spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Ponzinibbio vs. Magny

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Ponzinibbio vs. Magny

UFC er með bardagakvöld í Argentínu í kvöld. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Santiago Ponzinibbio og Neil Magny en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Santiago Ponzinibbio laminn?

Argentínumaðurinn Santiago Ponzinibbio á ekki marga aðdáendur á Íslandi og þó víðar væri leitað eftir augnpotin gegn Gunnari Nelson í fyrra. Hann er þó á heimavelli í kvöld og þar er hann vinsæll. Ponzinibbio hefur unnið sex bardaga í röð og fær hér stórt tækifæri til að bæði vinna sig nær toppnum í veltivigtinni og verða stór stjarna í Suður-Ameríku. Ponzinibbio er sigurstranglegri hjá veðbönkum en Magny hefur áður verið lítilmagni hjá veðbönkum en samt náð að knýja fram sigur.

Flestir Íslendingar vilja sjá Ponzinibbio tapa og helst sjá hann bara vera laminn. Þó Ponzinibbio sé enginn heiðursmaður er hann samt ansi fær bardagamaður og er líklegri til sigurs. Magny er samt mjög harður af sér og gæti þetta orðið hörku fimm lotu bardagi.

Nær Lamas að rétta úr kútnum?

Ricardo Lamas hefur átt heldur erfitt uppdráttar að undanförnu. Lamas hefur tapað tveimur síðustu bardögum sínum og var annað tapið svakalegt rothögg gegn Josh Emmett. Núna mætir hann Darren Elkins sem var nýlega á sjö bardaga sigurgöngu áður en hann tapaði fyrir Alexander Volkanovski í sumar. Elkins hefur sýnt að það þarf ansi mikið til að klára hann og mega andstæðingar hans búast við að þurfa að lemja hann allar 15 mínúturnar. Það virðist oft vera leikáætlunin hjá Elkins – að standa af sér langar barsmíðar og koma svo til baka og klára örmagna menn. Lamas er samt betri bardagamaður tæknilega séð en Elkins hefur oft sýnt að það er ekki alltaf nóg. Lamas þarf því að vera á tánum allan tímann í kvöld ef hann ætlar ekki að tapa í þriðja sinn í röð.

Annað rothögg hjá Rountree?

Khalil Rountree er bara 3-2 (1 bardagi dæmdur ógildur) í UFC en allir þrír sigrarnir hans hafa verið eftir rosaleg rothögg. Síðast sáum við hann rota sparkboxarann goðsagnarkennda Gökhan Saki í 1. lotu og var það stærsti sigur ferilsins hjá honum. Í kvöld mætir hann Brasilíumanninum með enska nafnið, Johnny Walker. Walker er með 11 sigra eftir rothögg af 14 sigrum og kýs að halda bardaganum standandi eins og Rountree. Þetta gæti því orðið skemmtilegur bardagi í léttþungavigt. Stórir strákar með höggþunga sem vilja standa og sveifla – það er uppskrift sem klikkar seint.

Calvillo í ruglinu?

Cynthia Calvillo byrjaði ferilinn í UFC mjög vel. Hún vann fyrstu þrjá bardaga sína í UFC og var á góðri leið með að verða smá nafn í strávigt kvenna. Það hefur ekki gengið eins vel síðustu mánuði en í sumar tapaði hún fyrir Cörlu Esparza og féll svo á lyfjaprófi eftir sigurinn en leifar úr marijúana fundust í lyfjaprófinu. Í gær náði hún svo ekki vigt fyrir bardagann og leit frekar illa út í vigtuninni. Bardaginn fer engu að síður fram (sem er gagnrýnisvert) og verður athyglisvert að sjá hvernig Calvillo mun líta út efitr sitt fyrsta tap.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular