Saul Rogers dvaldi hér á landi á dögunum við æfingar í Mjölni. Við spjölluðum við hann um mögulega bardaga í UFC, æfingar með Gunnari Nelson, TUF og fleira.
Saul Rogers komst alla leið í úrslit í nýjustu seríu The Ultimate Fighter. Skömmu fyrir úrslitabardagann í desember var samningi Rogers hins vegar rift þar sem hann hafði logið á vegabréfsárituninni. Ryan Hall kom því í hans stað í úrslitunum og sigraði Artem Lobov.
Saul Rogers segir í viðtalinu að hann sé nokkuð bjartsýnn á að hægt verði að leysa þessi vandamál og fá vegabréfsáritun til að komast til Bandaríkjanna. Hann er þó bardagamaður og þarf að fá að berjast og mun tilkynna sinn næsta bardaga á næstu dögum en sá mun fara fram utan UFC.
Rogers er þekktur fyrir að vera sterkur glímumaður og sýndi frábæra takta í The Ultimate Fighter „Þegar ég byrjaði að æfa varð ég háður ólympískri glímu. Ég fór í MMA tímana og boxtímana en það voru glímutímarnir sem ég elskaði mest. Ég tók alla auka glímutíma sem ég gat og var svo heppinn að hafa þjálfara sem var í Ólympíuliðinu og ég lærði mikið af honum og er umkringdur bestu glímumönnunum.“
„Ég held alltaf að glíman mín og fellurnar séu góðar en svo kem ég hingað og æfi með Gunna og félögum og ég hugsa með mér að ég sé ekki eins góður og ég hélt að ég væri,“ sagði Rogers hlæjandi.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Saul á klárlega að vera í UFC. Var yfirburðamaður í TUF og það hlýtur að vera hægt að græja þetta atvinnuleyfi.