Íþróttaaðdáendur eru margir hverjir hjátrúafullir, en sem dæmi eru margir með “happatreyju” eða álíka þegar lið þeirra spila. Margir NFL aðdáendur halda því fram að sérstök bölvun hvíli á leikmönnum sem birtast framan á Madden NFL tölvuleiknum. Frá árinu 1999 hafa 16 leikmenn orðið þess heiðurs aðnjótandi að birtast á forsíðu leiksins. Þessir leikmenn eru oftast á hápunkti ferilsins og telst þetta því nokkur heiður. Hins vegar hafa 14 af þessum 16 leikmönnum lent í alvarlegum meiðslum eða spilað hræðilega næsta tímabili eftir að hafa birst á forsíðu leiksins og hefur það fyrirbæri verið kallað Madden bölvunin.
Nú hafa nokkrir MMA aðdáendur tekið eftir svipaðri bölvun sem tengist ákveðnu UFC plakati frá árinu 2010. Plakatið sýnir alla þáverandi meistara UFC, frá vinstri til hægri: B.J. Penn, Lyoto Machida, Brock Lesnar, Anderson Silva og George St. Pierre.
Einn af öðrum hafa þessir meistarar misst beltin sín, en það sem er áhugaverðara er að þeir virðast hafa gert það í réttri tímaröð frá vinstri til hægri. Það hófst með því að B.J. Penn, sem er lengst til vinstri, tapaði titlinum til Frankie Edgar í apríl 2010. Í maí sama ár tapaði Lyoto Machida titlinum til Mauricio ‘Shogun’ Rua. Það var því nokkuð ljóst hvað myndi gerast í október þegar Brock Lesnar mætti Cain Velasquez. Brock var næstur á plakatinu og átti lítið í Cain sem kláraði hann í fyrstu lotu. Á sjö mánaða tímabili höfðu þrír af fimm meisturum því tapað titli sínum.
Næst var röðin komin að Anderson Silva en hann var rotaður í annari lotu gegn Chris Weidman í júlí á þessu ári og því ljóst að allir meistararnir á plakatinu höfðu glatað titilinum – frá vinstri til hægri – fyrir utan einn herramann: George St. Pierre. Eins og staðan er í dag lítur plakatið því svona út:
George St. Pierre hefur nú varið titilinn átta sinnum og hefur unnið 18 bardaga í UFC. Sigur gegn Hendricks myndi gera hann að sigursælasta bardagakappa í UFC frá upphafi, með 19 sigra, en fyrrum veltivigarmeistarinn Matt Hughes deilir nú þeim heiðri með honum. St. Pierre hefur sigrað 11 titilbardaga, jafn marga og Anderson Silva, og myndi sigur gegn Hendricks því færa honum það met að auki.
Þeir sem eru hjátrúafullir ættu þó að veðja húsinu á sigur Hendricks því samkvæmt plakatabölvuninni er tími St. Pierre sem meistara liðinn. St. Pierre mætir Johny Hendricks á UFC 167 þann 16. nóvember og verður fróðlegt að sjá hvort St. Pierre takist að fresta bölvuninni eða hvort Hendricks takist að uppfylla hana.