnirnar BJ Penn og ‘Lil Nog’ Nogueira eiga einnig bardaga á laugardaginn. Penn mætir Clay Guida en Penn hefur verið afleitur upp á síðkastið. Ætli hann muni ekki halda áfram að taka bardaga í UFC þar til hann vinnur og hættir svo? Lil Nog er einnig kominn á endastöð á sínum ferli, orðinn 42 ára gamall, og á tvíburabróður sem hætti í MMA fyrir fjórum árum síðan. Þetta bardagakvöld gæti því orðið ansi líklegt til þess að vera passlegur lokastaður fyrir nokkra bardagamenn á kvöldinu.

Ekki gleyma

Á bardagakvöldinu berjast einnig nokkrir bardagamenn sem áhugamennn ættu að kannast við og gætu orðið ágætis skemmtun. Thiago Alves á bardaga gegn Laureano Starapoli, Bethe Correia snýr aftur eftir tveggja ára fjarveru og tap gegn Holly Holm og Warlley Alves berst gegn Sergio Moraes í upphitunarbardaga snemma á kvöldinu.

Það stefnir því allt í klassískt UFC bardagakvöld í Rio de Janeiro og er vel þess virði að horfa á það á laugardaginn.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2:00.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular