spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Stefán Jakobsson (UFC 247)

Spámaður helgarinnar: Stefán Jakobsson (UFC 247)

Mynd: Kristvin Guðmundsson.

Spámaður helgarinnar fyrir UFC 247 er Stefán Jakobsson. Jon Jones mætir Dominick Reyes um helgina og spáir Stefán meistaranum sigri.

Stefán Jakobsson er söngvari hljómsveitarinnar DIMMU sem tekur þátt í forkeppni Eurovision um helgina. Stefán fylgist vel með MMA heiminum og hefur gert síðan Gunnar Nelson byrjaði að vekja athygli á sér áður en UFC ævintýrið byrjaði. Þar áður fylgdist hann með boxinu og er hann því vel með á nótunum í MMA heiminum. Gefum honum orðið.

Titilbardagi í léttþungavigt: Jon Jones gegn Dominick Reyes

Þetta er bardagi sem Jones ætti að sigra prinsippsins vegna og mun að öllum líkindum gera það. Reyes er samt fullur sjálfstrausts og segist vera búinn að finna glufur á leik Jones. Það er ekkert sem Jones hefur ekki heyrt eða séð áður. Mig langar að segja að það verði óvæntur sigur hjá Reyes snemma í bardaganum. Jafnvel um miðja aðra lotu. Ef það heppnast ekki mun Jones aðlagast Reyes eins og hann gerir við alla sína andstæðinga og mæta honum á óþægilegum stöðum og sigra. Jones baðst afsökunar á síðasta bardaga sem var ekki mikið fyrir augað. Ég held að Jones vilji ekki fara allar loturnar og mun sigra í fjórðu lotu þar sem dómarinn mun stoppa bardagann vegna uppgjafartaks eða hinum sígildu höggum í gólfinu eftir að hafa mulið Reyes niður.

Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Katlyn Chookagian

Maður verður hálf móður við að bera þessi nöfn fram. Þetta verður þolinmæðis vinna milli kattarins og músarinnar. Shevchenko mun þurfa að bíða eftir tækifærum til að gera gagnárás á Chookagian sem verður dugleg að forða sér og halda Shevchenko frá sér með spörkum. Þessi bardagi fer líklega alla leið og endar með einróma dómaraákvörðun Shevchenko í hag. Mig grunar að þessi bardagi nái aldrei neinu flugi þar sem Chookagian mun átta sig á því fljótlega að hún fær á baukinn ef hún gerir árás á Shevchenko og mun vera á flótta nánast allan tímann.

Þungavigt: Juan Adams gegn Justin Tafa

Justin Tafa er sennilega með eitt ljótasta tattú sem sést hefur á síðari árum. Fyrir það eitt á hann skilið að tapa. Ég er ekkert sérstaklega spenntur fyrir þessu bardaga. Ég held að bardaginn fari að mestu fram á gólfinu þar sem Adams mun hafa sigur á stigum. Það er samt alveg smuga að Tafa nái KO höggi um miðjan bardaga – af því gefnu að Adams missi fókus við að horfa á þetta forljóta tattú. Ég held mig samt við dómaraákvörðun Adams í vil.

Fjaðurvigt: Mirsad Bektic gegn Dan Ige

Þessi bardagi verður erfiður fyrir báða aðila. Báðir frábærir glímumenn og góðir standandi. Ég held að bardaginn fari langt, jafnvel allar þrjár loturrnar. Mig langar að taka sénsinn og segja að bardaginn fari að mesti fram standandi. Þar mun Bektic kasta fram örvæntingafullum vinstri krók, Ige grípur tækifærið við opnunina, nær góðri fléttu og klárar bardagann með höggum í gólfinu. TKO í þriðju lotu hjá Ige.

Þungavigt: Derrick Lewis gegn Ilir Latifi

Áhugaverður bardagi þar sem Lewis er búinn að létta sig mikið síðan í síðasta bardaga. Á sama tíma er Latifi búinn að vera að þyngja sig. Ég hallast að sigri Latifi þar sem hann ætti að vera hraðari en Lewis og líklega betri í gólfinu. Þó að hægri höndin á Lewis sé hraðari en mönnum grunar, þá held ég að Latifi hafi hreinlega fleiri vopn í sínu búri til að spila úr og sigri á TKO í annarri lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular