Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaSpá MMA Frétta fyrir UFC 269

Spá MMA Frétta fyrir UFC 269

UFC 269 fer fram í kvöld og er það síðasta stóra bardagakvöld ársins. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í léttvigt: Charles Oliveira gegn Dustin Poirier

Pétur Marinó Jónsson: Þessi verður þrælspennandi. Oliveira er ríkjandi meistari en flestir á því að Poirier sé besti léttvigtarmaður heims um þessar mundir. Það kemur í ljós í kvöld. Oliveira er mögulega betri bardagaíþróttamaður en það er meiri hundur og meira stál í Poirier. Dustin mun pressa og setja upp hátt tempó í bardaganum og hann getur haldið því yfir fimm lotur – veit ekki hvort Oliveira geti það. Poirier getur gert þetta að stríði og þrífst í þannig bardögum. En Oliveira getur gert góðan skaða með því að berjast í kickbox fjarlægð, notað löngu vopnin sín og sparkað að vild enda óhræddur um að vera tekinn niður. Poirier mun sennilega halda þessu meira í vasanum eða box fjarlægð en þarf alltaf að passa upp á hálsinn. Ég held að Poirier klári þetta með TKO í 3. lotu í hörku bardaga.

Óskar Örn Árnason: Þessi verður spennandi, mjög ólíkir stílar hér á ferð og báðir reynslumiklir og almennt góðir. Það eru nokkuð góðar líkur á að Dustin muni hreinlega vera of yfirþyrmandi og rota Oliveira en ég er að hugsa um að taka sénsinn á meistaranum. Segi að Oliveira muni þjarma að honum upp við búrið, draga hann niður og kyrkja í fyrstu lotu. Oliveira með sigur.

Brynjólfur Ingvarsson: Er mikill Chucky Olives maður og ætla að leyfa mér að dreyma að hann nái Dustin niður snemma og að hann nái því í þrjár lotur áður en hann nær að klára Dustin á hengingu. Þetta er samt mjög erfiður bardagi að spá og ég gæti vel trúað að Dustin roti Oliveira. Oliveira étur reglulega þung högg og ég held að hann gæti verið viðkvæmur fyrir yfirhandar hægri frá Dustin. Einnig hefur Oliveira nokkrum sinnum hent sér í guillotine og tapað þannig og það kæmi mér heldur ekki mikið á óvart ef hann myndi tapa á hengingu. Eins og ég sagði í leikgreiningunni finnst mér Dustin einnig líklegri ef bardaginn fer í seinni loturnar og því væri kannski skynsamlegt að halda að hann gæti tekið þetta en ég hef trú á mínum manni. Oliveira lota 3 rear naked choke.

Guttormur Árni Ársælsson: Virkilega spenntur fyrir þessum og tveir kappar sem ég held mjög mikið upp á. Ég hef alltaf haft mikla trú á Oliveira en ég held að Poirier gæti reynst erfiður bardagi fyrir hann. Ég sé ekki fyrir mér að Oliveira geti subbað Dustin og ég held að Dustin sé talsvert betri boxari. Ég held að Oliveira eigi eftir að þreytast eftir því sem líður á bardagann og Dustin nái TKO í 4. lotu.

Charles Oliveira: Óskar, Brynjólfur
Dustin Poirier: Pétur, Guttormur

Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Amanda Nunes gegn Julianna Peña

Pétur Marinó Jónsson: Það er mjög erfitt að sjá hvernig Juliana Pena á að vinna þetta. Það eru nokkrir hlutir sem vinna með Pena en þetta eru samt allt hálfgerð strá sem maður er að grípa í. Pena er búin að fá langan tíma til að undirbúa sig fyrir þennan bardaga enda áttu þær að mætast í ágúst. Nunes hefur síðan ekki barist í 135 pundum í tvö ár og gæti átt erfiðari niðurskurð og mögulega fjarað út þegar líður á bardagann. Pena ætti því að setja pressu á Nunes frá fyrstu sekúndu, reyna að ná fellunni og þreyta Nunes. Það verður erfitt og er hægara sagt en gert. Nunes getur þannig séð gert allt sem hún vill. Svo lengi sem Nunes er ennþá að nenna þessu og ekki að gera þetta með hangandi hendi þá vinnur hún þægilega. Nunes með sigur með rothöggi í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Verð að viðurkenna að ég er spenntari fyrir þessum bardaga eftir að hafa séð blaðamannafundinn. Samt er á brattann að sækja hjá Pena og sigur mjög ólíklegur. Ég tek Nunes, TKO 3. lota.

Brynjólfur Ingvarsson: Annað lamb leitt til slátrunar. Pena er 2-2 í seinustu 4 og var hengd af De Randamie. Hún á samt að vera glímukonan og var hengd af kickboxaranum. Sé ekki að hún eigi nokkurn séns og ég held að Nunes reynist snemma of höggþung. Pena er opin fyrir höggum og notar engar fléttur. Nunes held ég að finni í fyrstu fléttu hvað þetta verður auðvelt. Hún leikur sér aðeins að Pena en klárar um miðbik fyrstu lotu. Nunes rothögg lota 1.

Guttormur Árni Ársælsson: Pena var spennandi prospect í TUF fyrir átta árum síðan en svo finnst mér einhvern veginn ekkert hafa gerst. Var subbuð af De Randemie í fyrra, sem er sparkboxari að upplagi og hafði aldrei áður unnið bardaga eftir uppgjafartak. Ég held því miður að Nunes valti yfir hana í fyrstu lotu. TKO Nunes.

Amanda Nunes: Pétur, Óskar, Brynjólfur, Guttormur
Juliana Pena: ..

Veltivigt: Geoff Neal vs. Santiago Ponzinibbio                

Pétur Marinó Jónsson: Ég held að þessi verði mjög skemmtilegur. Ponzinibbio er kannski ekki sá vinsælasti hér á landi en hann er drullu góður bardagamaður og sérstaklega standandi. Hann hefur samt kannki ekki verið alveg sá sami eftir veikindin sín en ennþá hættulegur. Eftir ölvunarakstur Geoff Neal er ég ekkert alltof bjartsýnn fyrir hans hönd og tippa á að Ponzinibbio taki þetta eftir dómaraákvörðun í skemmtilegum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Þessi verður áhugaverður. Neil er efnilegur en hefur tapað tveimur í röð og fær hér erfiðan andstæðing. Ponsinn er svoddan hundur að ég held að hann verði of erfiður fyrir Neil. Pons tekur þetta á stigum.

Brynjólfur Ingvarsson: Þennan finnst mér erfitt að spá um. Southpaw ætti að drepa öll sterkustu vopn Pons, stunguna og kálfasparkið. En miðað við hvernig Neil hefur litið út og að hann var tekinn fyrir 2 vikum fyrir DWI efast ég um að hausinn á honum sé á réttum stað. Ég spái sterkri fyrstu lotu hjá Neil en að Pons taki yfir í annarri og vinni að lokum eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Eins mikið og ég væri til í að spá Neil sigri þá held ég að Ponz taki þetta örugglega. Neil tekinn í einhverju rugli að keyra fullur með óskráða skammbyssu um daginn og búinn að tapa tveim í röð. Ponz með sigur eftir dómaraákvörðun.

Geoff Neal: ..
Santiago Ponzinibbio: Pétur, Brynjólfur, Guttormur, Óskar

Fluguvigt: Kai Kara-France gegn Cody Garbrandt     

Pétur Marinó Jónsson: Það hefur ekki verið mikið í gangi í toppstykkinu á Cody Garbrandt í síðustu bardögum. Hann freistar þess nú að ná titlinum í fluguvigt og gæti hann alveg fengið titilbardaga með sigri í kvöld en takmarkanir hans sem bardagamaður verða þær sömu í fluguvigt og í bantamvigt. Garbrandt var heldur ekki með neitt geggjaða höku í bantamvigt og spurning hvernig hann verður eftir niðurskurð í fluguvigt. Kara-France er enginn svaka rotari þó og nær Garbrandt að fara í gegnum Kai Kara-France og klárar hann með rothöggi í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Hér er Kai Kara-France kominn í alvöru bardaga, spurning hvernig hann höndlar það. Það er erfitt að spá þessu á móti Cody. Tek Cody No Love með rothöggi í annarri lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Cody að fara niður um flokk sem hefur yfirleitt verið skammbúinn vermir hjá gæjum sem eru komnir í þrot í sínum flokki. Ég held að stærðarmunurinn geti komið sér vel fyrir Cody. Kara-France er þó góður standandi og getur auðveldlega gefið Cody vandræði. Cody held ég að hafi nógu gott wrestling til að bjarga sér ef hann lendir í veseni standandi og Kara-France á það til að standa og skiptast á höggum en þar held ég að Cody hafi yfirhöndina. Ég segi að Cody taki tvær lotur á fellum og vinni dómaraákvörðun eftir að Kara-France vinnur þriðju lotu gegn þreyttum Cody.

Guttormur Árni Ársælsson: Cody hefur ekki gegnið frábærlega undanfarið en þetta er klárlega bardagi sem hann ætti að geta unnið. Cody með KO í fyrstu.

Kai Kara-France: ..
Cody Garbrandt: Pétur, Óskar, Brynjólfur, Guttormur

Bantamvigt: Raulian Paiva gegn Sean O’Malley

Pétur Marinó Jónsson: Sean O’Malley heldur áfram að trolla aðdáendur með því að segjast vera ósigraður í Unranked Champion bolum en hann er drullu góður bardagamaður. Paiva er góður en fær alltof mikið af höggum í sig. O’Malley mun finna hökuna á honum og tippa á að O’Malley roti Paiva í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Paiva vann sinn síðasta bardaga en leit ekkert sérstaklega vel út. Ég held að þetta verði frekar auðvelt fyrir Suga, tek bara rothögg í fyrstu lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Paiva veður áfram með andlitið fyrst. Hann verður snemmbúin jólagjöf fyrir Suga sem mun lenda öllu sem hann fleygir. Paiva er þó nokkuð harður af sér og lifir af fyrstu lotu. Sean tekur lotu 2 í pásu en klárar Paiva í þriðju. Suga lota 3 TKO.

Guttormur Árni Ársælsson: O’Malley virðist ekki ætla að fá alvöru andstæðing. Verið að byggja hann upp hægt eins og eitthvað prospect í boxinu. Suga Sean með TKO í 2.

Raulian Paiva: ..
Sean O’Malley: Pétur, Óskar, Brynjólfur, Guttormur

Heildarstig ársins:

Brynjólfur: 44-16
Pétur: 39-21
Óskar: 38-22
Guttormur: 33-25
Sævar: 28-19

Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular