Thursday, April 25, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 255

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 255

Embed from Getty Images

UFC 255 fór fram um helgina þar sem tveir titilbardagar voru á dagskrá. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Það var ekkert rosalega mikil eftirvænting fyrir UFC 255 hjá bardagaaðdáendum víða um heim. Tveir ágætis titilbardagar en annars lítið um bardaga sem hafa mikla þýðingu fyrir þyngdarflokkana. Bardagakvöldið var ágætis skemmtun engu að síður en stjarna kvöldsins var Deiveson Figueiredo.

Fluguvigtarmeistarinn var fljótur með Alex Perez og var þetta hans fyrsta alvöru titilvörn. Hann hefur klárað sjö af níu sigrum sínum í UFC og er að festa sig í sessi sem alvöru skemmtikraftur í UFC en það er nokkuð sem hefur oft vantað í fluguvigtina. Hann er svo hættulegur og það eykur alltaf spennuna við áhorf. Hann er að verða einn af þeim sem þú hreinlega verður að horfa á í hvert sinn sem hann berst.

Dana White ákvað síðan strax á laugardaginn að bóka hann í annan titilbardaga eftir aðeins þrjár vikur! Figueiredo mætir Brandon Moreno sem náði sjálfur sigri fyrr um kvöldið. Nafn Figueiredo verður því MMA aðdáendum vel kunnugt þegar hann snýr aftur eftir þrjár vikur og það er aldrei slæmt. UFC þarf í það minnsta ekki að eyða miklum tíma í að minna aðdáendur á hver Figueiredo er. Annar sigur eftir aðeins þrjár vikur myndi svo síðan sannarlega hækka hlutabréfin í Figueiredo.

Með sigri á Moreno í desember verður auðvelt að færa rök fyrir því að Figueiredo sé bardagamaður ársins. Hann yrði þá 4-0 á árinu, ríkjandi meistari og klárað að minnsta kosti þrjá bardaga. Það myndi líka gefa bardaga við Cody Garbrandt á næsta ári meira vægi ef Figueiredo er búinn að verja beltið tvisvar. Eina sem maður hefur áhyggjur af með Figueiredo er vigtin. Það er spurning hvort hann geti tekið annan stóran niðurskurð eftir aðeins þrjár vikur án þess að klikka.

Embed from Getty Images

Valentina Shevchenko sigraði Jennifer Maia mjög örugglega. Maia tókst að vinna eina lotu en sigurinn var samt aldrei í hættu. Maia náði ekki að gera neinn skaða né ógna með uppgjafartökum. Eina lotan sem hún vann var eftir mistök Shevchenko þar sem meistarinn endaði undir. Maia hélt sér ofan á Shevchenko en gerði annars frekar lítið til að ógna. Shevchenko náði ekki að klára en Maia gerði vel í gólfinu að taka ekki of mikinn skaða og sýndi harða höku standandi.

Það er vitað mál að Shevchenko er mun betri en allar í flokknum. Stuðullinn á sigur andstæðinga Shevchenko hefur verið á milli 6 og 9 í síðustu fjórum bardögum hennar. Þegar meistarinn er svona miklu betri verður aldrei nein spenna í loftinu. Það er þó von fyrir fluguvigtina því næsti áskorandi verður að öllum líkindum Jessica Andrade. Sú getur svo sannarlega sveiflað og ógnað meistaranum.

Embed from Getty Images

Mike Perry átti slæma helgi. Hann byrjaði á að skíta á sig í vigtuninni þegar hann mætti um 5 pundum of þungur. Það var sérstaklega vandræðalegt þar sem hann birti myndbönd af sér í síðustu viku þar sem hann var að hamstra á hamborgurum og öðru ruslfæði.

Frammistaðan hans í búrinu var síðan léleg og hefur honum farið aftur á síðustu árum. Hann hefur ekki unnið með rothöggi síðan 2017 og á það að vera hans helsti styrkleiki. Allt við hann ber þess merki að hann sé ekki með rétta fólkið í kringum sig. Hann er ekki með neina þjálfara, engan næringarfræðing eða einhvern til að hjálpa sér með niðurskurðinn og sennilega ekki með hausinn á réttum stað. Með ofbeldissögu hans utan búrsins er spurning hversu marga sénsa Perry fær þó Dana White þyki hann skemmtilegur.

Joaquin Buckley tókst síðan að fylgja eftir ótrúlegu rothöggi sínu í október með góðri frammistöðu um helgina (og auðvitað öðru rothöggi). Íslandsvinirnir Nicolas Dalby og Alan Jouban náðu síðan góðum sigri í skemmtilegum bardögum sem var gaman að sjá. Jouban hefur verið frá vegna meiðsla og nældi sér í kærkominn sigur.

UFC lestin heldur áfram en næstu helgi eigast þeir Curtis Blaydes og Derrick Lewis við í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular