Wednesday, April 24, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 262

Spá MMA Frétta fyrir UFC 262

UFC 262 fer fram í kvöld þar sem nýr léttvigtarmeistari verður krýndur. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í léttvigt: Charles Oliveira gegn Michael Chandler

Pétur Marinó Jónsson: Þessi er rosalega áhugaverður. Oliveira er alltaf hættulegur en hann hefur farið upp á nýtt level á síðustu árum. Hann á auðvitað metið yfir flest uppgjafartök í sögu UFC en er líka hættulegur standandi. Hann stendur eins og tannstöngull en er samt alltaf ógnandi með hnén og getur auðveldlega gripið um hálsinn eins og kyrkislanga ef einhver skýtur inn. Michael Chandler gerði allt rétt í frumraun sinni í UFC í janúar og er klárlega höggþyngri en Oliveira. Oliveira er með vörnina hátt uppi og Chandler er duglegur að fara í skrokkinn. Það gæti verið vopn sem hann notar vel í kvöld. Báðir vilja pressa og stjórna miðjunni í búrinu en það gæti boðið okkur upp á góða skemmtun. Chandler er góður glímumaður en það er spurning hvort hann ætti að taka sénsinn á því. Oliveira er svo fljótur að fara í uppgjafartök og sífellt ógnandi í gólfinu. Held að Chandler verði betri eftir því sem líður á bardagann á meðan Oliveira mun byrja vel en fjara fyrr út. Þetta verður hörku bardagi en tippa á að Chandler taki þetta með TKO seint í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Frekar ruglað að Chandler skuli vera kominn í þessa stöðu eftir að hafa barist hálfa lotu í UFC. Ég held að annað hvort verði þetta rothögg frá Chandler í fyrstu eða Oliveira þegar líður á bardagann eða stigum. Chandler hefur aldrei verið subbaður en Charlie Olives er ekkert djók í glímunni. Ég ætla að veðja á Oliveira, submission í þriðju.

Brynjólfur Ingvarsson: Þetta verður frábær bardagi. Mjög erfitt að segja til um hvernig þessi fer en sem mikill Chucky Olives maður hef ég trú á honum hér. Báðir vilja pressa og þetta gæti orðið flugeldasýning í miðju búri. Ég held að það verði erfiðara fyrir Chandler að pressa Oliveira en Hooker vegna framsparkana. Ég held hann muni eiga erfitt með að loka fjarlægðinni, sækja í fellur til að reyna að taka stjórn á bardaganum en falla þar í lás hjá Oliveira. Oliveira sub lota 2.

Sævar Helgi Víðisson: Báðir þessir bardagamenn eru með mjög skýra leið að sigri; Chandler vill rota þig með þungum höggum en Oliveira vill taka þig niður og hengja þig. Ég reikna með því að Olivera nái að forðast þungu höggin hans Chandler og nái honum niður seinna í bardaganum og hengir hann. Olivera sub 3. lota.

Guttormur Árni Ársælsson: Geggjaður bardagi. Frábær sigur hjá Chandler í síðasta bardaga en ég er ekki enn seldur á að hann sé topp 3 gaur í UFC. Góður wrestler með kraft í höndunum. Charlie Olives hefur mætt svona mönnum áður og sigrað. Oliveira eftir submission.

Charles Oliveira: Óskar, Brynjólfur, Sævar, Guttormur
Michael Chandler: Pétur

Léttvigt: Tony Ferguson gegn Beneil Dariush

Pétur Marinó Jónsson: Þessi er líka mjög áhugaverður. Dariush gæti alveg farið sömu leið og Oliveira gerði gegn Ferguson og bara glímt Ferguson í drasl. En ég ætla að tippa á að Ferguson sé betur undirbúinn fyrir þannig leikáætlun núna heldur en síðast. Ferguson er kannski alveg búinn en ég hef ennþá trú á að hann sé nógu góður til að halda sér í topp 5. Hann er samt orðinn 37 ára gamall og fallið getur verið ansi hratt þegar menn byrja að tapa á þessum aldri. Dariush mun byrja vel en svo kemur geðveikin í Tony og hann vinnur sig betur inn í þetta. Tippa á TKO hjá T-Ferg í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þetta verður do or die fyrir Tony Ferguson. Maðurinn sem sigraði 12 í röð virðist vera á útleið enda 37 ára gamall. Dariush er hálfgerður dark horse í léttvigt, búinn að vinna 6 í röð og líta ferlega vel út. Ég held að þetta verði stór stund fyrir Dariush, hann sigrar Tony á stigum og kemur sér í titilumræðuna.

Brynjólfur Ingvarsson: Því miður þá held ég að Tony sé búinn. Ég held að Dariush viti að það eina sem hann þarf að gera er að sparka hnéð undan Tony og svo hefur Dariush frábærar fellur og er einn af þeim bestu í gólfinu. Ég held að hann stjórni bardaganum frá byrjun til enda. Dariush eftir einróma dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Mjög erfiður bardagi til að spá í. Tony hefur litið mjög illa út í síðustu bardögum og það má færa rök fyrir því að hann sé búinn. Þrátt fyrir það held ég að hann taki þennan bardaga en á samt mjög erfitt með að færa rök fyrir því. Tony eftir dómaraákörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Annar geggjaður bardagi. Tony er alltaf skemmtilegur en ég held að aldurinn sé farinn að segja til sín. Dariush eftir dómaraákvörðun.

Tony Ferguson: Pétur, Sævar
Beneil Dariush: Óskar, Brynjólfur, Guttormur

Fluguvigt kvenna: Katlyn Chookagian gegn Viviane Araújo

Pétur Marinó Jónsson: Þessi þyngdarflokkur snýst aðallega um að komast að því hver er næstbest á eftir Valentinu Shevchenko. Katlyn Chookagian er mjög góð að vinna á stigum og er ein sú besta í að sigla þessu heim þegar þess þarf. Araujo hefur gengið vel í UFC og unnið fjóra af fimm bardögum sínum. Hún gæti tekið þetta með því að nota fellurnar þar sem Chookagian hefur stundum verið í vandræðum með felluvörnina. Ætla samt að tippa á klassískan Chookagian sigur þar sem hún vinnur á stigum.

Óskar Örn Árnason: Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist hér. Chookagian er seig þó hún geti ekki unnið þær allra bestu. Ég tek Chookagian á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi mun held ég koma mörgum á óvart og vera mjög góður bardagi. Báðar eru mjög well rounded en Chookagian stjórnaði fjarlægð vel í síðasta bardaga sínum og það gefur mér von að hún nái að halda Araujo frá sér og sigla heim sigri á stigum. Chookagian eftir einróma dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Chookagian hefur einungis tapað á móti þeim allra bestu og það er Araujo ekki. Chookagian er frábær í að vinna bardaga á stigum þar sem hún lendir alltaf mikið af höggum og mætir með gott leikplan í bardagann. Chookagian dómaraákörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Chookagian sigrar þennan á stigum.

Katlyn Chookagian: Pétur, Óskar, Brynjólfur, Sævar, Guttormur
Viviane Araujo: ..

Fjaðurvigt: Shane Burgos gegn Edson Barboza

Pétur Marinó Jónsson: Þessi verður mjög skemmtilegur. Burgos er mjög góður en er pínu misjafn. Hann er stór í flokknum og ansi höggþungur. Barboza er samt alltaf hættulegur og með mjög góð spörk. Hann hefur samt ekki verið upp á sitt besta á síðustu árum og er farinn að dala. Mjög erfitt að tippa á þennan en giska á Burgos eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þessi ætti að verða skemmtilegur. Burgos mun sennilega aldrei vinna titil en hann er alltaf erfiður. Barboza er alltaf hættulegur en hann er orðinn 35 ára og farinn að dala. Veðja á Burgos, TKO í þriðju.

Brynjólfur Ingvarsson: Þetta verður önnur veisla, Burgos er með stanslausa pressu en Barboza hefur alltaf brotnað og hlaupið undan mikilli pressu. Hann hefur þó sýnt einhverjar bætingar síðan hann fór niður í fjaðurvigt, fleiri högg og betri fótavinnu. Burgos pressar frekar hægt og ég held að Barboza muni finna tækifærin til að lenda hröðu spörkunum sínum í bland við kröftug högg. Barboza TKO lota 3.

Sævar Helgi Víðisson: Þetta er annar mjög jafn bardagi, en ég reikna með því að Burgos nái að pressa Barboza og halda honum bakkandi sem er algert lykilatriði í þessum bardaga. Ef Burgos nær að halda góðri pressu ætti hann að vinna þetta eftir dómaraákvörðun. Síðan hafa mjög fáir í UFC tekið jafn mikið af höggum og Barboza hefur étið yfir ferilinn. Burgos eftir dómaraákörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Barboza lendir oft í vanda þegar andstæðingurinn pressar hann afturábak. Ég held að Burgos geri það og sigri eftir dómaraákvörðun.

Edson Barboza: Brynjólfur
Shane Burgos: Pétur, Óskar, Sævar, Guttormur

Hentivigt (137 pund*): Matt Schnell gegn Rogério Bontorin

Pétur Marinó Jónsson: Þessi gæti verið skemmtilegur enda tveir sem hafa klárað flesta af sínum sigrum. Schnell hefur átt fína spretti hér og þar en það er samt mjög auðvelt að gleyma honum. Mér fannst Bontorin líta vel út til að byrja með síðast en var einhvern veginn búinn að láta rota sig áður en 1. lota kláraðist. Bontorin skeit á sig í vigtuninni í gær sem er áhyggjuefni fyrir mann sem berst vanalega flokki neðar en ætla samt að tippa á að hann klári þetta með uppgjafartaki í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þessi gæti orðið góður. Hef ekki sterkar skoðanir en held að Schnell sé ferskari, tek hann á uppgjafartaki í fyrstu.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessa þekki ég lítið, sé að Bontorin er að koma inn sem varamaður með tiltölulega stuttum fyrirvara og því held ég að Schnell nái að draga þetta á langinn og gera Bontorin erfitt fyrir í seinni lotunum eftir að lenda í veseni snemma. Schnell eftir einróma dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Bontorin búinn að tapa tveimur í röð í fluguvigt en kemur núna með stuttum fyrirvara inn í bardaga í bantamvigt. Báðir þessir bardagar hafa þó verið frekar furðulegir. Í fyrri bardaganum náði Ray Borg ekki vigt og vann eftir klofna dómaraákörðun. Í hinum bardaganum byrjaði hann vel en bardaginn var stoppaður furðulega þegar það voru 5 sekúndur eftir í fyrstu lotu. Schnell er finn standandi en hann er ekki með góða höku og honum vantar styrk. Bontorin mun ná honum niður og vinna tvær lotur í jöfnum bardaga. Bontorin eftir dómaraákörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta gæti orðið fínasti bardagi. Bontorin sigrar á stigum.

Matt Schnell: Óskar, Brynjólfur
Rogerio Bontorin: Pétur, Sævar, Guttormur

Heildarstig ársins:

Brynjólfur: 16-8
Sævar: 15-9
Pétur: 15-9
Óskar: 14-10
Guttormur: 9-10

Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular