spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 255

Spá MMA Frétta fyrir UFC 255

UFC 255 fer fram í kvöld þar sem tveir titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í fluguvigt: Deiveson Figueiredo gegn Alex Perez

Pétur Marinó Jónsson: Þó þetta sé ekki merkilegasta bardagakvöld allra tíma þá held ég að þessi bardagi verið drullu skemmtilegur. Figueiredo er ekki vel þekktur en hann hefur klárað 16 af 19 sigrum sínum sem er ansi vel af sér vikið í fluguvigt. Perez er góður wrestler og getur vel ógnað, sérstaklega þegar líður á bardagann. Hann er auk þess með mjög góð lágspörk og ef hann getur byrjað snemma að hitta í kálfann á Figueiredo þá gæti bardaginn breyst snarlega. Figueiredo er að skera mikið niður til að ná 125 pundunum og hefur sagt að hann muni einn daginn fara upp. Ég held því að Perez eigi meiri séns þegar líður á bardagann en held það muni ekki koma til þess. Figueiredo lendir vel í 2. lotu sem sendir Perez niður og klárar svo með höggum í gólfinu. Figueiredo með TKO í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Held að þessi ráðist á því hvernig Figueiredo tekst á við lágspörkin. Hann hefur gríðarlegan sprengikraft og hraða en ef að Perez tekst að lenda nokkrum góðum á hnén á Figueiredo get ég séð fyrir mér að hann lendi í vandræðum. Figueiredo hefur þó sýnt að hann kann að bregðast við þessum spörkum en ekki alltaf gert það. Þess vegna get ég vel séð leið fyrir Perez að vinna þennan bardaga. Finnst samt líklegra að Figueiredo sprengi sér leið inn og geri bardagann ljótann ef hann þarf þess og endi á sigri í annarri lotu. Figueiredo með uppgjafartaki í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Fluguvigtin hefur verið í ákveðinni lægð eftir að Mighty Mouse yfirgaf UFC og Cejudo settist í helgan stein. Þyngdarflokkurinn var ekki með mikla dýpt fyrir og mátti illa við að missa tvö stærstu nöfnin. Núvernadi meistari Figueiredo er með spennandi stíl, pressar stöðugt áfram, er snöggur og með mikinn sprengikraft. En ég er ekki viss um að það séu margir sem vita hver hann er nema þeir sem fylgja MMA náið. Andstæðingur hans, Alex Perez, er hörku boxari og æfði box áður en hann færði sig yfir í MMA. Hann var líka All-American í háskólaglímunni en það hefur verið helsta spurningamerkið þegar það kemur að Figueiredo, sem var tekinn niður sjö sinnum í bardaga sínum við Jarred Brooks og þrisvar af Jussier Formiga. Svo er hann auðvitað með geggjuð lágspörk eins og við sáum í bardaganum gegn Jussier Formiga þar sem hann kláraði Formiga með lágspörkum. Ég ætla að tippa á að Perez komi öllum á óvart, nýti tæknilegt box og vel tímasettar fellur til að tryggja sér titilinn eftir dómaraákvörðun.

Páll Snædal Andrason: Eina leiðin fyrir Perez til að vinna þennan bardaga hugsa ég að sé með lágspörkum eins og hann sigraði Jussier Formiga með. Ég held samt sem áður að Figueiredo sé the real deal og þori ég ekki að veðja á móti honum. Figureido með röthögg í 2. eða 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Það er áhugavert að þó svo að Perez sé álitinn nýliðinn hefur hann verið jafn lengi í UFC og Figureido – munar bara nokkrum mánuðum. Báðir hafa tapað einu sinni í UFC, Perez gegn Benavidez og Figureido gegn Formiga. Þetta gæti orðið jafnara en margir halda en það er helvíti erfitt að veðja ekki á meistarann miðað við hvað hann hefur litið vel út. Ég tek Figureido, TKO í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Fyrsta titilvörn Figueiredo eftir sigurinn gegn Joseph Benavidez. Virðist vera langbestur í fluguvigtinni og skrefinu á undan restinni af þyngdarflokknum. Perez á samt alveg möguleika með því að nýta spörkin og pressa Figueiredo á réttum augnabliku. Ég held samt að Figueiredo taki þetta nokkuð örugglega eftir dómaraákvörðun.

Deiveson Figueiredo: Pétur, Brynjólfur, Páll, Óskar, Arnþór
Alex Perez: Guttormur

Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Jennifer Maia

Pétur Marinó Jónsson: Ég sé enga leið fyrir Maia að vinna þetta. Hún á afskaplega litla möguleika eins og þær flestar í fluguvigtinni. Sé ekki hvar Maia á að ógna meistaranum. Valentina er betri alls staðar og Maia mun hlaupa á hnefana á Valentinu sem beitir góðum gagnárásum. Valentina klárar hana í 3. lotu með TKO.

Brynjólfur Ingvarsson: Finnst Maia gerð fyrir Shevchenko. Hún kemur inn í beinni línu og Shevchenko getur vinklað út með hægri krók eða elt hana með beinum höggum og vinstra sparki ef Maia bakkar úr exchange’inu. Svo finnst mér líklegt að Shevchenko taki Maia niður þess á milli og stjórni henni í gólfinu. Ég held að Maia þreytist á þessu og Shevchenko klári hana í fjórðu lotu.cShevchenko með TKO í lotu 4.

Guttormur Árni Ársælsson: Shevchenko er næstbesta konan sem hefur keppt í MMA frá upphafi á eftir Amöndu Nunes. Hún er nú búin að verja fluguvigtartitilinn fjórum sinnum eftir að hafa fært sig niður 2018 og maður á erfitt með að sjá einhvern í þyngdarflokknum sem á möguleika á að valda henni vandræðum. Eini veikleiki hennar er að hún á það til að detta niður á plan andstæðingsins, þannig að þegar hún hefur mætt veikari andstæðingum er hennar eigin frammistaða oft að sama skapi lakari. Þrátt fyrir það sé ég enga leið fyrir Maia til að vinna þennan bardaga. Sheva sigrar eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.

Páll Snædal Andrason: Ég sé fyrir mér auðveldan bardaga fyrir Valentinu, hún mun pakka henni saman standandi. Ég held líka að Valentina muni taka hana niður þegar henni sýnist og fleygi góðum höggum í gólfinu líka. Valentina með tæknilegt rothögg í 4. lotu.

Óskar Örn Árnason: Bullet vs. næsta fórnarlamb. Þetta er farið að verða vandræðalegt. Ég ætla ekki einu sinni að leyfa mér að íhuga hvort Jennifer Maia eigi séns. Þessi bardagi er algjört mismatch. Sú eina sem gæti átt séns er Jessica Andrade (og kannski Calvillo) sem verður sennilega næst. Valentina vinnur á fatality í fyrstu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Sé ekki neina fluguvigtarkonu sigra Shevchenko – hún er svona nánast öruggasti meistarinn í UFC, fyrir utan kannski Amöndu Nunes. Ég held að Bullet eigi eftir að eiga nokkuð safe bardaga, engin glansbardagi, en nógu öruggur fyrir alla að kinka kolli og segja já, ég vissi þetta. Bullet sigrar eftir dómaraákvörðun.

Valentina Shevchenko: Pétur, Brynjólfur, Guttormur, Páll, Óskar, Arnþór
Jennifer Maia: ..

Hentivigt: Mike Perry gegn Tim Means

Pétur Marinó Jónsson: Þessi verður skemmtilegur! Held að það sé nokkuð öruggt. Mike Perry er samt svo vitlaus. Hann er ekki með neitt lið og auðvitað skítur hann á sig í vigtuninni. Hann var að éta pizzur og hamborgara í síðustu viku og var greinilega ekki agaður í mataræðinu. Þetta á ekki að vera svona erfiður niðurskurður fyrir hann eins og í gær en það er erfitt þegar þú ert ekki með neitt lið með þér og ert vitleysingur. Í kvöld verður ólétt kærastan hans og vinur með enga reynslu í MMA í horninu hans. Það er alltaf jafn skrítið. Perry er samt hættulegur bardagamaður, það er ekki hægt að neita því, en hann hefur ekki bætt sig neitt í nokkur ár núna. Hann mun aldrei verða meistari en getur unnið gæja eins og Tim Means. Mig langar ekki að tippa á Perry eftir skrípaleikinn í gær, en treysti ekki hökunni á Means þessa dagana. Tippa á sigur hjá Perry með rothöggi í 1. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Mike Perry hefur ekki litið vel út nýlega og spurning hvar hausinn á honum er. Hann hefur einnig átt í vandræðum með örvhenta andstæðinga áður. Tim Means elskar þó að skiptast á höggum í mikilli nálægð og þar er hann líklegur til að lenda í vandræðum. Einnig held ég að Perry sé sterkari í standandi glímunni. Þessi bardagi held ég að verði svakalegur og báðir sveiflandi leðri. Að lokum held ég að höggþyngdin skili Perry bardaganum. Perry með TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir mistækir sem eru báðir 5-5 í seinustu 10 bardögum. Perry mætti 5 pundum of þungur á vigtina í gær og maður fær á tilfinninguna að hann sé nálægt því að hætta. Ég held að á núverandi tímapunkti sé það verst geymda leyndarmál heims að Mike Perry er með hörmulegt jiu-jitsu og svo virðist hann vera með lélegustu hornamenn í bransanum. Ég held að Tim Means nýti sér reynsluna og stjórni þessum bardaga. Hann nær Perry í gólfið og klárar með uppgjafartaki í 2. lotu

