Saturday, July 27, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 250

Spá MMA Frétta fyrir UFC 250

UFC 250 fer fram í kvöld í Las Vegas. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í fjaðurvigt kvenna: Amanda Nunes gegn Felicia Spencer

Pétur Marinó Jónsson: Amanda Nunes er nokkrum skrefum framar en samkeppnin bæði í bantam- og fjaðurvigt. Spencer er grjóthörð og góð að glíma, en er ekkert spes standandi. Eini sénsinn fyrir Spencer er að þreyta Nunes og láta hana gasa og þannig gera mistök. Til þess að það gerist þarf Spencer að vera með stjórn á bardaganum en ég held að það takist ekki. Þetta dregst á langinn en Spencer verður bakkandi mest allan tímann. Nunes klárar harða Spencer með TKO í 5. lotu.

Óskar Örn Árnason: Nunes er með tíu sigra í röð en hún getur ekki unnið endalaust, eða hvað? Spencer er einmitt andstæðingur sem gæti komið á óvart, tekið Cat Zingano á þetta og tekið beltið af Nunes. Í Zingano bardaganum leit Nunes ekki vel út á bakinu en hún hefur eflaust bætt sig síðan. Þetta er stóra stund Spencer og ef hún nær Nunes niður gæti hún hæglega unnið. Að þessu sögðu er mjög erfitt að spá á móti Nunes, hún á það til að finna leið til sigurs. Spencer sýndi góða höku gegn Cyborg svo rothögg gæti verið erfitt. Ég ætla að skjóta á gamla góð rear naked choke frá Nunes í þriðju lotu. Nunes sub 3. lota.

Guttormur Árni Ársælsson: Það kemur að því að Nunes tapar en það verður ekki í þessum bardaga. Tíu sigrar í röð á meðan Spencer er með færri bardaga en það á öllum ferlinum. Nunes mun nýta wrestlingið í þessum bardaga og pressa Spencer upp við búrið. TKO í 2. lotu.

Halldór Halldórsson: Ég ætla láta skeika að sköpum og spá Spencer sigri í kvöld. Mér finnst eins og Nunes sé búin að afreka allt það sem hún ætlaði sér og sé orðin södd. Nunes hefur mikið talað um að hún sé hrædd við Covid-19 og eru sögusagnir á kreiki um að campið hennar hafi hreinlega verið lélegt fyrir bardagann. Spencer hefur allt að vinna og engu að tapa og við fáum að sjá óvænt úrslit í kvöld. Spencer TKO í 3. lotu.

Amanda Nunes: Pétur, Óskar, Guttormur
Felicia Spencer: Halldór

Embed from Getty Images

Bantamvigt: Cody Garbrandt gegn Raphael Assuncao

Pétur Marinó Jónsson: Raphael Assuncao hefur verið einn af þeim bestu í bantamvigtinni lengi en samt aldrei náð að tryggja sér titilbardaga. Núna er hann orðinn 37 ára gamall og ég held að hans bestu dagar séu taldir. Cody Garbrandt ætti að vinna þetta en gæti alveg tapað þessu ef hann hefur ekki lært neitt af töpunum sínum þremur. Það væri óskandi ef Cody gæti fundið sama form og þegar hann vann Dominick Cruz. Þá gæti hann náð fyrri hæðum. Ég held að Cody langt frá því að vera búinn og nær fínni endurkomu í kvöld. Cody rotar aldraðan Assundao í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þetta er do or die fyrir Cody Garbrandt sem hefur verið rotaður þrjá bardaga í röð. Assuncao er líka tæpur með tvö töp í röð. Báðir þessir gaurar eru fantagóðir á góðu kvöldi en stundum ganga hlutirnir bara ekki upp hjá þeim enda mikil samkeppni í bantamvigt. Erfitt að spá fyrir þessum en ég held að Cody komi flottur til baka og geri þetta nokkuð safe, stick and move. Garbrandt eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Það er svo stutt á milli í þessu sporti. Fyrir rétt rúmum þremur árum var Cody ósigraður, nýbuinn að dómínera besta bantamvigtarmann allra tíma, Dominick Cruz, og átti að vera framtíð þyngdarflokksins. Síðan þá hefur hann verið rotaður þrisvar í röð. Ég held þó að ef að Cody getur haldið sig við leikáætlun að þá sé hann töluvert sterkari en Assuncao. Segjum KO í fyrstu lotu hjá Cody.

Halldór Halldórsson: Ég held að tíminn sem Cody varði með Mark Henry fyrir þennan bardaga hafi verið akkúrat það sem hann þurfti. Öll pressa heimsins er á herðum Cody í þessum bardaga. Ef hann tapar er hann að horfa uppá fjórða tapið í röð og langa störu í spegilinn. Ef hann vinnur í kvöld sannfærandi er hann að fara að skjóta sér aftur upp bantamvigtina og nafn hans verður á milli tannanna á fólki þegar næsti titilbardagi verður skeggræddur. Cody stígur upp í kvöld og rotar Assuncao í fyrstu lotu. Cody KO í 1. lotu.

Cody Garbrandt: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Raphael Assuncao: ..

Bantamvigt: Aljamain Sterling gegn Cory Sandhagen

Pétur Marinó Jónsson: Mest spennandi og jafnasti bardagi kvöldsins. Mjög erfitt að spá í þennan þar sem báðir eru geggjaðir. Sterling er með betra wrestling en Sandhagen hefur sýnt að hann er mjög góður að scrambla og gerði mjög vel í gólfinu gegn Assuncao. Báðir eru langir og nota lengdina vel standandi en Sandhagen er að mínu mati tæknilega betri standandi. Sterling er með óhefðbundinn stíl standandi en það hefur verið að virka. Ég held samt að Sandhagen sé bara örlítið betri og vinnur eftir dómaraákvörðun í mjög jöfnum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Besti bardagi kvöldsins á pappírum að mínu mati. Tveir banhungraðir í bantamvigt sem hefðu átt að fá að berjast um lausan titil Cejudo. Hvað um það, báðir eru hraðir pressugaurar með langan faðm og færni bæði standandi og á gólfi. Ég held að Sandhagen sé vanmetinn og láti ljós sitt skína í þessum bardaga. Hann er vinnusamari en Funk Master tekur þetta nokkuð örugglega á stigum. Sandhagen eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Frábær bardagi. Sterling hefur kannski ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar hafa verið til hans en hefur þrátt fyrir það unnið fjóra síðustu bardaga sína. Sandhagen er geggjaður, kláraði Iuri Alcantara, sigraði Raphael Asuncao og John Lineker. Ég held að hann reynist með of mikla pressu og volume fyrir Sterling og sigri þetta á stigum.

Halldór Halldórsson: Bardaginn sem verður þungamiðja athyglinnar í kvöld. Báðir bardagamenn á blússandi flugi í bantamvigtinni en að mínu mati verður óhefðbundni bardagstíll Sandhagen það sem ríður baggamuninn í kvöld. Hann á eftir að ná að halda Sterling í hæfilegri fjarlægð og koma inn góðum höggum samhliða því. Sandhagen með sigur eftir einróma dómaraúrskurð.

Aljamain Sterling: ..
Cory Sandhagen: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór

Embed from Getty Images

Veltivigt: Neil Magny gegn Anthony Rocco Martin

Pétur Marinó Jónsson: Neil Magny leit mjög vel út gegn Li Jingliang í mars. Það var frammistaða sem fékk mig til að langa að sjá meira af Magny. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af Anthony Rocco Martin. Það er eitthvað við menn sem breyta nafninu sínu úr Tony Martin í Anthony Rocco Martin sem fer í mig. Svo eru þessir bartar sem hann skartar ekki í uppáhaldi. Magny vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Magny er kominn á skrið aftur sem er gaman að sjá. Rocco Martin er góður en er undir pressu þar sem þetta er síðasti bardaginn á samningnum. Samt ekki eins og Rocco sé búinn að tapa mikið undanfarið, bara einu sinni í síðustu sex bardögum. Þetta verður nokkuð góður bardagi, líklegur til að fara í stig. Tek Magny á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Magny er einn af þessum gaurum sem maður sér bæta sig með hverjum bardaga. Hann hefur tapað nokkrum en bara gegn góðum andstæðingum (Maia, dos Anjos, Ponzi, Larkin). Ég held að hann nýti sér faðmlengdina og sigri þennan á stigum.

Halldór Halldórsson: Það er voða fátt sem kveikir í manni fyrir þennan bardaga. Læðist að manni sá grunur að UFC sé að búa til bardaga fyrir Magny til að koma sér almennilega á skrið en Rocco svarar því með sigri á stigum í tíðindalitlum bardaga. Rocco vinnur eftir klofna dómaraákvörðun.

Neil Magny: Pétur, Óskar, Guttormur
Antony Rocco Martin: Halldór

Embed from Getty Images

Bantamvigt: Eddie Wineland gegn Sean O’Malley

Pétur Marinó Jónsson: Ég er ekki alveg seldur á að Sean O’Malley sé einhver framtíðar meistari. Hann er góður og á örugglega eftir að komast á topp 10 en veit ekki hvort hann sé það góður að hann verði meistari. Eddie Wineland er með bombur í höndunum sínum en ég held að O’Malley sé of slick til að éta eina bombu frá Wineland. Þetta er smá gamli skólinn gegn nýja skólanum og sá nýi vinnur. O’Malley vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: O’Malley leit fáránlega vel út í síðasta bardaga en fær hér reynslubolta sem gæti gert þetta erfitt. Held samt að Sugar taki þetta örugglega, mun taka aðeins lengri tíma. O’Malley TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: O’Malley lítur út fyrir að hafa verið duglegur að fá sér Acai og biðja til Jesú undanfarið. En hann sýndi líka frábæra takta í seinasta bardaga og ég held að hann sigri Wineland, sem mig grunar að sé kominn á seinasta snúning. TKO hjá O’Malley í 2. lotu.

Halldór Halldórsson: O’Malley er með þennan it factor sem þarf til að verða súperstjarna og eru margir sem búast við miklu af honum. Strákurinn er ofboðalega hæfileikaríkur með stórt vopnabúr. O’Malley sem er yngri, hærri og með lengri faðm bað sérstaklega um Wineland sem sinn næsta andstæðing. O’Malley TKO í 2. lotu.

Sean O’Malley: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Eddie Wineland: ..

Heildarstig ársins:

Óskar: 17-3 *2019 meistarinn
Pétur: 14-6
Guttormur: 13-7
Halldór: 5-0
Arnþór: 5-5

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular