spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Dos Anjos vs....

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Dos Anjos vs. Edwards

UFC er með fínasta bardagakvöld í San Antonio, Texas, annað kvöld. Þar mætast þeir Rafael dos Anjos og Leon Edwards í aðalbardaga kvöldsins en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Heldur sigurganga Leon Edwards áfram?

Leon Edwards mætir Rafael dos Anjos í aðalbardaga kvöldsins en Edwards hefur unnið sjö bardaga í röð – nú síðast gegn Gunnari Nelson. Þetta verður stærsti bardagi ferilsins hjá Edwards en dos Anjos er einn af fimm bestu veltivigtarmönnum UFC í dag. Sigur hjá Edwards mun koma honum ansi langt í eltingarleiknum að titilbardaga.

Greg Hardy tilraunin heldur áfram

Fyrrum NFL-leikmaðurinn umdeildi, Greg Hardy (4-1), berst sinn þriðja UFC bardaga annað kvöld. Hardy mætir Juan Adams (5-1) sem er, rétt eins og Hardy, 1-1 á ferli sínum í UFC. Adams hefur unnið alla bardaga sína með rothöggi og ætti þetta að verða áhugavert próf fyrir Hardy (sem heldur því fram að hann geti orðið besti þungavigtarmaður allra tíma í bardagaíþróttum). UFC hefur mikinn áhuga á að byggja upp Hardy en Adams myndi glaður skemma það.

Stutt gaman eða sjónmengun í þungavigtinni

Þungavigtin getur verið rosalega misjöfn enda stórir strákar sem eru kannski ekki alltaf þeir tæknilegustu eða með besta þolið. Andrei Arlovski var frábær á sínum tíma en hefur ekki klárað bardaga síðan árið 2015. Hann er duglegur að berjast en er núna 2-8 (1) í síðustu bardögum og er í raun ótrúlegt að hann fái fleiri tækifæri í UFC. Arlovski mætir Ben Rothwell en Rothwell hefur ekki beint verið mikill skemmtikraftur að undanförnu.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Aleksei Oleinik og Walt Harris í þungavigtinni. Það gæti klárast snemma enda báðir duglegir að klára bardaga sína en gæti líka orðið ansi slappt dragist bardaginn á langinn. Vonandi verður þetta bara stutt gaman í þungavigtinni um helgina.

Brjótast í gegnum þvöguna í léttvigtinni

Tveir flottir bardagar í léttvigt verða á dagskrá á morgun sem verður gaman að sjá. James Vick mætir Dan Hooker og Alexander Hernandez mætir Francisco Trinaldo. Allt eru þetta gæða bardagamenn en aðeins Hernandez er á topp 15 styrkleikalistanum af fjórmenningunum. Það sýnir vel þá dýpt sem er til staðar í léttvigtinni og ættu þetta að verða tveir flottir bardagar.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:00 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 1:00.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular