spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC on FOX 30

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC on FOX 30

UFC býður upp á frábært bardagakvöld í Calcary í Kanada í kvöld. Þrír fyrrum meistarar freista þess að taka stór skref í átt að titlinum en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á UFC on FOX 30 í kvöld.

Skrítinn „titill“ í geggjuðum bardaga

Aðalbardagi kvöldsins er gjörsamlega geggjaður þar sem þeir Eddie Alvarez og Dustin Poirier mætast. Þetta er það besta sem UFC getur boðið upp á og skiptir engu máli þó það sé ekkert alvöru belti undir. Það er samt einn titill í húfi sem Eddie Alvarez segist vinna með sigri og það er titillinn „ofbeldisfyllsti maðurinn í UFC“ (e. most violent man in the UFC). Þetta er kannski ekki rétt þýðing á titlinum en má segja að titilinn eigi sá sem er alltaf til í að skiptast á höggum við andstæðinginn og gefur ekkert eftir. Það á svo sannarlega við um báða bardagamenn þó þessi tiltekni titill sé uppspuni frá rótum. Síðasti bardagi Dustin Poirier (gegn Justin Gaethje) lofaði góðu fyrirfram og stóðst svo sannarlega væntingar en það sama má segja um bardaga Alvarez gegn Gaethje. Ef marka má fyrri bardaga þeirra Alvarez og Poirier (sem endaði með umdeildum hætti) verður þessi bardagi frábær. Ekki missa af þessu!

Hvar stendur Jose Aldo í dag?

Það styttist í endalokin á ferli goðsagnarinnar Jose Aldo. Hann hefur núna tapað tveimur bardögum í röð en bæði töpin voru rothögg gegn ríkjandi meistara, Max Holloway. Holloway er auðvitað besti fjaðurvigtarmaður heims í dag og því kannski erfitt að vita hvar Jose Aldo stendur í dag. Hann er klárlega ekki sá besti í fjaðurvigtinni í dag en er hann ennþá meðal þeirra fimm bestu? Bardaginn gegn Jeremy Stephens ætti að segja okkur mikið um Aldo í dag. Þetta gæti reynst erfitt fyrir fyrrum meistarann og spurning hvort hann geti staðið af sér þung högg Stephens. Þetta verður fyrsti bardagi Aldo sem er ekki titilbardagi í níu ár og verður áhugavert að sjá hvar hann stendur í dag.

Joanna mætir gustinum

Joanna Jedrzejczyk mætir Tecia ‘The Tiny Tornado’ Torres í kvöld. Tecia Torres kallar sig hvirfilbylinn en er líkari léttum gusti eða andvara miðað við fyrrum strávigtarmeistarann Joanna Jedrzejczyk. Jedrzejczyk hefur núna tapað tvisvar í röð gegn meistaranum Rose Namajunas og þarf sennilega margt að gerast áður en hún fær annan séns á beltinu. Besti möguleikinn fyrir Joanna er sennilega að Namajunas tapi beltinu en til þess að Joanna geti fengið séns ef að því kemur þarf sú pólska að vinna nokkra bardaga.

Ekki gleyma

Bardagarnir eru ekkert alltof seint á morgun en aðalhluti bardagakvöldsins hefst á miðnætti. Auk fyrrnefndra bardaga er áhugaverður bardagi í léttvigt á milli Olivier Aubin-Mercier og Alexander Hernandez. Aubin-Mercier hefur unnið fjóra bardaga í röð en Hernandez náði mjög óvæntum sigri á Beneil Dariush í mars. Jordan Mein er alltaf í skemmtilegum bardögum en hann mætir Alex Morono. Islam Makhachev hefur hljóðlega unnið fjóra bardaga í röð og það sama má segja um andstæðing hans, Kajan Johnson. Allt eru þetta áhugaverðir bardagar og stefnir því bara í ansi flott bardagakvöld.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 20 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst á miðnætti.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular