Saturday, May 4, 2024
HomeForsíðaSpá MMA Frétta fyrir UFC 274

Spá MMA Frétta fyrir UFC 274

UFC 274 fer fram í kvöld en hér má sjá spá MMA Frétta fyrir kvöldið.

Titilbardagi í léttvigt: Charles Oliveira vs. Justin Gaethje*

*Aðeins titilbardagi fyrir Gaethje þar sem Oliveira náði ekki vigt

Pétur Marinó Jónsson: Ekki gott að Oliveira skildi ekki hafa náð vigt. Hann hefur svo sem áður verið í vandræðum með vigtina en það var í fjaðurvigt! Og nú nær hann ekki vigt í léttvigt. Hvað um það er þetta virkilega spennandi bardagi. Það er aldrei gaman að standa með Justin Gaethje en Oliveira sýndi það bæði gegn Chandler og Poirier að hann er mjög hættulegur standandi líka. Gaethje er sannfærður um að Oliviera muni brotna (eins og svo margir hafa beðið eftir) og ætlar eflaust að gera það með stanslausri pressu. Það gæti virkað en það gæti líka komið í bakið á honum ef Gaethje gerir ráð fyrir að Oliveira brotni og svo muni það ekki gerast. Gaethje þarf bara að vera eins vondur og hann getur. Bomba í lappirnar hans og lemja hann í skrokkinn. Ég ætla samt (í fyrsta sinn í langan tíma) að tippa á Oliveira. Held hann nái Gaethje í einhverju scrambli og hengi hann í 3. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Ég er mikill Chucky Olives maður og hef trú á mínum manni en finnst þessi bardagi mjög 50/50. Margir hafa talað um að Oliveira hafi tekið við af Ferguson og því miður get ég séð Gaethje gera það sama og hann gerði gegn Ferguson fyrir 2 árum. Ég held að hann muni vanka Oliveira snemma og að hann verði þolinmóður en hlaupi ekki inn í guardið hjá Oliveira. Aftur á móti hefur Oliveira fín vopn standandi og ég hef trú á að hann muni ná Gaethje upp við búrið og taki bakið hans þaðan. Ég held að Gaethje verjist vel í byrjun en þegar líði á muni Oliveira læsa henginguna. Chucky Olives sub 4. lota

Óskar Örn Árnason: Þetta er bardagi þar sem nánast hvað sem er gæti gerst, nema kannski að Geathje vinni með uppgjafartaki. Allt annað er líklegt. Að því sögðu hallast ég að meistaranum. Hann hefur þroskast mikið á undanförnum árum og finnur leið til sigurs aftur og aftur. Geathje á sennilega eftir að meiða hann en ég held að Olveira vinni sig úr því. Segi Oliveira, standing RNC, 2. lota.

Guttormur Árni Ársælsson: Oliveira náði ekki vigt og var yfir sem nemur 227 grömmum og er þar með sviptur titlinum. Brútal regla en svona er þetta víst. Það er spurning hvaða áhrif þessi niðurskurður mun hafa á frammistöðu Oliveira. Ég held þó að þessi bardagi henti Oliveira betur en margir virðast telja. Mér finnst Gaethje aðallega svona durable, hættir aldrei, en set stórt spurningamerki við gólfglímuna hans. Var svæfður úr mounted triangle af Khabib og mér finnst hann vera einn af þessum gaurum sem allir tala um að sé geggjaður wrestler en ég hef bara aldrei séð það. Finnst hann bara brawler. Ég spái því að Oliveira subbi hann í 2. lotu með triangle.

Titilbardagi í strávigt kvenna: Rose Namajunas gegn Carla Esparza

Pétur Marinó Jónsson: Ekki mest spennandi enduratið en Esparza hefur unnið fyrir þessu. Carla þarf að gera þetta eins leiðinlegt og hún getur. Halda Rose niðri og núlla út vopn Rose. Rose er með flott vopnabúr og sé ég fyrir mér að hún haldi Carla frá sér með lengdinni, fótavinnu og hraða. Rose tekur þetta nokkuð örugglega eftir dómaraákvörðun í fremur ómarkverðum bardaga.

Brynjólfur Ingvarsson: Endurat 8 árum seinna. Rose hefur bætt sig mikið og er með eina bestu stungu í sportinu. Hún ætti að geta notað hana til að halda Esparza af sér og refsað með vinstri krók ef Carla kemur of nálægt. Það má þó ekki vanmeta Esparza sem hefur mjög gott wrestling og gæti hæglega stjórnað Rose upp við búrið og jafnvel náð nokkrum góðum fellum og stjórnað Rose. Ég spái jöfnum bardaga þar sem deilt verður um niðurstöðuna, Rose lendir höggunum en Esparza stjórnar búrinu.Rose split dec.

Óskar Örn Árnason: Mér finnst frábært að Carla sé að fá þetta tækifæri þó svo að enginn vilji sjá það. Hún á það einfaldlega skilið og þannig á þessi íþrótt að virka. Á sama tíma held ég að hún eigi litla möguleika á móti nútíma útgáfu af Thug Rose. Ég held að Rose verjist fellum og boxi Esparza í sundur svipað og þegar Esparza mætti Jędrzejczyk. Namajunas, TKO í þriðju.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að þetta gæti orðið hörku bardagi, Esparza með gott wrestling og Rose sterkari standandi tel ég. Ég spái því að Rose haldi fjarlægð og stjórni bardaganum standandi. Thug Rose eftir dómaraákvörðun.

Léttvigt: Michael Chandler gegn Tony Ferguson

Pétur Marinó Jónsson: Ég er smá tættur þegar kemur að þessum bardaga. Maður hefur áhyggjur af Tony Ferguson og er ég ansi hræddur um að Chandler sé að fara að valda smá skaða. Ferguson hefur verið langt frá sínu besta í síðustu þremur bardögum og sjaldnast sem menn ná fyrri getu á þessum aldri. Tippa á að Chandler berji Ferguson yfir þrjár lotur en Tony verður of harður og fer allar þrjár loturnar.

Brynjólfur Ingvarsson: Ferguson heldur áfram að fá erfiða bardaga. Hann á því miður lítið erindi í þennan bardaga. Hann gæti þó komist í gegnum fyrstu lotuna á hörku og þá eru góðar líkur á að Chandler sé sprunginn. Ég efast þó um að Ferguson nái að notfæra sér það og held að Chandler komi til baka og vinni þriðju lotu.Chandler einróma dómaraákvörðun

Óskar Örn Árnason: Ég vona svo innilega að þetta verði jafn og spennandi bardagi en óttast, líkt og sennilega allir, að Tony sé hreinlega búinn. Stórkostleg endurkomka El Cucuy væri frábær en ég held að líklegasta niðurstaðan sé að Chandler muni valta yfir hann og rota í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Núna á heldur betur að byggja Chandler upp. Ferguson því miður alveg búinn á því og hefur ekki unnið lotu í mörg ár. Ég spái því að Chandler dómíneri hann í þrjár lotur og sigri eftir dómaraákvörðun.

Léttþungavigt: Mauricio ‘Shogun’ Rua gegn Ovince St. Preux

Pétur Marinó Jónsson: Maður var eiginlega búinn að gleyma að Shogun væri ennþá að berjast. Þetta er nú ekki spennandi bardagi ef ég á að segja eins og er. OSP búinn að vera hrikalega lélegur undanfarið og Shogun búinn að vera of gamall í svona áratug. Held að OSP sé einhvern veginn aðeins betri og vinni með TKO í 2. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Tveir gamlir kallar sem eru ekkert að fara að gera í flokknum. Shogun hefur lítið barist nýlega en OSP verið rotaður í síðustu tveimur. Ég held samt að OSP sé of stór og mikill íþróttamaður fyrir Shogun og held að hann noti fellurnar til að vinna frekar þægilega fyrstu tvær. Ég hugsa að hann verði orðinn þreyttur í þriðju og lendi í veseni en að Shogun nái ekki að klára hann.OSP einróma dómaraákvörðun

Óskar Örn Árnason: Það tók OSP 34 sekúndur að rota Shogun árið 2014. Nú er Rua fertugur, hefur ekki barist síðan 2020 og fær annað tækifæri. Það er mjög erfitt að hafa mikla trú á goðsögninni, get ekki sagt annað. Ég held að þetta verði annaðhvort annað rothögg eða sigur á stigum fyrir OSP, ekkert Von Flue á Rua. OSP, TKO 2. lota.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir fertugir mæta hér til leiks. OSP unnið tvo af seinustu sjö og Shogun ekki með mikið betra record undanfarið, þó hann sé vissulega legend. Ég er búinn að vera að óska eftir því að Shogun setji hanskana á hilluna í mörg ár núna en þetta sleppur kannski svo lengi sem hann er að keppa við aðra fertuga gaura. OSP wrestlar sig til sigurs eftir dómarákvörðun.

Léttvigt: Donald Cerrone gegn Joe Lauzon

Pétur Marinó Jónsson: Svo sem ágætt að þessir tveir séu að mætast í svona old boys bardaga í stað þess að mæta ungum og hungruðum gæjum. Lauzon ekki barist lengi og Cerrone ekki unnið í 6 bardögum í röð. Held að Cerrone sé þrátt fyrir allt aðeins ferskari. Cerrone vinnur eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Cerrone held ég að hafi fleiri leiðir til sigurs. Þetta eru þó aftur tveir gamlir hundar og því gæti hvor sem er verið kláraður eftir lítið vesen. Bardaginn gæti orðið skemmtilegur í gólfinu með mikið af sóknum en ég held að standandi stýri Cerrone og endi bardagann á hásparki í annarri.Cerrone TKO lota 2.

Óskar Örn Árnason: Mér finnst frábært þegar gömlu gæjarnir fá bardaga við hæfi, þ.e. berjast við hvorn annan. Spurningin er þá yfirleitt, hvor er ferskari. Lauzon hefur ekki barist í þrjú ár en hann vann þó sinn síðasta bardaga á meðan Cerrone hefur ekki unnið í sex bardögum í röð. Auk þess er Cerrone eldri. Lauzon TKO í þriðju, FOTN.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir gamlir og góðir. Ég hef alltaf fílað Lauzon og vona að hann sigri þetta eftir einhverjar flottar rimmur á gólfinu. Lauzon með sigur eftir heel hook lotu þrjú.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular