Eftir mjög rólegan ágústmánuð snýr UFC aftur með hörku bardagakvöld sem fer fram í Edmonton í Kanada í kvöld. UFC 215 býður upp á tvo titilbardaga og nokkra aðra góða.
Tvær bestu í bantamvigt kvenna
Amanda Nunes og Valentina Shevchenko eru tvær bestu konurnar í bantamvigtinni. Þær áttu að mætast í júlí en Nunes þurfti að draga sig út vegna veikinda. Þetta er því hálfgert endurat af endurati en þær hafa mæst áður í búrinu, í mars 2016, í jöfnum bardaga sem Nunes sigraði á stigum. Hvorugar hafa tapað síðan þá en hafa á milli sín sigrað topp andstæðinga á borð við Rondu Rousey, Mieshu Tate og Holly Holm. Í þessum bardaga kemur í ljós hver er sú besta í bantamvigtinni.
Línur skýrast í veltivigtinni
Neil Magny og Rafael dos Anjos mætast í toppslag í þyngdarflokknum hans Gunnars. Dos Anjos er fyrrum léttvigtarmeistarinn en eftir að hafa tapað tveimur í röð færði hann sig upp í veltivigtina. Báðir eru í topp tíu og sigur ætti að fleyta öðrum hvorum þeirra vel í átt að topp fimm. Það er vert að benda á að Magny er með 25 sentimetra lengri faðm en Dos Anjos.
Glímuslagur í fluguvigtinni
Henry Cejudo er einn allra besti glímukappi sem hefur keppt í UFC. Hann vann gullmedalíuna á Ólympíuleikunum í Peking 2008, aðeins 21 árs að aldri og varð þar með næst yngsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna gull í glímu. Cejudo fékk titilbardaga í fyrra en tapaði og tapaði síðan eftir klofna dómaraákvörðun gegn Joseph Benavidez. Hann er nú kominn aftur og æstur í að sanna sig. Andstæðingur hans er Wilson Reis sem er virkilega sterkur BJJ keppandi en hann vann heimsmeistaramótið í jiu-jitsu sem brúnbeltingur árið 2004. Hann hefur sigrað fimm bardaga með uppgjafartaki í síðustu 11 sigrum sínum og það er ljóst að þessi bardagi verður mjög spennandi ef hann endar í jörðinni.
Vonarstjarna í léttþungavigtinni?
Í léttþungavigtinni mætast þeir Tyson Pedro og Ilir Latifi. Tyson Pedro er 6-0 og klárað alla bardaga sína í fyrstu lotu. Hann er aðeins 25 ára og er sá yngsti á topp 15 listanum um þessar mundir. Margir eru spenntir fyrir honum í UFC en hann fær sitt stærsta próf til þessa í kvöld.
Gilbert Melendez alveg búinn?
Gilbert Melendez hefur ekki riðið feitum hesti í UFC. Hann er aðeins með einn sigur í fimm bardögum en töpin hafa vissulega verið gegn mörgum af þeim bestu í léttvigtinni (Edson Barboza, Eddie Alvarez, Anthony Pettis og Ben Henderson. Núna er hann komin niður í fjaðurvigt og mætir Jeremy Stephens. Það er að duga eða drepast fyrir Melendez og gæti hann fengið reisupassann úr UFC með tapi.