spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÚrslit UFC 262

Úrslit UFC 262

UFC 262 fór fram í nótt fyrir framan fulla höll af áhorfendum í Houston, Texas. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Charles Oliveira og Michael Chandler en hér má sjá úrslit kvöldsins.

Aðalbardagi kvöldsins olli ekki vonbrigðum. Michael Chandler byrjaði af góðum krafti og lenti góðum höggum sem fengu Oliveira til að skjóta í fellu. Chandler greip þá um háls Oliveira og reyndi „guillotine“ hengingu en Oliveira slapp. Í gólfinu reyndi Chandler að sprengja sig upp en Oliveira náði bakinu á honum. Oliveira var því kominn í kjörstöðu og nóg eftir af lotunni. Chandler var þó þolinmóður, varðist vel og komst á endanum aftur upp.

Chandler fór strax að sækja á Oliveira í standandi viðureign og vankaði hann með góðum króki. Oliveira féll niður og lét Chandler þung högg dynja á honum eins og hann gerði gegn Dan Hooker. Oliveira náði þó að koma sér í „guard“ en Chandler hélt áfram að veita honum þung högg þar. Erfiður endir á 1. lotu og augnablikið svo sannarlega með Chandler.

Oliveira byrjaði 2. lotu af krafti og lenti fullkomnum vinstri krók sem sendi Chandler á rassinn. Chandler kom sér strax upp en Oliveira fylgdi því eftir með fleiri höggum og svo öðrum vinstri krók sem sendi Chandler aftur niður. Dómarinn stöðvaði bardagann og er Oliveira því nýr léttvigtarmeistari UFC!

Magnaður bardagi og frábær endurkoma hjá Oliveira eftir bras í 1. lotu. Oliveira er 31 árs gamall og hefur verið í UFC í 10 ár en er nú meistari. Þetta var hans 9. sigur í röð og verður áhugavert að sjá hvern hann fær í sinni fyrstu titilvörn.

Tony Ferguson mætti Beneil Dariush í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Þessi bardagi var eins og hálfgert framhald af tapi Ferguson gegn Charles Oliveira í desember enda náði Dariush honum niður í hverri lotu. Ferguson var aldrei líklegur í bardaganum en í 2. lotu náði Dariush „heel hook“ sem virtist meiða Ferguson. Dariush sagði eftir bardagann að hann hefði heyrt einhvern smell í hné Ferguson og átti Ferguson erfitt með að hreyfa sig í 3. lotu. Dariush vann eftir dómaraákvörðun og var þetta hans 7. sigur í röð.

Andre Muniz átti einn óvæntasta sigur kvöldsins. Það voru einhverjir sem reiknuðu með sigri Muniz gegn Ronaldo ‘Jacare’ Souza en sennilega mjög fáir sem héldu að Muniz myndi klára Jacare með uppgjafartaki. Muniz klemmdi hönd Jacare í 1. lotu í armlás með þeim afleiðingum að hún brotnaði! Ekki fallegt að sjá en Jacare virtist þó ekki kvarta mikið þrátt fyrir slæmt brot.

Aðalhluti bardagakvöldsins:

Titilbardagi í léttvigt: Charles Oliveira sigraði Michael Chandler með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 19 sekúndur í 2. lotu.
Léttvigt: Beneil Dariush sigraði Tony Ferguson eftir dómaraákvörðun (30–27, 30–27, 30–27).
Hentivigt (137 pund): Rogério Bontorin sigraði Matt Schnell eftir dómaraákvörðun (30–27, 30–27, 29–28).
Fluguvigt kvenna: Katlyn Chookagian sigraði Viviane Araújo eftir dómaraákvörðun (29–28, 29–28, 30–27).
Fjaðurvigt: Edson Barboza sigraði Shane Burgos með rothöggi (punches) eftir 1:16 í 3. lotu.

ESPN / ESPN+ upphitunarbardagar:

Millivigt: André Muniz sigraði Ronaldo Souza með uppgjafartaki (armbar) eftir 3:59 í 1. lotu.
Fjaðurvigt: Lando Vannata sigraði Mike Grundy eftir klofna dómaraákvörðun.
Millivigt: Jordan Wright sigraði Jamie Pickett með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 1:04 í  1. lotu.
Fluguvigt kvenna: Andrea Lee sigraði Antonina Shevchenko með uppgjafartaki (triangle armbar) eftir 4:52 í 2. lotu.

ESPN+ / UFC Fight Pass upphitunarbardagar:

Fluguvigt kvenna: Priscila Cachoeira sigraði Gina Mazany með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 4:51 í 2. lotu.
Fjaðurvigt: Tucker Lutz sigraði Kevin Aguilar eftir dómaraákvörðun.
Léttvigt: Christos Giagos sigraði Sean Soriano með uppgjafartaki (brabo choke) eftir 59 sekúndur í 2. lotu. 

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular