Friday, March 29, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 247

Spá MMA Frétta fyrir UFC 247

UFC 247 fer fram í kvöld þar sem tveir titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í léttþungavigt: Jon Jones gegn Dominick Reyes

Pétur Marinó Jónsson: Það er óráðlegt að spá gegn Jon Jones. Á pappírum er Jon Jones betri bardagamaður og á allan daginn að vinna þetta. Dominick Reyes er samt mjög góður, með hættuleg vopn og mun sennilega vera við toppinn næstu ár. Reyes með betra box, þung spörk, harður af sér og er stór. Maður veit samt ekki hvort hann sé tilbúinn í fimm lotur gegn Jon Jones. Að mínu mati veltir þetta allt á því hvort Jon Jones nenni þessu eða ekki. Í síðustu tveimur sigrum hefur Jones virkað áhugalaus og gert eins lítið og hann getur gert til að vinna. Meira að segja í fimmtu lotu í mjög tæpum bardaga gegn Thiago Santos var Jones ekkert að setja í næsta gír og klára þetta almennilega. Kannski er hann að dala en mér finnst frekar eins og hann geti gert mun meira og betur en hann hefur gert í síðustu tveimur bardögum. Vonandi var síðasti bardagi (sem hann vann eftir klofna dómaraákvörðun og hefði alveg getað dottið Santos meginn) smá spark í rassinn fyrir Jones og hann geri þetta almennilega núna. Get vel séð fyrir mér Jones malla áfram yfir fimm lotur og vinna eftir dómaraákvörðun en ég er að vona að hann komi aðeins beittari til leiks núna. Segjum Jones með TKO í 3. lotu eftir högg í gólfinu.

Óskar Örn Árnason: Það er öllu stillt upp fyrir upset en það er ekki hægt að spá gegn Jones. Bones lendir í vandræðum en tekur þetta á reynslunni, sigur á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að það myndi hleypa nýju blóði í léttþungavigt að fá Jones tap en ég sé það bara ekki gerast. Jones stjórnar þessum bardaga og sigrar á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Mig langar bara mest af öllu að sjá Jones tapa og lenda í smá mótlæti í búrinu. Þetta virðist vera orðin ansi mikil rútína fyrir hann þó hann hafi lent í „veseni“ í síðustu tveimur bardögum sínum þá er aldrei hætta á neinu öðru en að hann vinni, púlsinn fer aldrei upp. Ég held að það gæti verið hollt fyrir Jones og UFC að hann tapi og mig langar að sjá hvernig hann bregst við því. Ætla að taka stórt gisk og skjóta á Reyes í kvöld, þó mér finnist líklegra að Jones sigri.

Jon Jones: Pétur, Óskar, Guttormur
Dominick Reyes: Arnþór

Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Katlyn Chookagian

Pétur Marinó Jónsson: Það er svo mikið bil á toppnum á milli Valentinu og þeirra sem koma á eftir henni. Katlyn er bara point fighter og getur bara unnið þetta á stigum eftir 25 mínútna bardaga. Valentina er betri á öllum vígstöðvum – standandi, wrestling og í gólfinu. Katlyn hefur aldrei náð fellu í UFC og hefur einu sinni kýlt andstæðinginn niður í UFC. Alla bardaga sína hefur hún unnið eftir dómaraákvörðun. Eini sénsinn fyrir Katlyn er ef Valentina er of mikið til baka að countera og Katlyn vinnur lotur með því að gera aðeins meira. Katlyn gæti líka tekið upp á því að gera ekki neitt og láta Valentinu sækja á sig (sem er ekki hennar styrkleiki) og það gæti gefið okkur mjög leiðinlegan bardaga. Ég held bara að Valentina sé mun betri og klári þetta með höggum í gólfinu í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þetta ætti að verða mjög öruggt hjá Valentinu. Mesta hættan er að bardaginn verður leiðinlegur ef hvorug tekur áhættur. Segi að Valentina vinni á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Valentina og Nunes eru í sérflokki í kvennaflokki. Valentina sýnir það og pakkar Katlyn í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Veit ekkert með þennan bardaga, það er svo langt bil á milli Bullet og allra hinna í flokknum. Held að það sé nokkuð ljóst að hún sé að fara að vinna þó það eigi eftir að ráðast hvernig bardaginn muni þróast. Valentina gæti verið hikandi og þá verður þetta langur og leiðinlegur bardagi eða þá að hún verði eins og skurðlæknir og taki andstæðinginn í sundur. Ég vona að hann fari í þá áttina og Valentina sigri með headkick KO í 2 lotu.

Valentina Shevchenko: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Katlyn Chookagian: ..

Þungavigt: Juan Adams gegn Justin Tafa

Pétur Marinó Jónsson: Ekki merkilegir gæjar, eru samanlagt 1-3 í UFC. UFC er bara að vonast eftir að fá rothögg í 1. lotu en ef það gerist ekki gæti þetta orðið sloppy bardagi. Tafa hefur ekki upp á mikið að bjóða nema eina góða bombu. Adams er fínn glímumaður og er ekki búinn á því í 2. lotu. Segjum Adams með TKO í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Hrikalega óspennandi bardagi. Adams er stór og sterkur, hann rotar Tafa tafarlaust í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Stórir strákar með lélega tækni – það verður einhver rotaður. Adams KO í 2.

Arnþór Daði Guðmundsson: Er það bara ég eða eru PPV line-upin á árinu 2020 ekki búin að vera spes? Jæja, ég ætla að skjóta á Adams með KO.

Juan Adams: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Justin Tafa: ..

Embed from Getty Images

Fjaðurvigt: Mirsad Bektic gegn Dan Ige

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er örugglega jafnasti bardagi kvöldsins. Get vel séð fyrir mér báða vinna. Bektic er betri glímumaður, betri íþróttamaður og á eiginlega að vinna þetta. Hann hefur samt gasað og getur ekki haldið sama hraða allan tímann. Hann bregst illa við mótlæti í bardögum og Dan Ige er hörku bardagamaður sjálfur sem mun reyna vel á Bektic. Ég hef verið spenntur fyrir Bektic lengi en hann valdið eilitlum vonbrigðum. Finnst líklegra að Dan Ige vinni en ég ætla að gefa Bektic einn séns í viðbót. Ég vona að Bektic hafi bætt sig með Firas Zahabi og hann berjist betur núna. Bektic vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Frábær bardagi, ætti að verða stál í stál, mjög eftitt að spá. Ætla að taka Ige, segi að hann roti Bektic í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Gæti orðið fight of the night. Ég held að Bektic hafi alla burði til að verða meistari; frábær íþróttamaður með gott wrestling og geggjað ground and pound sem virðist eiga helling inni. Og svo æfir hann hjá Tristar undir leiðsögn Firas Zahabi. Ige er sprækur en ég held að Bektic reynist of mikið fyrir hann. TKO í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: Á pappírunum er Bektic betri, í mínum huga er Bektic betri þannig að ég fylgi því og skýt á að Bektic sigri á stigum.

Mirsad Bektic: Pétur, Guttormur, Arnþór
Dan Ige: Óskar

Þungavigt: Derrick Lewis gegn Ilir Latifi

Pétur Marinó Jónsson: Ég held að þetta sé erfiður bardagi fyrir Latifi. Latifi gerir lítið og gasar fljótt en nú er hann kominn upp í þungavigt þar sem niðurskurðurinn ætti ekki að hafa eins mikil áhrif á hann. Þrátt fyrir það held ég að Latifi muni sprengja sig við að reyna að taka Lewis niður. Latifi nær kannski 1-2 fellum en ég treysti ekki þolinu hans og hökunni hans. Lewis stendur bara upp ef hann er tekinn niður og klárar síðan þreyttan Latifi í 2. lotu með rothöggi.

Óskar Örn Árnason: Ég veit ekki alveg hvað Latifi er að gera. Gengur illa í léttþungavigt, hakan pínu veik, best að ráðast á risana. Ég held að Latifi þreytist fljótlega og Lewis rotar hann í lotu 2.

Guttormur Árni Ársælsson: Yfirleitt er styrkurinn það eina sem Latifi hefur umfram andstæðinga sína. Í þessum bardaga mun Lewis hafa yfirhöndina hvað það varðar. Lewis er hins vegar skuggalega lélegur í gólfinu svo ég spái því að Latifi nái þessu niður og klári með head and arm choke í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: Held að Latifi hafi ekkert með það að gera að fara upp í þungavigtina og muni þreytast hratt enda 40 pundum yfir léttþungavigtarmarkinu sem hann er vanur (þó hann sé þyngri á bardagakvöldinu sjálfu). Ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur á móti Lewis, en gæti þó náð árangri á gólfinu. Mögulega hægur og leiðinlegur bardagi en Lewis rotar Latifi í 3. lotu.

Derrick Lewis: Pétur, Óskar, Arnþór
Ilir Latifi: Guttormur

Heildarstig ársins:

Óskar: 5-0 *2019 meistarinn
Guttormur: 5-0
Pétur: 4-1
Arnþór: 3-2

Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular