UFC 239 fer fram um helgina og er svo sannarlega um risa bardagakvöld að ræða. Til að fara betur yfir þetta stóra bardagakvöld þarf stóran mann í það.
Auglýsingamaðurinn og umboðsmaðurinn Snorri Barón er spámaður helgarinnar fyrir UFC 239. Snorri starfar með íþróttamönnum á borð við Gunnari Nelson, Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur, Söru Sigmundsdóttur, Björgvini Karli og fleirum og fylgist vel með MMA heiminum. Gefum honum orðið.
Titilbardagi í léttþungavigt: Jon Jones gegn Thiago Santos
Léttþungavigtin er í smá basli í augnablikinu. Daniel Cormier er ekki sennilegur til að vilja berjast við Jon Jones aftur og mun sennilega bara vilja halda sig uppi í þungavigtinni og hengja svo upp hanskana. Jon Jones hefur síðan sína djöfla að draga og það er erfitt að taka mark á manni sem fellur á lyfjaprófum hægri vinstri. Aðrir í þessum þyngdarflokki eru eiginlega bara ómarktækir eins og staðan er núna, slíkur er munurinn á þeim og Jones. Anthony Smith átti ekki séns í Jones þegar þeir mættust og núna er Santos sá sem fær að skora á hann. Santos er frábær. Mikill ævintýramaður og mjög gaman að horfa á hann berjast. Hann tekur stóra sénsa og mætir alveg klár í að slást. Hann á bara ekki fræðilegan séns í helvíti. Jones fer með þennan bardaga þangað sem honum sýnist. Ef hann nennir í fleiri en eina lotu þá gerir hann það og ef hann vill klára þetta strax þá gerir hann það. Jones er allan daginn að fara að sigra þetta. Eina spurningin er hvernig.
Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Amanda Nunes gegn Holly Holm
Amanda Nunes er búin að berja allar þær sem settar hafa verið fyrir framan hana. Hún gekk frá Cyborg í seinasta bardaga og ég hreinlega veit ekki hvernig Holly Holm á að fara að því að fá neitt út úr þessum bardaga. Holm er frábær striker, en Nunes er ennþá betri og hún er bara á vegferð þar sem hún er hreinlega ósigrandi. Þessi bardagi mun fara í stoppage eftir að Nunes verður búin að lenda aðeins of mörgum þungum höggum. Hennar sigurgöngu er hvergi nærri lokið.
Veltivigt: Ben Askren gegn Jorge Masvidal
Þetta er eiginlega aðalbardaginn. Masvidal sló í gegn í London í mars þegar hann bókstaflega gekk frá Darren Till. Ben Askren var alveg 0 sannfærandi gegn Robbie Lawler í fyrsta UFC bardaganum sínum, en náði einhvern veginn samt að kreista fram sigur. Þessum strákum leiðist ekki að rífa kjaft og mjög erfitt að spá hvernig þetta fer. Það liggur fyrir að Masvidal er grjótharður og fjölhæfur. Hann er líka náttúrulegur barsmiður og hefur talað með hnefunum frá unga aldri. Hann er ekki að fara að missa fókus og Askren er ekki að fara að ná að taka hann á taugum. Askren er sennilega betri glímumaður en hann á alveg eftir að sanna að hann sé allt hitt sem hann segist vera. Þetta verður æsispennandi bardagi og ég ætla að gefa Masvidal hann. Hann er bara svo óútreiknanlegur að ég spái að Askren eigi eftir að vera í tómu basli með að finna ryþmann. Masvidal klárar þetta svo með rothöggi í annari lotu.
Léttþungavigt: Jan Blachowicz gegn Luke Rockhold
Þessir strákar kunna að slást. Á góðum degi er Luke Rockhold ósigrandi og á slæmum degi geta allir sigrað hann. Hvernig þessi bardagi fer byggist á því hvort hann sé orðinn svangur aftur og hvort hann hafi nennt að gera sig almennilega kláran því Jan Blachowicz er langt því frá að vera auðveldur andstæðingur. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vona að Luke sé til í slaginn og ég ætla að spá að hann roti hann í fyrstu lotu með headkick.
Veltivigt: Michael Chiesa gegn Diego Sanchez
Diego Sanchez er búinn að vera lengi í bransanum. Of lengi að mínu mati og þó hann sé frábær bardagamaður þá er þetta farið að taka sinn toll. Michael Chiesa veit ég ekki alveg hvað mér á að finnast um. Hann tók rútuárás Conor McGregor mjög nærri sér og hefur ekki verið mjög sannfærandi síðan þá. Hann vann reyndar seinasta bardaga og það á móti Carlos Condit, sem er legend. En líkt og með Diego Sanchez þá finnst mér að Condit eigi að vera löngu búinn að hengja upp hanskana. Það eru alveg góðar líkur á að Chiesa taki þetta enda yngri og ferskari, en ég óttast að þessi bardagi verði ekki nein sérstök veisla.