Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentStaðan: Millivigt (185 pund)

Staðan: Millivigt (185 pund)

chris weidman 1111Við höldum áfram að fara yfir stöðuna í hverjum þyngdarflokki fyrir sig í UFC og í dag tökum við fyrir millivigtina. Það er óhætt að segja að flokkurinn hafi aldrei verið jafn spennandi og nú.

Þyngdarflokkurinn: Millivigt (185 pund – 84 kg)

Eftir að Anderson Silva ríkti sem kóngur í ríki sínu í mörg ár tapaði hann titlinum til Chris Weidman. Síðan þá hefur flokkurinn galopnast og er orðinn einn mest spennandi flokkurinn í UFC. Dave Menne var fyrsti millivigtarmeistari UFC en tókst ekki að verja beltið en Rich Franklin var sá fyrsti til að verja beltið í UFC. Veltivigt Pride (185 pund líkt og millivigt UFC) sameinaðist millivigtinni þegar að Dan Henderson (síðasti veltivigtarmeistari Pride) mætti Anderson Silva árið 2008.

Meistarinn

Chris Weidman er núverandi millivigtarmeistari UFC eftir að hafa sigrað Anderson Silva tvisvar. Hann hefur síðan þá varið beltið sitt gegn Lyoto Machida og Vitor Belfort og eru miklar vonir bundnar við hann. Meiðsli hafa þó tafið framgöngu hans í UFC en vonandi eru þau að baki. Weidman er frábær glímumaður og gríðarlega andlega sterkur.

Chris Weidman er með einstakt hugarfar

Næstu áskorendur

Luke Rockhold er næstur í röðinni en óvíst er hvenær hann og Weidman mætast. Kapparnir hefðu líklegast mæst í desember á fyrsta UFC viðburðiunum í New York ef íþróttin hefði verið lögleidd í ríkinu. Svo var hins vegar ekki og er óvíst hvar næsta titilvörn New York búans Chris Weidman fer fram. Þá eru þeir Yoel Romero og ‘Jacare’ Souza ekki langt undan.

chris weidman og luke rockhold
Chris Weidman og Luke Rockhold

Hversu líklegt er að við fáum nýjan meistara?

Luke Rockhold er talin mikil ógn við meistarann og má búast við frábærum bardaga þeirra á milli þegar þeir mætast. Aftur á móti telja margir að Weidman geti orðið einn sá besti í sögunni og gæti hann hæglega komist á þann stall með sigri á Rockhold, Jacare og Romero.

Mikilvægir bardagar framundan

Það er ekkert svakalega margt spennandi framundan í millivigtinni eins og er. Fastlega er gert ráð fyrir að þeir Yoel Romero (#3) og Jacare (#2) mætist og mun sigurvegarinn þar fá næsta titilbardaga á eftir Rockhold. Engin dagsetning er þó komin á þann bardaga. Á morgun mætast þeir Micheal Bisping (#9) og Thales Leites (#10) í Skotlandi.

Hverjir eru efnilegir?

Sam Alvey hefur komið skemmtilega á óvart að undanförnu í UFC og sigrað þrjá bardaga í röð – allt með rothöggi í fyrstu lotu. Þá eru þeir Josh Samman og Elias Theodorou 3-0 í UFC en fáir sem reikna með að þeir komist nálægt titli í UFC.

Einhverjir hættulegir utan UFC?

Mamed Khalidov er KSW meistarinn og margir sem vilja sjá hann í UFC. Þá væru Bellator meistarinn, Brandon Halsey, og WSOF meistarinn, Dave Branch, skemmtilegar viðbætur við UFC en ólíklegt að þeir kæmust alla leið í UFC.

Goðsagnir

Anderson Silva. Svo einfalt er það. Ríkti sem millivigtarmeistari UFC í langan tíma og vann 16 bardaga í röð í UFC. Einn besti bardagamaður allra tíma, ef ekki sá besti, og er goðsögnin í millivigtinni. Rich Franklin verður lengi minnst og þá er auðvitað Dan Henderson algjör goðsögn en barðist bæði í millivigt og léttþungavigt.

anderson belfort

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular