Rousimar Palhares var í dag dæmdur í tveggja ára keppnisbann af Íþróttasambandi Nevada-fylkis (Nevada State Athletic Commision). Úrskurðurinn kemur í kjölfar þess að Palhares var ásakaður um að hafa haldið uppgjafartaki of lengi gegn Jake Shields í bardaga þeirra.
Auk keppnisbannsins þarf Palhares að greiða 40.000 dollara sekt. Kapparnir mættust um veltivigtartitil World Series of Fighting þann 1. ágúst síðastliðinn. Bardaginn var stórgóð skemmtun fyrir glímuáhugamenn sem gleymist oft eftir brot Palhares.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Palhares lendir í vandræðum fyrir að halda uppgjafartökum of lengi og telja miðlar erlendis að Palhares hafi verið heppinn að sleppa við lífstíðarbann. Ekki bætti úr skák að Palhares mætti án lögfræðings sem verður að teljast mjög óvenjulegt.
Palhares hélt því fram að dómarinn Steve Mazzagatti hafi verið illa staðsettur og reyndi að kenna því um. Palhares sagðist hafa haldið að Shields væri að gefa sér hnéspörk í bakið þegar hann var í raun að tappa út.
Palhares átti sér litlar sem engar málsbætur og virtust svör hans gera illt verra. Umboðsmaður kappans var viðstaddur en eftir að nefndin hafði kveðið upp úrskurðinn virtist Palhares vera í erfiðleikum með að skilja hvað væri að eiga sér stað, enda ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni.
Palhares og umboðsmaður hans fengu dómarann John McCarthy til að bera vitni í tilraun til að sýna fram á slæma staðsetningu Steve Mazzagatti. Óhætt er að segja að sú ákvörðun hafi ekki reynst þeim góð.
Well that backfired hard. Palhares’ manager called McCarthy in as an expert witness. He ended up breaking down Palhares’ mistakes in detail.
— Shaheen Al-Shatti (@shaunalshatti) October 29, 2015
WSOF samtökin höfðu áður svipt Palhares titilinum eftir atvikið. Nú liggur fyrir að hann mun vera samningsbundinn samtökunum áfram eða þar til hann getur sótt um leyfi til að keppa á ný þann 1.ágúst 2017.
MMA fréttamaðurinn Shaheen Al-Shatti var með beina textalýsingu á Twitter sem var fróðlegt að fylgjast með. Textalýsinguna má sjá hér.
Hér má svo sjá uppgjafartakið sem um ræðir: