Chael Sonnen lagði nýverið hanskana á hilluna eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Stuttu eftir það var tilkynnt að Sonnen myndi taka þátt á Metamoris 4 glímukvöldinu en það gæti nú verið í hættu.
Sonnen stefnir á að keppa gegn Andre Galvao á Metamoris 4 þann 9. ágúst. Svo virðist vera að Sonnen sé ekki sloppinn frá heljargreipum NSAC (Nevada State Athletic Commission). Samtökin sem nýlega settu hann í tveggja ára keppnisbann frá MMA hafa nú hótað að sekta Sonnen um 250.000 dollara fyrir hvert lyfjapróf sem hann féll á ef hann tekur þátt í mótinu.
NSAC hefur ekki áður skipt sér að einstakling sem keppir á slíku móti á þessa vegu en svo virðist vera sem Sonnen verði gerður að fordæmi í þessu tilfelli. Sonnen hefur ráðið sér lögfræðing til að kanna hvort NSAC hafi réttindi til að banna honum þátttöku í mótinu þar sem glíma er tæknilega ekki skilgreind á sama hátt og MMA.
Ralek Gracie, einn stjórnenda keppninnar, virðist ekki hafa áhyggjur af lyfjainntöku Sonnen og vill glaður leyfa honum að keppa á Metamoris. Það mun aftur á móti vera NSAC sem fær að taka lokaákvörðunni um það.
Sólin skín svo sannarlega ekki á heimili Sonnen þessa dagana. Fyrst var hann rekinn úr UFC, svo missti hann Fox Sports sjónvarpsstarfið sitt og á nú í hættu á að missa af Metamoris glímunni. Á aðeins nokkrum mánuðum hefur ferill hans snúist í 180 gráður og allt sem hann var búin að vinna svo hart fyrir er að renna úr greipum hans.
Nýjustu fregnir herma að Sonnen hafi beðið Randy Couture um að taka sinn stað á Metamoris 4. Couture á þó að hafa hafnað því boði þar sem hann er upptekinn við að kynna Expendables 3 myndina.