spot_img
Wednesday, November 13, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSaga og upphaf illinda Conor og Khabib

Saga og upphaf illinda Conor og Khabib

Þeir Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov mætast á UFC 229 á laugardaginn. Gífurleg spenna ríkir fyrir þessum risabardaga en hér rekjum við aðeins söguna á bakvið illindin.

Fyrrum léttvigtarmeistarinn Conor McGregor og núverandi léttvigtarmeistari Khabib Nurmagomedov eru engir perluvinir þó gagnkvæm virðing sé á milli þeirra. Saga þeirra nær aftur til ársins 2014 þegar þeir ætluðu að æfa saman en nú er öldin önnur.

Allir vinir

Conor McGregor mætti Dustin Poirier á UFC 178 þann 27. september 2014. Þá var upprisa Conor í fjaðurvigtinni í hámarki og stjarna hans stöðugt að verða stærri og stærri. Conor fór leikandi létt með Poirier en sama kvöld tókst Donald Cerrone að sigra Eddie Alvarez. Cerrone átti upphaflega að mæta Khabib þetta kvöld.

Á þessum tíma var Khabib í miklum meiðslavandræðum en var viðstaddur UFC 178 sem áhorfandi. Þar hitti hann Conor baksviðs og var gott á milli þeirra.

Ekkert nema vinsemd og virðing þar á milli enda í sitt hvorum þyngdarflokki. Það hefur svo sem ekki stöðvað Conor McGregor hingað til að espa aðra bardagamenn (eins og t.d. Tyron Woodley) en engin illindi þarna á ferð.

Bolurinn sem um ræðir var opinber stuðningsmannabolur Conor frá Dethrone (áður en Reebok samningurinn var tekinn í gildi) og vildi Khabib fá stuðningsmannabol Conor. Ef Khabib hefur fengið bolinn er hann sennilega ekki að fara að klæðast bolnum á næstu dögum.

Á næstu árum var Khabib mikið frá vegna meiðsla. Hann átti að mæta Donald Cerrone eins og áður segir á UFC 178 en Khabib meiddist í hnénu. Bardaginn var aftur bókaður á UFC 187 í maí 2015 og aftur voru það hnémeiðsli Khabib sem komu í veg fyrir bardagann. Khabib átti svo að mæta Tony Ferguson í desember 2015 en meiddist enn á ný. Hann gat svo loksins barist í apríl 2016 og sigraði þá Darrel Horcher en þá hafði hann verið frá búrinu í tvö ár.

Slæmt grín

Conor varð óumdeilanlegur fjaðurvigtarmeistari UFC þegar hann rotaði Jose Aldo í desember 2015. Um leið og Conor kláraði Aldo var hann strax með augað á léttvigtinni. Conor ætlaði að skora á þáverandi meistara Rafael dos Anjos en 11 dögum fyrir bardagann þurfti dos Anjos að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla. Nate Diaz kom inn í hans stað og kláraði Conor. Eftir tapið kom ekki til greina að Conor fengi titilbardaga í léttvigtinni og vildi Írinn einungis fá annan bardaga gegn Diaz.

Eftir sigur Khabib á Darrel Horcher vildi Khabib fá titilbardaga gegn meistaranum Rafael dos Anjos en Khabib var ekki tilbúinn til að berjast um sumarið vegna Ramadan. Khabib er strangtrúaður múslimi og gat ekki barist um sumarið en þess í stað mætti Rafael dos Anjos (sem Khabib hafði þegar sigrað) neðanjarðarkónginum Eddie Alvarez.

John Kavanagh, yfirþjálfari Conor McGregor, grínaðist með trú Khabib á Twitter og það fór ekki vel í Rússann.

John Kavanagh fékk nokkrar hótanir eftir þetta litla grín sitt.

Þarna var komið aðeins annað hljóð í Khabib heldur en þegar þeir Conor ætluðu að æfa saman.

Eddie Alvarez rotaði svo Rafael dos Anjos í júlí 2016 og varð nýr léttvigtarmeistari UFC. Mánuði seinna tókst Conor McGregor að sigra Nate Diaz í mögnuðum bardaga.

UFC notar Khabib

Eftir að MMA hafði loksins verið lögleitt í New York ríki átti fyrsta heimsókn þeirra til New York í mörg ár að verða risastór. UFC hafði bókað Madison Square Garden þann 12. nóvember og kom ekkert annað til greina en að setja saman risa bardagakvöld.

Þann 20. ágúst sigraði Conor Nate Diaz og var strax farið að tala um mögulegan bardaga Conor gegn Eddie Alvarez á UFC 205 í Madison Square Garden. Samningaviðræður voru erfiðar og fór í gang áhugaverður þriggja manna leikur þar sem Khabib var leikinn grátt.

Conor var tilbúinn í slaginn en Eddie Alvarez vildi fá meira en það sem UFC var tilbúið að borga. UFC sagði því að bardagi Alvarez við Conor væri af borðinu og bauð Khabib bardaga gegn Alvarez. Khabib samþykkti og skrifaði undir tvö ólík samningsboð um að berjast gegn Eddie Alvarez. Í huga Khabib var hann kominn með titilbardaga.

Þessi taktík UFC skilaði sér og samþykkti Alvarez að berjast við Conor fyrir lægri upphæð en hann vildi upphaflega fá. Khabib sat því eftir með tvo ógilda samninga og var vægast sagt afar ósáttur.

Þrátt fyrir að Conor og Khabib væru ekki á leið í búrið saman var samt enginn kærleikur á milli. Baksviðs í vigtuninni á UFC 205 lentu þeir í orðaskiptum og þurfti öryggisgæslu til að aðskilja þá.

Á meðan Conor mætti Eddie Alvarez í aðalbardaga kvöldsins var Khabib í einum af upphitunarbardögum kvöldsins gegn Michael Johnson. Báðir gjörsigruðu þeir andstæðinga sína og lét Khabib gamminn geysa eftir bardagann þar sem hann lét þessi frægu orð falla: „Beginning of year he tap like chickhen, end of year he fight for title.“

Khabib vildi ekki fá neitt annað en titilbardaga eftir sigurinn á Johnson enda búinn að vinna alla átta bardaga sína í UFC. Þá bað hann Dana White, forseta UFC, um að vinsamlegast hætta að senda á sig plat samninga. Þetta gerði hann í miðjum bardaganum gegn Michael Johnson.

Eftir sigur Conor McGregor á Eddie Alvarez lýsti hann því yfir að hann hefði ekkert sérstaklega mikinn áhuga á að berjast við Khabib. Conor sagði að Khabib væri „pull-out merchant“ sem berjist alltof sjaldan að hans mati.

Conor eignaðist sitt fyrsta barn og ákvað að taka sér frí frá bardagaheiminum. Þar sem Conor var fjarverandi setti UFC upp bráðabirgðartitil í léttvigtinni. Khabib og Tony Ferguson áttu loksins að mætast í mars 2017 á UFC 209. Rúmum sólarhringi fyrir bardagann þurfti Khabib að draga sig úr bardaganum vegna vandamála í vigtun og var bardaginn af borðinu. Áfall fyrir UFC og Khabib en þarna var allt að spilast í hendurnar á Conor enda var Khabib að hætta við bardaga í enn eitt skiptið.

Conor barðist svo gegn Floyd Mayweather í boxi í ágúst 2017 í risa peningabardaga en hefur ekki barist síðan. Í október 2017 varð Tony Ferguson bráðabirgðarmeistari á meðan Khabib fékk bardaga gegn Edson Barboza í lok síðasta árs. Khabib gjörsamlega rústaði Barboza og voru margir afar hrifnir af frammistöðu Khabib. En ekki Conor.

Bardagi Khabib og Tony Ferguson var svo í fjórða sinn settur saman á UFC 223 en sex dögum fyrir bardagann, þann 1. apríl 2018, þurfti Ferguson að draga sig úr bardaga þeirra. Fjaðurvigtarmeistarinn Max Holloway kom í hans stað en þarna var Khabib aftur kominn með titilbardagann sem hann þráði svo heitt. Khabib var enn með titilbardaga og var enn í aðalbardaga kvöldsins á UFC 223 í apríl í Brooklyn.

Ótrúleg atburðarás í Brooklyn

Atburðarásina í apríl þekkja eflaust allir. Rússinn Artem Lobov, æfingafélagi og vinur Conor, hefur búið á Írlandi um árabil og lengi verið hluti af SBG liðinu í Dublin. Artem Lobov kallaði Khabib „gungu sem bakkar alltaf úr bardögum“ í rússneskum fjölmiðlum og það var Khabib ekki sáttur með.

Á hótelinu í Brooklyn nokkrum dögum fyrir UFC 223 gekk Khabib að Artem með fjölmörgum úr sínu liði. Khabib þjarmaði að Artem og bað hann um að hætta að tala um sig í fjölmiðlum. Artem neitaði fyrir að hafa kallað Khabib illum nöfnum en var löðrungaður létt á hnakkann af Khabib.

https://www.youtube.com/watch?v=eNbKd0cABD0

Þessi árekstur Khabib við Lobov fór ekki vel í Conor. Conor flaug þvert yfir Atlantshafið frá Írlandi til New York að því er talið til að afgreiða málin með Khabib og styðja vin sinn Artem Lobov.

Þar varð allt vitlaust og réðst Conor á rútu með Khabib innanborðs. Conor kastaði meðal annars trillu í gegnum rúðu rútunnar með þeim afleiðingum að nokkrir farþegar rútunnar urðu fyrir meiðslum. Bardagamennirnir Michael Chiesa og Ray Borg urðu fyrir meiðslum sem komu í veg fyrir að þeir gætu barist tveimur dögum seinna eins og til stóð.

Allt varð vitlaust vegna árásar Conor McGregor. Conor bað Khabib um að koma úr rútunni en Khabib hélt kyrru fyrir enda með titilbardaga á dagskrá tveimur dögum seinna. Khabib skildi ekkert í látunum í Conor og sagði bara „send me location“. Conor lét sig hverfa en gefin var út handtökuskipun á hendur Conor og endaði hann á að gefa sig fram. Khabib sagði eftir atvikið að hann væri gjarnan til í að berjast við Conor – í búrinu eða jafnvel utan búrsins.

Daginn eftir rútuárásina var svo enn meira drama í vigtuninni fyrir UFC 223. Max Holloway var bannað að skera meira niður og var sendur upp á sjúkrahús til aðhlynningar. Í hans stað kom Al Iaquinta og var því Khabib kominn með sinn þriðja andstæðing á innan við viku. Khabib sigraði Iaquinta eftir dómaraákvörðun en frammistaðan var síður en svo sannfærandi. Conor var á sama tíma sviptur léttvigtartitlinum sem hann vann af Eddie Alvarez og var Tony Ferguson sömuleiðis sviptur bráðabirgðartitlinum. Nú var bara einn meistari – Khabib Nurmagomedov.

Khabib lét nokkur vel valin orð fall í garð Conor á blaðamannafundinum eftir sigurinn. „Nú er bara einn meistari. Það er enginn gervi meistari, það er enginn meistari sem ver ekki beltið sitt. Núna er UFC með alvöru meistara og þessi meistari mun verja titilinn. Langar þig að berjast? Komdu þá. Í búrinu? Komdu. Utan búrsins? Komdu. Láttu mig vita án myndavélanna og allra fjölmiðla.“

Conor þurfti svo í sumar að mæta fyrir dómstóla vegna rútuárásinnar þar sem hann slapp afar vel. Hann játaði brotin sín og þurfti að greiða sekt sem og að sinna samfélagsskyldu. Michael Chiesa, sem fékk glerbrot í sig í rútunni, er svo að höfða einkamál gegn Conor.

Það hefur því ansi margt gerst frá því þeir ætluðu að æfa saman í Las Vegas og þar til þeir mætast á laugardaginn. Á fimmtudaginn fer svo annar blaðamannafundur fram og þá er aldrei að vita hvað gerist.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular