Rose Namajunas er ekki viss um hvort hún haldi áfram að berjast. Áhuginn fer hverfandi og verður áhugavert að sjá hver næstu skref hennar verða.
Rose Namajunas tapaði strávigtartitli sínum til Jessicu Andrade um síðustu helgi. Namajunas leit vel út framan af en í 2. lotu var henni skellt á hausinn með þeim afleiðingum að hún rotaðist. Andrade var því krýnd nýr strávigtarmeistari UFC.
Strax eftir bardagann kvaðst Namajunas vera feginn því að vera ekki lengur meistari. Namajunas var meistari frá nóvember 2017 og til maí 2019 og tókst að verja beltið einu sinni.
„Það er strax verið að tala um annan bardaga [gegn Andrade]. Ég var klárlega að rústa henni, það er enginn vafi á því. Við sjáum til hvort ég hafi ennþá áhuga á þessu,“ sagði Namajunas á blaðamannafundinum eftir bardagann.
„Ég veit að ég get unnið hana. Ég vil bara gera eitthvað annað við lífið mitt núna. Ég ætla ekki að taka neinar stórar ákvarðanir núna. Ég veit ekki, það er erfitt að hafa gaman af þessu ennþá.“
Hugsanlega er Namajunas að hætta en Namajunas er bara 26 ára gömul og hefur barist sem atvinnumaður í átta ár.
Bardaginn fór fram í Brasilíu á heimavelli Andrade og þurfti meistarinn því að ferðast langa vegalengd sem er sjaldséð. „Það er mikil pressa, ég er ennþá að melta þetta. Ég fann pressu við að koma hingað. Það var mikill tilfinningarússíbani í kringum síðasta bardaga og ég var að halda á mörgum boltum á lofti á sama tíma. Ég er samt ennþá mjög glöð að ég skildi hafa komið hingað til Brasilíu. Það var heiður að skora á sjálfa mig og berjast gegn Andrade. Ég veit að hún er skrímsli.“