Saturday, April 20, 2024
HomeErlentBig Nog hefur farið í 22 aðgerðir

Big Nog hefur farið í 22 aðgerðir

Antonio_Rodrigo_NogueiraAntonio Rodrigo Nogueira, betur þekktur sem ‘Big Nog’ lagði hanskana á hilluna eftir UFC 190. Hann hefur nú opinberað þau heilsufarsvandamál sem hafa herjað hann á ferlinum.

Fáir bardagakappar hafa sýnt jafn mikið hjarta, eldmóð og viljaþrek líkt og Nogueira gerði á ferlinum sínum. Þessi ástríða Nogueira hefur ekki komið án endurgjalds. Í gegnum feril sinn hefur Nogueira þurft að fara alls í 22 aðgerðir. Nogueira hefur lengi vel reynt að halda því leyndu hversu slæmt ástand hans var orðið. Þar sem ferill hans er kominn á enda er hann tilbúinn til að opinbera það sem hann hefur falið í gegnum árin.

Nogueira greinir frá því að seinustu fimm árin af ferlinum sínum hafi verið erfiðust en alls fór hann í átta aðgerðir á síðustu fimm árum. Nogueira er með 16 málmskrúfur í hægri handlegg sínum sem ná frá olnboganum og upp að öxlinni. Þessar skrúfur valda Nogueira miklum sársauka þegar hann byrjar undirbúning fyrir bardaga og einnig þegar hitastigsbreytingar eiga sér stað. Nogueira fór einnig í aðgerð á vinstri handlegg og tvær aðgerðir á mjöðminni á síðustu árum. Þessar aðgerðir gerðu herslumuninn í ákvörðun hans um að hætta í MMA.

Læknirinn Marcio Tannure er einn af þeim læknum sem unnið hefur með Nogueira. Nýlega greindi hann frá meiðslum Nogueira fyrir bardaga hans gegn Roy Nelson í apríl 2014. Nogueira tapaði bardaganum eftir rothögg í 1. lotu en samkvæmt Tannure keppti Nogueira með slitið liðband í hné. Nogueira upplifði mikinn sársauka af þessum meiðslum og hefðu fáir getað keppt í slíkum aðstæðum að mati Tannure. Þrátt fyrir að geta varla gengið steig Nogueira í búrið.

Nogueira hætti loksins í ágúst á þessu ári en margir höfðu áður reynt að sannfæra hann um að hætta. Svo virðist sem Dana White hafi verið sá sem hafi loksins náð til hans eftir tap Nogueira gegn Stefan Struve á UFC 190. White bauð Nogueira starf hjá UFC við að finna upprennandi bardagamenn í Brasilíu sem Nogueira þáði.

Hann hefur nú lokið 16 ára ferli sínum í MMA enda hefur hann ekkert að sanna og er ein af goðsögnunum í MMA.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular