UFC 239 fer fram um helgina en aðalhluti kvöldsins er einn sá besti á árinu. Við fáum tvo titilbardaga og nokkra mjög áhugaverða og þýðingarmikla bardaga.
Verður Jon Jones rotaður?
Jon Jones er það góður að bardagar á móti hættulegum roturum eins og Thiago Santos eru jafnvel á mörkunum að vera spennandi. Við verðum samt að muna að MMA býður stöðugt upp á óvænt úrslit og ef Jones mun tapa er ekki ólíklegt að það verði gegn einhverjum eins og Santos. Ef Santos mætir dýrvitlaus til leiks og lætur vaða gæti hann hugsanlega komið á óvart og skrifað nafn sitt í sögubækurnar. Ef ekki verður þetta önnur sýning frá besta bardagamanni allra tíma en það eru forréttindi að fá að fylgjast með slíkum gæðum.
Nunes fullkomnar safnið
Amanda Nunes hefur verið að safna hausum undanfarin ár. Hún hefur sigrað öll stærstu nöfnin í bantam- og fjaðurvigt kvenna fyrir utan Holly Holm. Sigri hún Holm verður hún búin að afgreiða alla meistara í bantanmvigt kvenna frá upphafi sem er nokkuð magnað afrek. Holm er góð standandi en hún tapaði fyrir Valentinu Schevchenko, Cris ‘Cyborg’ og Germaine de Randamie. MMA stærðfræði segir okkur að Nunes muni sigra en þessi íþrótt virkar ekki alltaf þannig. Kannski kemur Holm með einhverja rosalega bardagaáætlun og hirðir titilinn. Hver veit?
Hristingur í veltivigt
Ástandið í veltivigt er mjög óljóst þessa stundina. Meistarinn, Kamaru Usman, er meiddur og mun sennilega ekki berjast fyrr en í fyrsta lagi nóvember. Colby Covington er með bráðabirgðarbeltið en hann ætlar að berjast við Robbie Lawler og Tyron Woodley er ennþá þarna einhvers staðar. Á sama tíma eru Ben Askren og Jorge Masvidal að berjast núna um helgina og þeir ætlast báðir til að fá titilbardaga í kjölfar sigurs. Askren er líklegri til að hreppa hnossið með góðri frammistöðu en það verður erfitt að komast framhjá Gamebred.
Hvað gerir Rockhold í léttþungavigt?
Eitt stærsta spurningarmerki helgarinnar er frumraun Luke Rockhold í léttþungavigt. Á góðum degi er Luke gjörsamlega óstöðvandi með svaðaleg spörk í skrokkinn og kæfandi glímu. Á slæmum degi hefur Rockhold verið steinrotaður svo það er yfirleitt allt eða ekkert fyrir kauða. Í léttþungavigt eru höggin þyngri en á móti kemur að Rockhold verður heilbrigðari eftir minni niðurskurð. Jan Błachowicz er stór reynslubolti sem verður ekkert grín að eiga við. Með sigri gæti Rockhold skotið sér beint í titilbardaga en það má ekkert klikka.
Diego Sanchez lestin heldur áfram
Það eru um 14 ár frá fyrsta UFC bardaga Diego Sanchez og 17 ár frá því að hann byrjaði í MMA. Sanchez er samt sem áður bara 37 ára og virðist ekkert vera á leiðinni að hætta. Nú hefur hann unnið tvo bardaga í röð og leit vel út í þeim sigrum. Hér mætir hann hins vegar talsvert erfiðari andstæðingi, Michael Chiesa. Sanchez er búinn að láta eins og geðsjúklingur undanfarna daga en það verður gaman að sjá hvort það muni hafa einhver áhrif á Chiesa.
Ekki gleyma
Aðalhluti bardagakvöldsins er frábær á pappírum en það eru líka nokkrir áhugaverðir upphitunarbardagar. Arnold Allen mætir Gilbert Melendez og verður það áhugavert próf fyrir Allen. Claudia Gadelha þarf að komast aftur upp á hestinn eftir misjafnt gengi að undanförnu. Gadelha mætir Randa Markos og þarf að eiga góða frammistöðu. Þá verður gaman að sjá upprennandi bardagamenn eins og Song Yadong og Alejandro Perez.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.