Sergei Pavlovich og Jairzinho Rozenstruik mættust í þriðja síðasta bardaga kvöldsins. Þessir fyrrum æfingafélagar eru báðir á topp 10 lista yfir efnilegustu þungavigtarmenn innan UFC en flestir horfðu til Pavlovich og vonuðust til þess að fá svar við spurningu ársins, það er hvort að hann hafi teygt sig of hátt og sé í raun ekki jafn efnilegur og við héldum eða hvort að hann myndi nýta tækifærið og koma sér aftur á sigurbraut eftir tvö samliggjandi töp.
Pavlovich byrjaði bardagann vel og rólega. Jabb + hægri-yfirhandar fléttan hitti mjög vel í fyrstu lotunni en Pavlovich endaði lotuna ofan á Rozenstruik sem rann óheppilega. Pavlovich nýtti sér tækifærið, tók topp stöðuna og sigldi lotunni þægilega heim. Seinni tvær loturnar voru nokkurn veginn sama saga. Mjög hægur bardagi sem sprakk upp með þungum höggum af og til. Þeir félagar fengu nokkrum sinnum hvatningu frá dómaranum sem óskaði eftir meiri virkni frá strákunum.
Pavlocich sagði fyrir bardagann að hann hefði verið svekktur eftir tapið sitt gegn Alexander Volkov þar sem honum fannst hann sjálfur hafa leitað of mikið eftir rothögginu og þar af leiðandi ekki fundið flæðið sitt almennilega. Í þetta skipti vildi hann boxa meira og tapa sér ekki í leit að rothöggi. Það virðist hafa gengið eftir enda fór bardaginn allar 3 loturnar í annað skipti á UFC-ferli Sergei Pavlovich, en í þetta skiptið fékk hann sigurinn frá dómurunum.