Thursday, October 3, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Nogueira vs. Nelson

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Nogueira vs. Nelson

UFC-FN-39

Á föstudagskvöld fer fram UFC Fight Night: Nogueira vs. Nelson. Bardagarnir fara fram í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hefjast kl 18 að íslenskum tíma. Bardagarnir eru að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því af hverju þú ættir að horfa á þennan viðburð.

Þú þarft ekki að vaka fram á nótt

Það er ekki tekið út með sældinni að vera MMA aðdáandi á Íslandi og þurfa að vaka fram til morguns til að horfa á bardagana. Viðburðurinn á föstudaginn byrjar kl. 18 og því ættu allir að geta fengið nætursvefninn sinn OG horft á bardagana.

Tveir efnilegir mætast

Þeir Alan Omer og Jim Alers þreyta frumraun sína í UFC í fyrsta bardaga kvöldsins. Báðir þykja þeir mjög efnilegir fjaðurvigtarmenn og verður afar forvitnilegt að sjá hvor þeirra er betri. Jim Alers er fyrrum Cage Warriors fjaðurvigtarmeistarinn en hann og Conor McGregor áttu að keppa um beltið þar áður en Alers meiddist.

Thales Leites gæti haldið áfram sigurgöngu sinni

Brasilíumaðurinn Thales Leites er ef til vill þekktastur fyrir að hafa keppt við Anderson Silva um titilinn á UFC 97 fyrir fimm árum síðan. Eftir tapið gegn Silva og tap gegn Alessio Sakara í kjölfarið var Leites leystur undan samningi og keppti í minni samtökum í fjögur ár með góðum árangri. Á síðasta ári snéri hann aftur úr neðri deildunum og hefur nú unnið síðustu fimm bardaga sína, þar af tvo í UFC. Millivigtardeildin er virkilega sterk þessa dagana og því má þessi 32 ára BJJ svartbeltingur ekki misstíga sig ætli hann sér að komast aftur í toppbaráttuna í millivigtinni.

ADCC meistarinn Rani Yahya keppir við glímukappann Johnny Bedford

Fyrir aðdáendur gólfglímunnar eru mikil forréttindi að fá að horfa á bardaga Rani Yahya. Í síðasta bardaga sínum mætti hann hinum finnska Tom Niinimaki og þó hann hafi tapað þeim bardaga með klofnum dómaraúrskurði voru margir á því að það hefði verið ein besta gólfglímuviðureign ársins í MMA. Yahya sigraði ADCC glímumótið í -66kg flokki árið 2007 og lenti í öðru sæti árið 2005 en mótið er eitt allra sterkasta uppgjafarglímumót heims. Andstæðingur Yahya að þessu sinni er Johnny Bedford, sem keppti í 1.deild í bandarísku háskólaglímunni. Það er því ágætis möguleiki að bardaginn endi í jörðinni og gólfglímuaðdáendur fái eitthvað fyrr sinn snúð.

Tatsuya Kawajiri gæti sigrað Clay Guida

Flestir eru sammála um að Clay Guida er einn allra leiðinlegasti bardagakappinn í bransanum í dag. Í bardaganum gegn Gray Maynard hoppaði Guida og skoppaði um búrið í 25 mínútur á milli þess sem hann reyndi að forðast Maynard eins og hann gat. Maynard var lítið skemmt við þetta, eins og sjá má á þessari hreyfimynd

Kawajiri gæti því gert öllum stóran greiða með því að sigra Guida á föstudaginn. Þessi japanski reynslubolti leit virkilega vel út í síðasta bardaga sínum gegn Sean Soriano en menn bundu miklar vonir við Soriano, sem æfir með Blackzilians í Flórída. Kawajiri hefur keppt í MMA síðan árið 2000 og er með 42 bardaga á ferilsskránni. Hann er sterkur glímumaður og  það verður fróðlegt að sjá hvor hefur betur á því sviði á föstudaginn.

Síðasti séns hjá þungarvigtarmönnunum Roy Nelson og Antonio Nogueira

Aðalbardagi kvöldsins stendur á milli Nelson og Nogueira sem báðir eru 37 ára. Nelson hefur tapað síðustu tveim og gæti því lent í klandri ef hann tapar gegn Nogueira á föstudaginn. Dana White hefur oft á tíðum lýst yfir óánægju sinni með metnað Nelson og UFC ferill hans gæti verið í hættu tapi hann þrem í röð. Nogueira er lifandi goðsögn í MMA heiminum en hefur ekki unnið tvo bardaga í röð síðan árið 2008 og þarf því að fara að ná nokkrum sigrum í röð ætli hann sér að gera atlögu að topp 5 í þungavigtinni.

Báðir eru flinkir uppgjafarglímukappar og það verður áhugavert að sjá hvort þeir velja að halda bardaganum standandi eða hvort þeir endi í gólfinu.

 

 

spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular