Friday, September 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentRaquel Pennington: Stolt af þjálfurunum

Raquel Pennington: Stolt af þjálfurunum

Raquel Pennington tapaði fyrir Amöndu Nunes á UFC 224 um síðustu helgi. Pennington vildi hætta eftir 4. lotu en hornið hvatti hana áfram sem þótti afar umdeilt.

Raquel Pennington hefur komið þjálfurum sínum til varnar. Hornið hjá Pennington sannfærði hana um að halda áfram í stað þess að hætta og var bardaginn á endanum stöðvaður um miðbik 5. lotu. Pennington tapaði því eftir tæknilegt rothögg en segir í dag að hún sé stolt af ákvörðun þjálfaranna að láta hana halda áfram.

„Ég er stolt af þjálfurunum mínum. Ég veit að margir eru á móti því sem þeir sögðu og það er auðvelt að dæma frá hliðarlínunni, en þú veist aldrei hvað er að gerast á augnablikinu. Þegar allt kemur til alls þekkja þjálfararnir mig best. Þeir þekkja hörkuna í mér og vita hvað ég ræð við. Ég treysti þjálfurunum fyrir öllu og veit að þeir myndu aldrei setja mig í aðstöðu sem ég ræð ekki við,“ sagði Pennington við The MMA Hour á mánudaginn.

Nef Pennington var illa farið eftir 4. lotuna og þá var hún í vandræðum með vinstri fót sinn eftir þung lágspörk frá Nunes strax frá byrjun bardagans.

„Ég var sammála þjálfurunum um leið og bardaginn var búinn. Ég var líka sammála þeim á þessu augnabliki þar sem boltinn er hjá mér þegar allt kemur til alls. Ég hefði auðveldlega getað hætt sjálf. Ég hefði getað tappað út en ég kaus að gera það ekki. Ég valdi að rífa mig upp og ekki gefast upp á sjálfri mér. Að gefast upp er ekki í boði og á þessu augnabliki var ég að gefast upp á sjálfri mér. Á þeim tímapunkti stíga þjálfararnir inn og hvetja íþróttamanninn. Ég hefði verið reið sjálfri mér þannig að ég er ánægð að þjálfararnir leyfðu mér ekki að gefast upp á sjálfri mér.“

Ákvörðun þjálfaranna hefur verið harðlega gagnrýnd en Pennington segir fólki að slaka. „Þetta var frábært tækifæri og ég er stolt af því sem ég gekk í gegnum og hékk þarna inni svo lengi og er stolt af þjálfurunum fyrir að hafa verið til staðar og hvatt mig áfram. Það hefði verið verra ef ég hefði hætt á stólnum og kastað inn handklæðinu. Hættið að dæma, þið munuð aldrei skilja hvað gengur á í búrinu nema þið hafið verið í sömu sporum.“

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular