spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaRoy Nelson - rotarinn með stóru bumbuna

Roy Nelson – rotarinn með stóru bumbuna

Föstudaginn 11. apríl etja þeir Roy Nelson og Antonio “Big Nog” Nogueira kappi á UFC viðburði í Dubai. Bardaginn er aðalbardagi kvöldsins og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þegar hugsað er um hinn fullkomna íþróttamann er Roy Nelson sennilega síðastur til að koma upp í hugann. Hann er einfaldlega akfeitur og virkar oft á tíðum latur en samt er hann einn af bestu þungavigtarmönnum veraldar. Hvernig stendur á því?

Roy Nelson er 37 ára gamall þungavigtarmaður sem er hvað helst þekktastur fyrir að vera með stóra bumbu en á sama tíma með svakalega öfluga yfirhandar hægri. Þrátt fyrir að líta ekki út eins og atvinnuíþróttamaður er Roy Nelson hæfileikaríkur bardagamaður. Hann er með svart belti í brasilísku jiu-jitsu frá Renzo Gracie (sá sami og gaf Gunnari Nelson svarta beltið sitt) og eins og áður segir með svakalegan kraft í höndunum. 12 sigrar af 19 hafa komið eftir rothögg og virðist hann geta rotað hvern sem er.

Eins og með svo marga góða glímumenn þá varð Roy Nelson ástfanginn af höndunum sínum. Þrátt fyrir að vera mjög góður í gólfglímunni virðist hann hafa yfirgefið rætur sínar og reynir þess í stað einungis að rota andstæðinga sína. Það er flott þegar það gengur eftir en er mjög fyrirsjáanlegt. 

Nelson hefur átt ágætis feril í MMA en hefur aldrei komist nálægt því að berjast um titil í UFC. Hann rotar minni spámenn eins og Cheick Kongo og Dave Herman en virðist ekki eiga séns í þá allra bestu eins og sást í bardögum gegn Junior Dos Santos og Daniel Cormier. Þegar líður á bardagann verður Nelson augljóslega þreyttur og minnkar höggþungi hans snögglega en flest rothöggin hans koma í fyrstu lotu. Roy Nelson er án nokkurs vafa með betra þol en hinn venjulegi maður en honum hefði sennilega vegnað betur í bardögum við Stipe Miocic og Daniel Cormier ef þolið hans væri betra.

Stóra bumban hans blekkir og eru ekki margir sem myndu halda að þessi maður sé atvinnuíþróttamaður við fyrstu sýn. Margir sérfræðingar vilja meina að Roy Nelson hefði getað náð svo miklu lengra á sínum ferli ef hann hefði tekið ferilinn sinn meira alvarlega. Ást hans á Burger King hefur gert það að verkum að hann hefur engan áhuga á að létta sig til að keppa í lægri þyngdarflokki. Staðreyndin er sú að hann er ekki nema 185 cm á hæð (sem er frekar lítið miðað við þungavigtarmann) og ef hann væri ekki með þessa stóru bumbu ætti hann sennilega heima í léttþungavigt (jafnvel millivigt).

Stóra bumban og fáranlega skottið hans gerir það að verkum að fáir taka hann alvarlega. Nýlega tilkynnti hann opinberlega að hann ætlaði sér að sækja um forstjórastöðu íþróttasambandsins í Nevada (NSAC) en margir, þar á meðal Dana White, gerðu grín að honum. Líklegast var hann að grínast sjálfur en hann hefur ekkert tjáð sig um það ennþá.

Í næstu viku mætir hann hinum reynslumikla Antonio “Big Nog” Nogueira en það er bardagi sem Nelson gæti sigrað með glæsilegu rothöggi. Nogueira er aftur á móti frábær gólfglímumaður líka og gæti þetta verið skemmtilegur bardagi tveggja reynslubolta. Bardaginn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin kl 18 að íslenskum tíma.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular