UFC 231 fer fram á laugardaginn þar sem Gunnar Nelson mætir Alex Oliveira. Nóg er af spennandi bardögum á kvöldinu en Henry Birgir Gunnarsson hjá Stöð 2 Sport er spámaður helgarinnar að þessu sinni.
Henry Birgir er staddur í Toronto þessa vikuna og er ekkert eðlilega spenntur fyrir bardagakvöldinu. Henry er stjórnandi þáttarins Búrið sem er á dagskrá fyrir öll stóru bardagakvöld UFC á Stöð 2 Sport. Gefum Henry orðið.
Titilbardagi í fjaðurvigt: Max Holloway gegn Brian Ortega
Geggjaður bardagi. Fyrirfram auðvelt að setja seðilinn á Max en það veit enginn nákvæmlega hvað kom fyrir Holloway fyrr á árinu. Það ruglar alla vel í ríminu og því erfitt að segja hvernig Holloway kemur í bardagann. Það hefur ekki verið skortur á nýjum meisturum og ég held að Ortega klári bardagann í þriðju lotu á rothöggi.
Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Joanna Jedrzejczyk
Valentina hefur smá forskot eftir að hafa unnið Joönnu þrisvar á öðrum vettvangi. Held að „mojoið“ sé svolítið farið hjá Joönnu. Shevchenko finnur í fyrstu lotunni að hún er sterkari og rotar þá pólsku í annarri lotu.
Veltivigt: Alex Oliveira gegn Gunnar Nelson
Gunni er mjög hungraður í að minna aftur rækilega á sig. Stórhættulegur andstæðingur sem getur gert okkar manni lífið verulega leitt. Ég held að Gunni verði klókur, nái honum niður í fyrstu lotu og klári á rear naked choke.
Fjaðurvigt: Hakeem Dawodu gegn Kyle Bochniak
Verður frábær bardagi sem vonandi fer allar loturnar. Bochniak vinnur á dómaraúrskurði.
Léttþungavigt: Jimi Manuwa gegn Thiago Santos
Ég hef alltaf haft gaman af Jimi en held það sé enn nóg bensín á kallinum. Hann mun þurfa að hafa fyrir þessu en rotar Santos í annarri lotu.