Sunday, May 5, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 258

Spá MMA Frétta fyrir UFC 258

UFC 258 fer fram í kvöld þar sem þeir Kamaru Usman og Gilbert Burns mætast í aðalbardaga kvöldsins. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá.

Titilbardagi í veltivigt: Kamaru Usman gegn Gilbert Burns

Pétur Marinó Jónsson: Það sem er áhugaverðast við þennan bardaga er sú staðreynd að þeir eru fyrrum æfingafélagar og hafa tekið yfir 200 lotur gegn hvor öðrum. Þeir vita báðir hvernig þetta getur farið. Þar sem báðir eru í heimsklassa hafa þetta verið jafnar lotur en báðir vita hvað gerist í kvöld og hvað ber að varast. Vissulega gæti Usman komið með eitthvað nýtt með nýja þjálfaranum Trevor Wittman en Burns veit hverju hann er að mæta í kvöld.

Mér finnst eins og Burns líði betur standandi en Usman þó hann sé ekki endilega betri kickboxari heldur en Usman. Burns er með góðan vinstri krók og lágspörk sem eru sennilega hans bestu vopn. Aftur á móti veit Usman af þessum vopnum Burns eftir allar æfingarnar og hefur örugglega undirbúið svör við því síðustu mánuði. Usman vildi ekki fara í gólfið með Maia en veit örugglega hvað ber að varast gegn Burns og gæti verið óhræddur við að fara með bardagann þangað í kvöld.

Usman virðist samt alltaf geta tekið bardagann í clinchið upp við búrið og drepið tímann þar. Usman er líka með frábært þol og getur keyrt upp tempóið í bardaganum ef hann þarf þess. Það er erfitt að spá gegn Usman og tippa ég á að hann vinni eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Burns er góður alls staðar en Usman er vél, fokking terminator sem rotar þig ekki en heldur áfram að elta þig og nagar þig niður á 25 mínútum. Það er mögulega verra en rothögg. Ég býst við nokkuð klassískri Usman frammistöðu, bein högg standandi, pressa upp við búrið, stöðubarátta og Usman ofan á. Usman sigrar á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Usman er rosalegur en ég held að Burns gæti verið kryptónítið hans. Samkvæmt þeim hafa þeir tekið yfir 200 lotur saman í búrinu þar sem þeir voru æfingafélagar. Þannig þeir ættu að þekkja leikinn hjá hvor öðrum inn og út. Usman treystir mikið á að geta haldið andstæðingnum upp við búrið en það gæti orðið erfitt á móti Burns þar sem ég hald að hann sé ekki hræddur við fellurnar hans Usman og mun því ekki láta hann pressa sig að búrinu. Felluvörnin hans Burns er ekki frábær en hann vinnur það upp með því að vera mjög góður að koma sér aftur á fætur. Þannig ég held að Usman geti ekki haldið honum niðri né upp við búrið.

Þá erum við komnir með standandi bardaga sem ég held að Burns ætti að hafa yfirhöndina naumlega. Margir hafa talað um að Usman sé orðin betri standandi eftir seinustu tvo bardaga en ég held að það hafi meira haft með andstæðingana að gera en miklar framfarir hjá honum. En ef einhver er að fara ná að halda einhverjum niðri þá verður það Burns þar sem hann er mjög góður að blanda inn góðum fellum og verður þá mjög spennandi að sjá Usman á bakinu. Einnig verður mjög áhugavert að sjá lágspörkin hjá Burns og hvernig Usman mun takast á við þau. Hann hefur lengi talað um það að vera með ónýt hné. Usman er þó höggþyngri og að þessi bardagi sé í litla 25 feta búrinu hjálpar Usman. Burns eftir dómaraúrskurð.

Guttormur Árni Ársælsson: Burns er búinn að fá þægilegasta ride í titilbardaga sem ég man eftir. Sigraði þrjá nobodies áður en hann mætti Gunna Nels og var svo að tapa þeim bardaga þangað til að svona mínúta var eftir. Mætir svo 43 ára Maia og nánast fertugum sprungnum Woodley. Ekki einn top contender in their prime og nú er hann kominn í titilbardaga. Þetta run endar hér og Usman sópar gólfið með honum og sigrar eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Finnst leiðir Burns til sigurs of fáar og langsóttar. Held að Usman stjórni fyrir utan með löngum beinum höggum og framspörkum og liggi síðan á honum við búrið þar sem ég held að Usman sé bara of stór og sterkur. Usman eftir einróma dómaraákvörðun.

Kamaru Usman: Pétur, Óskar, Guttormur, Brynjólfur
Gilbert Burns: Sævar

Fluguvigt kvenna: Maycee Barber gegn Alexa Grasso

Pétur Marinó Jónsson: Ég er nokkuð spenntur fyrir þessum enda báðar með skemmtileg vopn og tæknilega góðar. Það verður áhugavert að sjá Barber koma aftur eftir slæm meiðsli. Hún er ennþá dálítið hrá standandi og Grasso gæti vel útboxað hana. Ég held samt að Barber muni á endanum taka hana niður og býst við góðri endurkomu hjá henni í kvöld. Barber með uppgjafartak í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Ferill Grasso hefur verið ákveðin vonbrigði en hún leit nokkuð vel út síðast og er komin með talsverða reynslu. Þetta verður því ekki auðvelt en ég held að Barber verði með þyngri höggin og taki þetta á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið ágætt fyrir Barber að tapa í síðasta bardaga á móti Roxy. Núna hefur hún haft rúmlega ár til að þróast og bæta sig, þó að hluti af þeim tíma hafi vissulega farið í endurhæfingu eftir hnémeiðslin. Barber er einfaldlega sterkari og ætti að geta pressað Grasso þangað til að hún brotnar. Grasso er mjög góð og tæknileg en hefur lent í veseni þegar hún er pressuð og bardaginn er kannski ekkert rosalega fallegur. Barber með TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Batt vonir við Grasso en hún hefur ekki staðið undir væntingum. Barber er sterkari og sigrar á stigum

Brynjólfur Ingvarsson: Barber er stór og sterk og ef hún nær að blanda inn fellunum á hún sigurinn en ég held að Grasso nái að halda bardaganum nógu mikið standandi og sigra eftir dómaraákvörðun. Grasso klofin dómaraákvörðun.

Maycee Barber: Pétur, Óskar, Sævar, Guttormur
Alexa Grasso: Brynjólfur

Millivigt: Kelvin Gastelum gegn Ian Heinisch

Pétur Marinó Jónsson: Kelvin Gastelum er búinn að vera í veseni og tapa þremur í röð en allt gegn sterkum andstæðingum. Þetta er gott próf fyrir Heinisch til að sjá hvar hann stendur í millivigtinni en ég held að Gastelum sé ennþá meðal þeirra bestu. Gastelum vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta er sérsniðinn comeback bardagi fyrir Kelvin, ef hann vinnur þetta ekki gæti hann verið búinn. Heinisch er seigur wrestler en ekki efni í topp 10. Enn einn bardaginn eftir dómaraákvörðun en ég held að Kelvin vinni á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Gastelum hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið, en hann ætti þó að vera miklu betri bardagamaðurinn. Einnig er hann mjög lítill í millivigt en vegna þess er hann mjög hraður. Gastelum virðist ekki alltaf vera mjög agaður og ef hann var ekki all in að æfa fyrir bardagann gæti hann alveg tapað. Þá gæti þetta vel verið seinasti bardaginn hans í UFC. Heinisch er góður en Gastelum er einfaldlega betri og vinnur þetta ef hann nennir því. Gastelum eftir dómaraúrskurð

Guttormur Árni Ársælsson: Gastelum ætti að sigla þessi heim þó svo að Heinisch sé seigur og með hörku úthald. Gastelum á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Gastelum hefur sterkari vopn og ætti að vera betri á öllum sviðum. Held samt að Heinisch sé nógu hreyfanlegur til að Gastelum eigi erfitt með að koma sér af stað og bardaginn verði frekar leiðinlegur. Gastelum einróma dómaraákvörðun.

Kelvin Gastelum: Pétur, Óskar, Sævar, Guttormur, Brynjólfur
Ian Heinisch: ..

Millivigt: Maki Pitolo gegn Julian Marquez

Pétur Marinó Jónsson: Julian Marquez hefur lítið barist á undanförnum árum. Virðist vilja bara fara í stríð og vera svona ekta brawler en Pitolo er aggressívur líka svo þetta ætti að verða skemmtilegur bardagi. Marquez er með betri höku og ég held að það skili honum sigri í kvöld. Marquez nær að standa af sér árásir Pitolo og vinnur eftir dómaraákvörðun í skemmtilegu stríði.

Óskar Örn Árnason: Pitolo er á hraðri útleið. Marquez sigrar á rothöggi í annarri.

Sævar Helgi Víðisson: Mjög erfitt að spá fyrir um þennan bardaga þar sem Marquez lenti í hræðilegum bakmeiðslum og var óvíst hvort að hann gæti einhvern tímann barist aftur. Þannig allt í kringum hann er mjög óljóst, einnig var hann með lélegt þol fyrir meiðslin og þau hafa líklega ekki hjálpað því. En ég treysti þó á hann vegna þess að hann getur verið miklu betri en Pitolo. Marquez með KO/TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Eiginlega bara spurning hvor mætir lélegri til leiks. Ef Marquez er búinn að jafna sig á bakmeiðslum tekur hann þetta með TKO í 2. lout.

Brynjólfur Ingvarsson: Verð að viðurkenna að þessa tvo þekki ég ekki svo ég fylgi straumnum og segi Marquez með rothöggi í 2. lotu.

Maki Pitolo: ..
Julian Marquez: Pétur, Óskar, Sævar, Guttormur, Brynjólfur

Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular