Um helgina fer fram hörku bardagakvöld í Brasilíu. Við fyrstu sýn lítur þetta kannski ekki út eins og nein sprengja en þegar betur er að gáð eru nokkrir þrælspennandi bardagar á dagskrá. Hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á bardagana.
Gamli skólinn mætir nýja skólanum
Vitor Belfort er einn reyndasti UFC kappi allra tíma. Þessi 39 ára Brassi hefur keppt 38 bardaga en 31 þeirra hafa verið í UFC eða Pride gegn þeim allra bestu. Belfort er mikil hetja í heimalandinu og áhorfendur munu styðja vel við bakið á sínum manni. Hann hefur hins vegar tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum og þarf nauðsynlega á sigri að halda á laugardaginn. Andstæðingur hans, Kelvin Gastelum, er hins vegar enginn aukvissi þrátt fyrir að vera 14 árum yngri en Belfort. Hann var sífellt í erfiðleikum með að ná vigt í veltivigtinni og eftir að hafa mistekist að ná vigt í þriðja sinn á skömmum tíma var hann sendur upp um flokk af Dana White. Það virðist hins vegar hafa verið það besta sem gat komið fyrir hann því hann hefur litið virkilega vel út í millivigtinni.
Gastelum hefur aldrei farið lengra en þrjár lotur og í gegnum tíðina hefur oft mátt setja spurningarmerki við úthaldið hjá honum. Maður á erfitt með að sjá fyrir sér að hann haldi dampi í fimm lotur og því mun hann eflaust leitast eftir að klára bardagann. Það er þó næsta öruggt að hinn næstum fertugi Belfort muni leitast eftir því sama og því gæti þetta orðið hörku bardagi. Það hefur hallað aðeins undan fæti hjá Vitor Belfort eftir að hann hætti að misnota TRT en TRT Vitor var einhver ógnvænlegasti bardagakappi sem stigið hefur inn í búrið.
Edson Barboza mætir Beneil Dariush
Þessi bardagi hefur alla burði til að verða besti bardagi kvöldsins. Barboza er einstaklega skemmtilegur sparkboxari og á eitt fallegasta spark sem sést hefur í seinni tíð (sjá að neðan). Þegar hann er í stuði getur hann sigrað flesta og í síðustu tveimur bardögum hefur hann sigrað Gilbert Melendez og fyrrum meistarann Anthony Pettis. Beneil Dariush er einnig mjög flottur bardagamaður. Hann er aggressívur standandi með sparkbox eins og ekta Rafael Cordeiro nemandi líkt og þeir Rafael dos Anjos og Fabricio Werdum. Að auki er hann svart belti í BJJ með sex sigra eftir uppgjafartök.
Goðsögnin getur unnið sinn þriðja í röð
Það er farið að síga á síðari endann á ferli goðsagnarinnar Mauricio ‘Shogun’ Rua. Þessi 35 ára gamli bardagamaður hefur átt ótrúlegan feril en margir höfðu afskrifað hann fyrir nokkrum árum. Árið 2014 hafði hann tapað fjórum af síðustu fimm, var með hálf ónýt hné og leit út fyrir að vera tilbúinn til að leggja hanskana á hilluna. Upp á síðkastið hefur hann hins vegar verið aðeins ferskari og sigrað tvo í röð. Shogun er gríðarlega vinsæll í heimalandinu og hann hefur alla burði til að sigra Gian Villante. Það myndi óneytanlega gleðja heimamenn (og einhverja af okkur gömlu köllunum) að sjá hann sigra þrjá í röð svona seint á ferlinum.
Kúrekinn og skítugi fuglinn
Tim ‘The Dirty Bird’ Means og Alex ‘Cowboy’ Oliveira mætast um helgina í endurati. Kapparnir mættust á UFC 207 í desember þar sem bardaginn var dæmdur ógildur eftir kolólögleg hnéspörk frá Means. Bardaginn var þrælskemmtilegur þessar rúmu þrjár mínútur sem hann stóð yfir og verður gaman að sjá þá aftur um helgina.
Einn fyrir BJJ nördana
Á fyrri hluta bardagakvöldsins er bardagi sem lítið hefur farið fyrir en hefur möguleika á að verða BJJ veisla. Sérgio Moraes mætir þar Davi Ramos (6-1) en þar mætast tveir frábærir glímumenn. Moraes hefur sigrað heimsmeistaramótið í BJJ tvisvar á meðan Ramos sigraði ADCC, sem margir telja sterkasta glímumót heims, árið 2015. Þetta verður frumraun Ramos í UFC á meðan Moraes er reyndari með sjö bardaga. Ramos er með mjög skemmtilegan glímustíl; góðar fellur, pressar stöðugt og sigraði ADCC m.a. með mjög flottum fljúgandi „armbar“ sem er afar sjaldgæft á þessu stigi. Hér má sjá flott myndband af Ramos:
Fyrstu bardagar hefjast um miðnætti en aðalhluti kvöldsins hefst kl 3 en bardagarnir verða sýndir á Fight Pass rás UFC.