Dana White tilkynnti nú fyrir skömmu að Ronda Rousey muni snúa aftur þann 30. desember. Rousey mætir þá núverandi meistara, Amöndu Nunes, á UFC 207 þann 30. desember.
Þetta tilkynnti hann í þættinum The Herd fyrr í dag. Þetta verður fyrsti bardagi Rondu Rousey síðan hún tapaði titlinum til Holly Holm þann 15. nóvember síðastliðinn.
Holly Holm rotaði Rondu Rousey á UFC 193 í Ástralíu. Bardaginn var nokkuð einhliða og var Rousey gagnrýnd fyrir lélega leikáætlun í bardaganum. Þetta var fyrsta tap Rousey í MMA og var tapið mikið áfall fyrir hana.
Ekki er vitað hversu mikið hún hefur verið að æfa síðan þá en Rousey hefur verið upptekin við ýmis verkefni í Hollywood. Á meðan hefur beltið sem Rousey hélt svo lengi farið á milli eigenda eins og heit kartafla.
Holly Holm tókst ekki að verja beltið eftir sigurinn á Rousey og tapaði fyrir Mieshu Tate eftir uppgjafartak í 5. lotu. Tate tókst ekki heldur að verja beltið en Nunes kláraði Tate með uppgjafartaki í 1. lotu á UFC 200 í sumar.
Nunes er með níu rothögg á ferilskránni og spurning hvort við sjáum tíunda rothöggið gegn Rousey í desember. Þetta er eini bardaginn sem staðfestur hefur verið á UFC 207 en bardagakvöldið fer fram í T-Mobile Arena í Las Vegas þann 30. desember.
UFC 207 @RondaRousey vs @Amanda_Leoa on Dec. 30 pic.twitter.com/rrBk0h0YOU
— Zombie Prophet (@ZPGIFs) October 12, 2016