spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Gustafsson vs. Teixeira

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Gustafsson vs. Teixeira

Á sunnudagskvöldið fer fram ágætis bardagakvöld í Stokkhólmi. Heimamaðurinn Alexander Gustafsson mætir Glover Teixeira í aðalbardaga kvöldsins en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana.

Tveir af þeim bestu í léttþungavigt

Aðalbardaginn á milli Alexander Gustafsson og Glover Teixeira ætti að verða góð skemmtun. Þetta eru tveir af þeim bestu í þunnskipaðri léttþungavigtinni og kemst sigurvegarinn nær titilbardaga. Báðir hafa verið nálægt toppnum í nokkurn tíma og fá loksins að mætast í kvöld.

Það er erfitt að segja hvað sé í húfi fyrir báða. Glover Teixeira fær líklegast stóran bardaga gegn Jimi Manuwa með sigri og sigurvegarinn þar gæti fengið næsta titilbardaga. Gustafsson og Manuwa hafa þegar mæst og eru æfingafélagar í dag þannig að það er ólíklegt að þeir mætist aftur vinni Gustafsson. Næsta skref hjá Gustafsson gæti velt á viðureign Daniel Cormier og Jon Jones eða viðureign Misha Cirkunov og Volkan Oezdemir. Þetta ætti samt að vera skemmtilegur bardagi milli tveggja frábærra bardagamanna.

Heldur kanadíska tröllið áfram sigurgöngunni?

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins sjáum við nýja blóðið í léttþungavigtinni. Þeir Misha Cirkunov og Volkan Oezdemir eru báðir á topp 10 í léttþungavigtinni og báðir á fínum aldri. Cirkunov er mjög spennandi en hann hefur unnið alla fjóra bardaga sína í UFC og klárað þá alla. Oezdemir kom verulega á óvart í sínum fyrsta bardaga í UFC þegar hann sigraði Ovince St. Preux. Það fleytti honum í 5. sæti styrkleikalistans og verður áhugavert að sjá hvort hann nái að fylgja þeim sigri eftir.

Endist Omari Akhmedov lengur en 86 sekúndur?

Þeir Omari Akhmedov og Abdul Razak Alhassan mætast í áhugaverðum bardaga í veltivigt. Alhassan hefur klárað alla bardaga sína, alla með rothöggi og alla í 1. lotu. Enginn andstæðingur hefur náð að lifa af lengur en 86 sekúndur gegn honum. Alhassan er með einn sigur í UFC en þá tók hann æfingafélaga Conor McGregor, Charlie Ward, á aðeins 53 sekúndum.

Omari Akhmedov tapaði auðvitað fyrir Gunnari Nelson árið 2014 og hefur síðan þá verið í hálfgerðu miðjumoði í UFC. Akhmedov er þekktur fyrir villta og þunga króka og gæti þetta orðið ansi skemmtilegur bardagi.

Aðrar skemmtilegar viðureignir

Þó hér séu ekki endilega stærstu nöfnin eru hér mögulega margir skemmtilegir bardagar. Jack Hermansson mætir Alex Nicholsson í áhugaverðum bardaga en Hermansson fær væntanlega góðan stuðning enda Svíi sem býr og æfir í Noregi. Pedro Munhoz er frábær glímumaður með tvo sigra í röð eftir uppgjafartök en hann mætir Damian Stasiak frá Póllandi. Darren Till er alltaf skemmtilegur en hann mætir Jessin Ayari og svo verður gaman að sjá Marcin Held gegn Damir Hadzovic.

Frábær tími

Eins og áður segir fer bardagakvöldið fram í Stokkhólmi í Svíþjóð og fara bardagarnir því fram á frábærum tíma. Fyrsti bardagi dagsins byrjar kl 14 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 17 og stendur yfir í þrjá tíma. Hvað er betra en að liggja yfir UFC á rólegum sunnudegi? Aðalhluti bardagakvöldsins verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en upphitunarbardagana má sjá á Fight Pass rás UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular