Thursday, March 28, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 212

Spá MMA Frétta fyrir UFC 212

ufc 212UFC 212 fer fram í kvöld þar sem hörku bardagar verða á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta spá sína fyrir kvöldið.

Titilbardagi í fjaðurvigt: Jose Aldo gegn Max Holloway

Pétur Marinó Jónsson: Þvílíkur bardagi! Þetta er alveg 50/50 rétt eins og stuðlarnir hjá veðbönkum gefa til kynna. Ég hallast hins vegar að sigri Jose Aldo. Hann nær einhvern veginn alltaf að fá menn til að vinna á sínum hraða. Hann stoppar oft og starir á andstæðinginn til að lesa hann og það fær menn til að frjósa. Hann er virkilega fær í að lesa andstæðinginn og er ennþá að bæta nýjum vopnum í vopnabúrið. Ég held að Aldo eigi eftir að vinna með gagnárásirnar í kvöld. Hann á svo eftir að nota fellurnar í lok lotunnar til að stela lotunum og þannig vinna eftir dómaraákvörðun. Holloway á klárlega stóran séns gegn Aldo en ég held að reynslan og fight IQ hjá Aldo verði herslumunurinn í þessum bardaga Aldo í vil. Aldo sigrar eftir dómaraákvörðun í jöfnum og tæknilegum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Sturlaður bardagi. Unga ljónið vill hrifsa beltið af meistaranum en Aldo er enn á hápunkti krafta sinna, aðeins 30 ára gamall. Holloway mun aldrei stoppa en Aldo mun sparka undan honum löppunum, koma sér undan stóru höggunum og refsa með gagnhöggum og sigra nokkuð örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Einn af mest spennandi bardögum ársins hingað til. Holloway er búinn að sigra 10 bardaga í röð frá tapinu gegn Conor McGregor á meðan Aldo leit frábærlega út gegn Frankie Edgar síðasta sumar. Eitt ef þessum bráðabirgðarbeltum sem hefði aldrei átt að búa til en þetta er engu að síður bardagi sem maður hefur nákvæmlega ekkert á móti. Verður maður samt ekki að synda með straumnum og segja að lappirnar á Holloway verði verr útleiknar en á Urijah Faber eftir spörkin frá Aldo og að Aldo sigli þessu örugglega heim með öruggri dómaraákvörðun? Aldo sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Er buinn að sveiflast nokkuð mikið fram og til baka í þessum. Holloway er ótrúlega góður og búinn að bæta sig svakalega síðan hann mætti Conor. Aldo er auðvitað Aldo. Ég held að það sem ráði úrslitum um hvernig ég spái þessum bardaga er frammistaða Aldo gegn Frankie Edgar. Ég sé ekki fyrir mér að Holloway takist að gera eitthvað við Aldo sem Frankie gat ekki og því spái ég Aldo sigri eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.

Jose Aldo: Pétur, Óskar, Arnþór, Guttormur
Max Holloway:

Strávigt kvenna: Karolina Kowalkiewicz gegn Claudia Gadelha

Pétur Marinó Jónsson: Einn besti bardagi sem við getum fengið í strávigtinni. Ég hef oft vanmetið Karolinu og nánast alltaf tippað gegn henni. En hún hefur sýnt að hún er hörku bardagakona og komið manni á óvart. Hún líka bað um þennan bardaga sem er áhugavert þar sem þær eru ekki beint að bíða í röðum eftir því að mæta Gadelhu. Það er seigla í Karolinu og er hún með góða felluvörn og er öflug í clinchinu. Það væri betra fyrir Karolinu ef þetta væri fimm lotu bardagi þar sem Gadelha á það til að fjara aðeins út. En í þriggja lotu bardaga verður Gadelha of sterk í clinchinu og með of góðar fellur fyrir Karolinu og vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þrusubardagi, báðar hafa bara tapað fyrir Joanna Champion. Karolina gæti komið á óvart en ég held að glímustyrkur Claudiu muni skila henni a.m.k. tveimur lotum á spjöldum dómaranna. Claudia á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta er bardagi sem í rauninni gerir lítið fyrir þær. Hafa báðar tapað fyrir Joanna og sigurvegarinn fær ekki næsta titilbardaga. Mögulega mun sigurvegarinn berjast næst við þann sem tapar bardaganum á milli Joanna og Rose Namajunes. Gæti samt orðið skemmtilegur bardagi og þær þurfa báðar að koma sér á beinu brautina. Gadelha sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Mér líkar vel við KK en ég held að Gadelha sé of sterk fyrir hana. Hún er fjölhæfari, nær þessum bardaga í gólfið og sigrar eftir dómarákvörðun.