Páll Snædal Andrason: Perry mun koma inn í fyrstu lotu og byrja frekar rólega eins og hann er búinn að gera í síðustu bördögum. Reynir að nota tækni frekar en að reyna að rota hann stax. Þá sé ég fyrir mér að Means haldi fjarlægð og noti faðmlengdina til að hrista aðeins upp í Perry. Mike Perry mun svo átta sig á því að það þýðir ekki á móti Means. Svo mun gamli Mike Perry mæta inn í 2. lotuna og slögga við hann. Mike Perry með rothögg í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Því miður datt Robbie Lawler út úr þessum bardaga en Tim Means fær props fyrir að bjarga honum. The Dirty Bird er reynsluhundur sem góðir gæjar vinna en hann er aldrei of auðveldur. Perry er góður en ekki einn af þeim allra bestu svo þetta gæti orðið skemmtilegt stríð. Ég held samt að Perry nái rothögginu og segi því, Perry með KO í þriðju lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Maður veit bara ekkert hvar maður hefur Mike Perry og ég held að hann hafi aldrei vitað það sjálfur heldur. Var alltof þungur í gær og hefur í raun ekki verið neitt sérstakur í UFC svona fyrir utan blábyrjunina. Fær séns hér á móti manni sem hann gæti alveg unnið, en gæti tapað auðveldlega fyrir ef hausinn er ekki rétt skrúfaður á, sem hann er sjaldnast hjá Perry. Maður fær aðeins á tilfinninguna að hann sé ekki í þessu á réttum forsendum. Ég held samt að hann hafi nóg í sér til að vinna þennan bardaga, en hann þarf svo heldur betur að fara að líta í eigin barm.

Mike Perry: Pétur, Brynjólfur, Páll, Óskar, Arnþór
Tim Means: Guttormur

Fluguvigt kvenna: Katlyn Chookagian gegn Cynthia Calvillo

Pétur Marinó Jónsson: Þessi er mikilvægur fyrir fluguvigtina. Calvillo stóð sig vel í hennar fyrsta bardaga í fluguvigtinni og Chookagian var jörðuð fyrir mánuði síðan. Calvillo ætlar að taka þetta niður en ég held að Chookagian geti haldið sér frá Calvillo með góðum hreyfanleika og stungum. Calvillo eltir en fótavinnan hjá Chookagian heldur henni frá Calvillo. Tippa á sigur hjá Chookagian eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Ég held að Chookagian sé of stór fyrir Calvillo. Ég held að hún haldi sér frá Calvillo og lendi beinum höggum og spörkum og vinni eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Saga þessa bardaga mun snúast um glímuna hjá Calvillo. Ég hef ekki trú á því að Chookagian sé með nægilega góða felluvörn til að verjast gegn Calvillo. Þessi bardagi fer allar þrjár loturnar þar sem Calvillo vinnur eftir dómaraákvörðun í einhliða bardaga.

Páll Snædal Andrason: Katlyn mun útboxa hana og heldur fjarlægð, Cynthia mun seinnilega ná henni niður einhvern tímann í bardaganum en ég held að Katlyn muni takast að standa upp í hvert skipti. Katlyn Chookagian eftir dómaraúrskurð.

Óskar Örn Árnason: Katlyn Chookagian er mætt aftur aðeins mánuði eftir tapið gegn Andrade. Þessi bardagi er eins konar lokapróf fyrir Calvillo sem ætti að detta í titilbardaga fljótlega. Ég býst við að Calvillo valti yfir Chookagian, ef ekki mun hún aldrei eiga séns í Valentinu. Calvillo með uppgjafartak í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Hér eru líkamsburðir gegn hæfileikum. Chookagian gæti eflaust stjórnað þessum bardaga auðveldlega með því að nota hæð og styrk, ef ekki væri fyrir glímuna og jitsið hjá Calvillo. Fyrir mér er þetta tvísýnt, en ég held að Calvillo taki þennan bardaga. Klárar Chookagian með höggum eða uppgjafartaki í gólfinu.

Katlyn Chookagian: Pétur, Brynjólfur, Páll
Cynthia Calvillo: Guttormur, Óskar, Arnþór

Léttþungavigt: Shogun Rua gegn Paul Craig

Pétur Marinó Jónsson: Manni langar ekkert rosalega að sjá Shogun berjast þessa dagana en honum hefur verið að ganga vel. Unnið fimm af síðustu sjö bardögum sínum sem er bara fínt fyrir 38 ára gamlan Shogun. Er ekki mikill aðdáandi Paul Craig en hann er grjótharður og hefur bætt sig standandi. Hann er ekki lengur að láta smassa sig í gólfinu þangað til hann nær uppgjafartakinu á síðustu stundu. Fyrri bardagi þeirra endaði með jafntefli en þar gekk Shogun best ofan á í gólfinu. Ég held að Shogun komi sterkur til leiks hér og vinni Craig með bara smá lay’n’pray í fremur óspennandi bardaga. Shogun eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Paul Craig hefur loksins ákveðið að bæta sig standandi og það held ég að verði saga þessa bardaga. Shogun hefur ekki farið mikið fram á seinustu árum og sinnir nokkurs konar starfi sem gatekeeper. Því er spurningin hversu mikið hefur Craig farið fram og ég tel að hann hafi bætt sig nóg til að sigra Shogun. Þar sem Craig klárar alla sína bardaga tel ég að hann klári þennan líka í fyrstu lotu. Craig með uppgjafartak í 1. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Þessir tveir mættust fyrir ári síðan og sá bardagi endaði sem jafntefli. Shogun er 38 ára og árið 2014, þegar hann hafði tapað 4 af seinustu 5, var ég algjörlega búinn að afskrifa hann. En alltaf heldur hann áfram og tekst sífellt að vinna bardaga hér og þar og nú er svo komið að hann hefur unnið 5 af síðustu 7. Ég held að þessi bardagi fari allar þrjár loturnar og spái því að gamla kempan Shogun standi uppi sem sigurvegari eftir dómaraákvörðun. Svo má hann fara að hætta.

Páll Snædal Andrason: Mér fannst Paul Craig vinna síðasta bardaga þeirra sem fór jafntefli. Paul Craig er búinn að bæta sig helling síðan í síðasta bardaga en Shogun er frekar útbrenndur og sé ég ekki fram á miklar bætingar hjá honum. Paul Craig með triangle choke í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Shogun Rua er enn að böðlast þetta í búrinu 15 árum eftir að hann vann Grand Prix í Pride sælla minninga. Fyrsti bardagi þessa kappa endaði í jafntefli en Shogun hefði átt að fá sigurinn. Virðist einfaldlega vera betri þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Ég tek Rua á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Elsku Shogun. Ég held að kallinn hefði átt að hætta fyrir nokkru síðan, hann hefur lítið fram að færa lengur þó hann sé með 5 sigra í síðustu 7 bardögum. Hann er að nálgast fertugt, á ekki möguleika á titlinum lengur og er bara í þessu til að hafa gaman grunar mig. Mig langar að sjá hann klára Craig og hætta svo bara. Gömlu góðu dagarnir eru búnir.

Shogun Rua: Pétur, Guttormur, Óskar, Arnþór
Paul Craig: Brynjólfur, Páll

Heildarstig ársins:

Óskar: 36-10
Pétur: 33-13
Guttormur: 33-13
Halldór: 20-11
Arnþór: 13-8
Páll: 4-2
Sævar: 4-2
Brynjólfur: 3-3

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular