Bardaga Petr Yan og Aljamain Sterling hefur verið frestað um ókominn tíma. Yan og Sterling áttu að mætast þann 12. desember.
Næsta titilvörn Petr Yan átti að vera aðalbardaginn á UFC 256 þann 12. desember. Yan hefur nú þurft að draga sig úr bardaganum af „persónulegum ástæðum“. Vonir standa til að bantamvigtarmeistarinn geti barist í febrúar og gæti bardaginn verið aftur bókaður þá.
Það útskýrir hvers vegna UFC vildi bóka fluguvigtarmeistarann Deiveson Figueiredo strax í annan titilbardaga eftir aðeins þrjár vikur. Figueiredo sigraði Alex Perez um helgina og mætir síðan Brandon Moreno þann 12. desember.
Upphaflega áttu tveir titilbardagar að vera á kvöldinu en hinn titilbardaginn, viðureign Amanda Nunes og Megan Anderson, hefur einnig verið blásinn af vegna meiðsla Nunes.
Aljamain Sterling þarf því að bíða enn lengur eftir að fá titilbardagann sinn en þarf vonandi ekki að bíða of lengi.