Claudia Gadelha: Pétur, Óskar, Arnþór, Guttormur
Karolina Kowalkiewicz:

Millivigt: Vitor Belfort gegn Nate Marquardt

Pétur Marinó Jónsson: Gömlu TRT-kallarnir að mætast. Tveir sem eru búnir að tapa ansi oft að undanförnu og rauninni komið gott hjá báðum bara. Dad bod Belfort leit ekkert hræðilega út gegn Kelvin Gastelum þrátt fyrir að vera rotaður í 1. lotu. Hann er ennþá með góðar hendur og mun finna hökuna hjá Nate Marquardt. Belfort hélt að þetta yrði síðasti bardaginn hans í UFC en hann átti víst tvo eftir. Belfort fær sinn síðasta sigur í UFC, klárar Marquardt í 1. lotu með rothöggi í kvöld, tapar svo næsta bardaga í UFC en fer svo í Rizin í Japan þar sem hann verður að TRT-Vitor aftur og lemur minni menn þar.

Óskar Örn Árnason: Ég held að Belfort eigi ekki mikið eftir. Ekki það að Marquardt sé eitthvað ferskur. Marquardt klárar Belfort í annarri lotu, klassískt ground and pound.

Arnþór Daði Guðmundsson: Mig langar bara ekki að sjá Vitor berjast lengur, þetta er komið gott. TRT-Vitor var skrímsli en það er bara löngu búið að fella það. Hefur alls ekki litið vel út í síðustu bardögum sínum og hafði talað um að hætta í Brasilíu eftir þennan bardaga en nú er komið annað hljóð í hann. Vona samt að sagan endi fallega og hann hætti eftir góðan sigur. Klassískur 1. lotu sigur hjá Vitor með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Belfort er auðvitað goðsögn. TRT Vitor er einn af óhugnalegustu mönnum sem hefur stigið fæti inn í búrið. Non-TRT Vitor lítur meira út eins og einhver soccer dad og frammistöðurnar eftir því. Marquardt sigrar með TKO í annarri.

Vitor Belfort: Pétur, Arnþór
Nate Marquardt: Óskar, Guttormur

Millivigt: Paulo Borrachinha gegn Oluwale Bamgbose

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður áhugavert. Hef það á tilfinningunni að þetta bardagakvöld verði eins og UFC 206 – ekkert stærstu nöfnin en það munu margir bardagar klárast. Borrachinha hefur aldrei farið út fyrir 1. lotu og er hrútmassaður. Ég held að hann nái ekki að klára Oluwale í 1. lotu, sprengi sig og verður svo sjálfur rotaður í 2. lotu eftir högg í gólfinu. Samt finnst mér þetta eiginlega vera spurning um hvor hittir fyrst en tippa á Oluwale.

Óskar Örn Árnason: Ætti að vera fjörugur og sennilega stuttur bardagi. Borrachinha hefur unnið alla sína andstæðinga til þessa í fyrstu lotu. Ég segi að hann geri það aftur núna þó svo að Bamgbose sé talinn líklegri í veðbönkunum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta gæti orðið wildcard bardagi kvöldsins og komið á óvart. Báðir sluggers sem vilja helst bara klára þetta í fyrstu lotu og berja hvorn annan. Ætli þetta fari nú samt ekki í 2. lotu allavega og klárist þar með TKO. Borrachinha sigrar með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Tel ekki ólíklegt að við sjáum rothögg í þessum. Borrachinha ósigraður og hefur stöðvað alla andstæðinga sína í fyrstu lotu. Ég spái því að hann haldi því áfram. Borrachinha TKO í fyrstu.

Paulo Borrachinha: Óskar, Arnþór, Guttormur
Oluwale Bamgbose:
Pétur

Veltivigt: Erick Silva gegn Yancy Medeiros

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður held ég mjög skemmtilegur bardagi. Ég hef alltaf haldið smá með Erick Silva og var að vonast eftir að hann yrði topp 5 gæji. Það er hann hins vegar ekki í dag en er samt alltaf mjög skemmtilegur. Ég býst við æsispennandi 1. lotu þar sem Silva þjarmar að Medeiros en nær ekki að klára hann. Hann gasar síðan og Medeiros klárar hann með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Silva lofaði svo góðu en hefur svo oft valdið vonbrigðum. Á sama tíma er Medeiros bara þokkalegur en getur komið á óvart. Underachiever gegn overachiever. Ætla að skjóta á Silva, rothögg í fyrstu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Jesús Kristur hvað það væri mögulega hægt að opna main cardið á betri bardaga eins og Marlon Moraes gegn Raphael Assuncao en hvað um það. Erick Silva er nafn sen flestir þekkja en er aldrei að fara að gera neitt úr þessu. Medeiros hefur svo barist við ágætis nöfn á síðustu þremur árum. Segjum bara að Medeiros sigri eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir með nokkuð doppótt bardagaskor. Manni finnst ekkert allt of mörg ár síðan að Erick Silva átti að vera næsta stóra nafnið í MMA. Að sama skapi finnst mér Medeiros nokkuð vanmetinn, hefur bara tapað gegn virkilega sterkum andstæðingum. Medeiros tekur þetta með uppgjafartaki í annarri lotu eftir að Silva er búinn að sprengja sig.

Erick Silva: Óskar
Yancy Medeiros: Pétur, Arnþór, Guttormur

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular