Robert Whittaker sigraði Yoel Romero í geggjuðum bardaga á UFC 225 um síðustu helgi. Whittaker náði að lifa af erfiðar stundir en sigraði að lokum eftir klofna dómaraákvörðun.
Bardagi Whittaker og Romero var fimm lotur af mögnuðu stríði sem seint mun gleynast. Báðir náðu þungum höggum inn og var Romero hársbreidd frá því að klára Whittaker. Meistarinn náði þó að lifa af og segir að Romero sé gerður úr einhverju allt öðru en við hin.
„Fyrir utan andlitið á mér var allur skaði sem ég varð fyrir vegna þess að ég var að reyna að kýla og sparka í hann,“ sagði Whittaker við The Daily Telegraph í Ástralíu.
Þetta var í annað sinn sem þeir mætast en í fyrri bardaganum meiddist Whittaker á hné strax í 1. lotu eftir spark frá Romero.
Whittaker braut á sér hægri höndina í 1. lotu í bardaganum um síðustu helgi og átti í erfiðleikum með að kýla út bardagann. Hann náði m.a. góðu hásparki beint í Romero en sá kúbverski haggaðist ekki.
„Í þetta sinn var hann eins og stál. Ég var að kýla og sparka í hann en það var ekki að gera neitt. Hann labbaði í gegnum allt. Það var skrítið. Höggin mín voru ekki að stoppa hann. Ég hef barist við alla í millivigtinni, þar á meðal Romero áður, og ég hef aldrei upplifað annað eins. Ég veit ekki af hverju. Kannski verður maður sterkari með aldrinum. Ég geri ráð fyrir því að það gerist þegar þú verður fertugur.“
Whittaker verður frá í nokkrar vikur eftir handarbrotið en stefnir á að berjast aftur á þessu ári. Óvíst er hvort hinn 41 árs gamli Romero verði áfram í millivigt eftir að hafa tvívegis mistekist að ná vigt.